132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:16]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í umræðunni um fundarstjórn forseta benti ég á að hæstv. forseti væri ekki öfundsverður af að þurfa að stjórna fundum undir leiðsögn hæstv. ríkisstjórnar. Síðan kom hv. þm. Einar Már Sigurðarson og leiðrétti mig hvað það varðar, að þeir væru öfundsverðir. En þótt forseti þingsins ætti að stýra fundum af myndugleik þá virðist mér raunin önnur. Það virðast koma fyrirmæli utan úr bæ hvað þetta varðar. Það er í raun ekki gott fyrir nýjan hæstv. forseta þingsins, sem hóf störf á þessum þingvetri, að byrja á að taka við fyrirmælum, að því er virðist, frá ríkisstjórn um að keyra í gegn algerlega vonlaus frumvörp.

Ég vil benda hæstv. forseta Sólveigu Pétursdóttur á að gerð hafa verið mistök við fundarstjórn. Nefna mætti að þegar rætt var um byggðamál fór hæstv. iðnaðarráðherra alveg á límingunum í umræðunni. Þá var fundi slitið skyndilega en það var ekki í samræmi við þingsköp. Hæstv. forseti baðst einfaldlega afsökunar á því í það skiptið. Ég er á því að hann hafi öðlast meiri virðingu fyrir vikið. Ég er á því að hæstv. forseti Sólveig Pétursdóttir ætti að taka stjórn þingsins í eigin hendur í stað þess að fara að, að því er virðist, fyrirmælum, jafnvel frá forsætisráðherra, sem segir að þingið eigi að ræða þetta frumvarp fram á kvöld. Það að segja hvenær þingfundum eigi að ljúka skiptir engu máli. Ef þetta skiptir svona litlu máli er mjög undarlegt að hæstv. forseti þingsins skuli keyra málið áfram með þessum hætti. Það skyldi þó aldrei vera að þetta mál sem um er að ræða skipti miklu máli?

Bent hefur verið á að frumvarpið sem við erum að ræða hér sé jafnvel undanfari einkavæðingar. Það hefur komið fram að málið sem hér er keyrt áfram af hörku snerti jafnvel hóp sem fékk að kaupa Búnaðarbankann fyrir mjög lítið og hefur tengsl inn í innsta kjarna Framsóknarflokksins. Ég sé það á svip hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að honum er vel kunnugt um þetta.