132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[19:36]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er full ástæða til að spyrja hæstv. forseta hvort nú standi ekki yfir fundur forseta með formönnum þingflokka.

(Forseti (BÁ): Forseti taldi sig hafa upplýsingar um að þeim fundi væri lokið, a.m.k. fékk forseti ekki önnur skilaboð en þau að það ætti að halda við þá áætlun að hefja fund aftur kl. 19.30.)

Herra forseti. Það væri æskilegra að við hefðum einhverjar fréttir af þeim fundi því að ég trúi því að sá fundur hafi verið ætlaður til að koma einhverju lagi á það skipulag sem hér hefur verið viðhaft og hæstv. forseti tilkynnti að nú hefði verið boðaður kvöldfundur. Ef hæstv. forseti hefur ekki aðrar upplýsingar en þær að fundurinn sé væntanlega búinn og engin niðurstaða hafi orðið af fundinum er eiginlega lágmark, herra forseti, að við fáum nákvæma skilgreiningu á því hvað kvöldfundur þýði þetta kvöldið. (Gripið fram í.)

(Forseti (BÁ): Forseti getur upplýst að kvöldfundir vilja dragast á langinn á hinu háa Alþingi.)

Hæstv. forseti. Ber að skilja þessa túlkun svo að kvöldfundur gæti þá þýtt næturfundur? Er það rétt skilið, hæstv. forseti?

(Forseti (BÁ): Eins og áður hefur komið fram getur forseti ekki tjáð sig um það hvenær kvöldfundi muni ljúka en ætlun forseta er að halda áfram fundi hér og gefa ræðumönnum sem eru á mælendaskrá í málinu tækifæri til að tjá skoðanir sínar. Forseti vonast til þess að umræður um fundarstjórn forseta verði ekki það langar að það dragist úr hófi.)

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin þó að þau hafi ekki verið skýr en það er augljóst af þessu að ekki er búið að ganga frá neinu skipulagi á þingstörfum. Því má gera ráð fyrir að hér verði ekki aðeins kvöldfundur, heldur næturfundur. Það er eiginlega alveg nauðsynlegt að virðulegur forseti tali skýrt út um það að ætlunin sé að hér verði næturfundur því að í dag hefur margoft komið fram að mjög skilmerkilega hefur verið spurt hvaða fyrirkomulag sé væntanlegt.

Ég sé að þingflokksformönnum hefur fjölgað mjög í salnum þannig að ég geri ráð fyrir að skýringar muni koma á því hvað gerðist á fundi forseta með þingflokksformönnum þannig að það sé hugsanlegt að ræða málið örlítið út frá niðurstöðu þess fundar. Ég vænti þess, miðað við þau orð sem hér féllu í dag, að þar hafi komið fram a.m.k. beiðni og vonandi vilji meiri hluta þingflokksformanna til að þetta mál yrði skoðað sérstaklega. Ég trúi því ekki, virðulegur forseti, að gengið sé fram hjá mjög skýrum óskum varaformanns iðnaðarnefndar og varaformanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins um að sest verði yfir þetta mál til að leita leiða (Forseti hringir.) til að koma skikki á umræðuna.