132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur, varaþingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að það er mikilvægt að hún fái úr því skorið hvort hún hafi til þess heimild samkvæmt þingskapalögum að taka þátt í 2. umr. um þetta þingmál. Annar varaþingmaður hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem hér hefur verið, Hlynur Hallsson, hefur þegar tekið þátt í umræðunni og þá er spurningin: Er heimildin bundin við þingsætið eða við persónuna?

Hæstv. forseti segist þurfa ráðrúm til að íhuga málið. Ég hef fullan skilning á því. Hér hefur einnig verið bent á að samkvæmt þingskapalögum virðist ekkert standa í vegi fyrir því að hv. þingmaður geti tekið þátt í umræðunni. Ég held að það deili enginn um að hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir og hv. þm. Hlynur Hallsson eru ekki ein og sama persónan. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir er t.d. ekki með bindi, það var Hlynur Hallsson hins vegar þótt hann væri ekki sérstaklega ánægður með þá ráðstöfun.

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hljóðs um stjórn fundarins til að ganga eftir því við hæstv. forseta hve lengi sé ráðgert að þessi fundur standi. Það er alveg augljóst hvað hér er að gerast. Þessi kvöldfundur er haldinn í fullkominni andstöðu við stjórnarandstöðuna á Alþingi, sameinaða stjórnarandstöðu á Alþingi. (Gripið fram í: Þið viljið ekki ræða málið.) Viljum við ekki ræða málið? Við erum að benda á að þetta mál eigi að taka út af dagskrá og það eigi að fá meiri og vandaðri umfjöllun áður en það er keyrt í gegnum þingið og gert að lögum fyrir Ísland. Á það höfum við bent.

Frumvarpið felur í sér mjög afdrifaríkar ákvarðanir og við vörum við því. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir það slys sem yrði ef vatnalögin yrðu lögfest í vor. Það vakir fyrir okkur hér. En ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn standa í vegi fyrir þessu, staðráðin í að knýja þetta í gegnum þingið hvað sem tautar og raular. Við höfum hér yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra úr fjölmiðlum í kvöld þar sem hann segir ekkert annað en formbreytingu á ferðinni. Þegar hann er spurður um þá dóma sem að hans sögn er verið að laga lögin að þá stendur hæstv. ráðherra á gati.