132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[19:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. forseti hafi fylgst með fréttum í kvöld þar sem var viðtal við forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, (Gripið fram í.) hæstvirtan. Hann var nú ekki hæstvirtur í sjónvarpinu, ekki nefndur svo. (Gripið fram í: Hér er hann hæstvirtur.) Já, en hann er ekki viðstaddur. (Gripið fram í.) Þar sagði forsætisráðherra að þetta mál sem væri hér til umfjöllunar væri í rauninni ekki neitt neitt, þetta væri bara formbreyting, bara verið að laga málið að einhverjum hæstaréttardómi. (SigurjÞ: Kvótakerfið.) Svo var hann spurður, hæstv. forsætisráðherrann: Heyrðu, að hvaða hæstaréttardómi ertu þá að laga þetta mál, úr því að þetta er svona stórmál? Segðu okkur þá hvaða hæstaréttardómur þetta er sem setur þingið allt á annan endann til að laga lögin að hæstaréttardómi. Það væri fróðlegt að heyra lögskýringu frá lögfræðingi um hvort það eigi að laga lögin að hæstaréttardómi.

(Forseti (BÁ): Forseti vill hvetja hv. þingmenn til að ræða fundarstjórn forseta þegar þeir taka til máls undir þessum dagskrárlið.)

Ég var einmitt að fara að árétta það hvort forseti hefði hlýtt á þetta, að hér væri verið að láta þingið, undir stjórn forseta, ræða mál sem að mati forsætisráðherra skiptir engu máli. Hvers konar vinnulag er þetta? Svo er ekki einu sinni hægt að gefa upp hvenær forseti vill ljúka þessu. Síðan getur forsætisráðherra úti í bæ, hæstvirtur, verið með meiningar um það að þingið ræði hér mál sem engu máli skipti. Mér finnst að forseti ætti að kalla forsætisráðherra inn í þing og láta hann frekar svara gagnvart þinginu hvers vegna verið sé að ræða mál með svona miklum yfirgangi eins og hér er gert af hálfu stjórnarliða ef það skiptir engu máli, ef það á bara að vera til að staðfesta einhvern hæstaréttardóm sem forsætisráðherra gat ekki einu sinni nefnt hver væri.

Mér finnst að forseti beri miklu meiri ábyrgð en svo að geta látið forsætisráðherra komast upp með það að tala svona úti í bæ. (Gripið fram í.) Hann á að kalla hann hingað inn og hér getur hann þá verið til svara en ekki láta hann vera að leiksoppast … (BJJ: Bölvaður útlendingur.) (Gripið fram í.) (KÓ: Þeir gera það í útlöndum.) (DrH: … úti í bæ.) Ja, ég hef talið að forsætisráðherra ætti að taka mark á honum og þá er eins gott að hæstv. forsætisráðherra komi hér inn í þing og tjái þinginu að þetta mál sem hér er rætt skipti engu máli, herra forseti.