132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[19:51]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég velti núna fyrir mér stöðu minni þar sem ég kem inn fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og á undan mér var hv. þm. Hlynur Hallsson sem var búinn að tala tvisvar í 2. umr. um vatnalögin. Ég velti fyrir mér hvort ég hafi leyfi til að tjá mig um vatnalögin þar sem þingmaðurinn er búinn að tala tvisvar eða hvort ég geti einungis þennan tíma sem ég kannski verð á þingi talað um fundarstjórn. Ég sé ekki alveg fyrir mér þingsetu mína þannig og velti fyrir mér hvernig ég eigi að rækja störf mín á þingi ef ég má ekki fara á mælendaskrá af því að 5. þingmaður Norðaust. er þegar búinn að tala tvisvar um vatnalögin.

Fyrirspurn mín til forseta varðar að sjálfsögðu fundarstjórnina, þ.e. hvernig ég geti rækt störf mín á þingi ef þessi vatnalög fá óendanlegan tíma.