132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[23:04]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til vatnalaga. Þessi umræða hefur tekið dágóðan tíma því að hún hófst, ef ég man rétt, fyrir rúmri viku og hefur með örfáum undantekningum staðið nær linnulaust síðan. Þetta er umræða sem er afar óvenjuleg á þessum tíma þinghalds. Það hlýtur að vera okkur verulegt umhugsunarefni hver ástæðan er fyrir því að umræða um þetta frumvarp skuli hafa dregist svo mjög á langinn og að hér skuli haldnir fundir mér liggur við að segja dag og nótt, jafnt virka daga sem helga, og að ekki skuli nást neitt form á þá umræðu og að þannig sé ástandið í dag, sem er þó venja til að á mánudegi liggi fyrir ákveðið form a.m.k. um næstu daga, þ.e. þá viku sem hefst í dag. Við hljótum því að horfa til þess að hér sé eitthvað óvenjulegt á ferðinni.

Það verður að segjast eins og er að því miður virðist eins og málið hafi þróast í þá átt að stöðugt breikki bilið á milli þess sem yfirstjórn þingsins vill ná fram og svo stjórnarandstaðan. Þetta er ástand sem í rauninni er ekki líðandi og á ekki að þurfa að gerast á hinu háa Alþingi. Við getum rifjað það upp og farið líklega nokkra áratugi aftur í tímann að hugsanlega hafi slíkt ástand verið hér þá að þingheimur hafi ekki vitað hvað dagurinn bæri í skauti sér, hvað þá heldur næstu dagar. Við þekkjum auðvitað ýmsar sögur og ýmis átök á vinnumarkaði þar sem svipað var ástatt, þ.e. að svo langt var á milli deiluaðila að ekki var ræðst við og það endaði með miklum átökum.

Ég hélt, virðulegi forseti, að þetta væri liðin tíð og þetta hefði verið lagt til hliðar nær alls staðar í samfélaginu. Þess vegna er afskaplega slæmt að það skuli ekki vera svo hjá yfirstjórn Alþingis að búið sé að leggja slíkt til hliðar. Ég hélt í raun og sann að allir hefðu lært af þessum tímum og sú lexía hefði verið að forðast skyldi að deilur lentu í slíkum hnút að aðilar sæju ekki til lands.

Það kom mér þess vegna ekki á óvart að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerði þetta sérstaklega að umtalsefni í dag þegar við ræddum fundarstjórn forseta, þar sem hv. þingmaður benti á að trúlega væru allir komnir of langt, eins og hann orðaði það. Þess vegna þyrfti að finna leið út úr vandanum og hann kallaði til þess forms að forustumenn flokkanna hittust og reyndu að ræða málin svo finna mætti einhverja lendingu þannig að eðlilegt þinghald gæti átt sér stað. Ég tók líka eftir að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður þingflokks sjálfstæðismanna, og sá sem í raun og veru sinnti störfum þingflokksformanns þá viku sem þessi umræða hefur staðið, tók undir þessi orð. Ég held því að það blasi við að áhugi á að reyna að finna lendingu í þessu máli, þ.e. reyna að koma þinghaldinu í eðlilegan farveg, sé mjög víða í þingflokkum á Alþingi.

Þess vegna urðu það mér mikil vonbrigði að dagurinn í dag skuli ekki hafa nýst til þess og að fundur sem haldinn var um kvöldmatarleytið, þ.e. á milli klukkan sjö og hálfátta, milli forseta og þingflokksformanna, skuli ekki hafa komist að niðurstöðu í þessa veru. Ég benti á það áður, í umræðum um fundarstjórn forseta, að það væri ansi knappt að gefa aðeins 30 mínútur til slíkra fundarhalda og má segja að að hafi ekki verið líklegt til árangurs þegar hann var haldinn undir slíkri pressu. Það er ljóst að formlegir fundir eru ekki eina formið sem hægt er að fara í til að finna einhvern flöt á slíku máli. Ég vona að kvöldið hafi verið nýtt til óformlegra funda þannig að búið sé að þreifa á því hvort ekki sé hægt að finna einhverja lausn sem nýtist okkur í þessu máli, vegna þess að hér er ekki um venjulegt mál að ræða sem eðlilegt er að þingmeirihluti keyri algjörlega þvert á þingminnihlutann hverju sinni. Þannig var það 1923, eða árin þar á undan, að þingið komst að þeirri niðurstöðu að þetta mál væri af þeirri stærðargráðu að eðlilegt væri að ná um það víðtækari samstöðu en svo að það væri keyrt í gegnum þingið með einföldum meiri hluta. Það er mjög nauðsynlegt þegar fjallað er um slík stórmál að menn leiti eftir að samstaða sé meiri um þau en önnur vegna þess að það er þannig hjá okkur að oft er skipt um ríkisstjórnir. Stjórnarmeirihlutar breytast. Því er auðvitað eðlilegt, ég tala nú ekki um þegar við höfum dæmi fyrir okkur um að lög á þessu sviði standa mjög lengi, að leitað sé eftir víðtækari samstöðu.

Þegar grannt er hlustað blasir við að það er ekki endilega svo ýkjalangt á milli aðila í málinu. Stjórnarandstaðan hefur ítrekað spurt: Hvað liggur á? Hvað er að sem kallar á þennan hraða? (Gripið fram í: Hvaða hraða?) Þann hraða, hv. þingmaður, að ekki skuli vera hægt að ræða neitt annað mál á Alþingi en þetta og það skuli rætt þar til yfir lýkur og að það sé ekki möguleiki t.d. núna að ræða utandagskrárumræðuefni sem mörg hver eru afskaplega brýn.

Ætli samfélagið í dag hafi ekki snúist að miklu leyti um það hver sé staðan í efnahagsmálum Íslendinga. Hvernig stendur á því að ekki er hægt að fá slík mikilvæg mál dagsins í dag rædd á Alþingi af þeirri einföldu ástæðu að yfirstjórn þingsins hefur tekið ákvörðun um það, einhliða að sjálfsögðu, að stjórnarandstaðan skuli ekki komast upp með neitt múður og skuli bara ræða frumvarp til vatnalaga þar til umræðunni lýkur? Annað skuli ekki rætt. (Gripið fram í.) Svona vinnubrögð, hv. þingmaður, eru auðvitað ekki vinnubrögð sem við eigum að líða á Alþingi. Það er lágmarkskrafa til okkar allra að við getum náð saman um vinnulag. Það er enginn að fara fram á að við eigum að vera sammála um allt, þó ekki væri. Vegna þess að það er hluti af lýðræðinu að við ræðum málin út frá mismunandi sjónarhornum, að við skiptumst á skoðunum og reynum að komast að sem bestri niðurstöðu. Því miður virðist það ekki eiga að vera svo, heldur virðist meiri hlutinn á Alþingi vera búinn að komast að einhverri niðurstöðu sem ekki megi á nokkurn hátt breyta. Ég held að orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sé einmitt vísbending um að svo sé þó ekki hjá öllum þingmönnum stjórnarliðsins að menn séu búnir að gefa sér að hér megi engu breyta og að ekki sé hægt að finna einhverja niðurstöðu.

Ég var, hæstv. forseti, að ræða um að sú stóra spurning sem hér hefur hvað eftir annað komið fram, af hverju liggi svona á, þegar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom hér og endurtók hvað lægi á. Ég gaf honum örlitla skýringu á því hvað átt væri við með þessari spurningu. En það verður því miður að segjast að engin svör hafa borist við spurningunni: Af hverju liggur svona mikið á? Það er enn erfiðara að skilja hvað liggi svona mikið á þegar höfð eru í huga ummæli fjölmargra þingmanna stjórnarliðsins að þessi lagasetning breyti engu, hún breyti nákvæmlega engu.

Svo ég haldi áfram að vitna í hv. þm. Einar Odd Kristjánsson þá fullyrti hv. þingmaður að það breytti engu hvort frumvarpið yrði að lögum eða ekki. (Gripið fram í.) Ef við nálgumst þetta mál eins og hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson segir, að forðast beri að setja lög ef ekki er þörf á því, eins og ýmsir hv. þingmenn úr stjórnarliðinu hafa margoft sagt, þá held ég að það hljóti að vera miklu nær lagi að láta þetta kyrrt liggja. Eða að samþykkja þá tillögu sem minni hluti iðnaðarnefndar hefur lagt fram, að málinu sé vísað frá þannig að betri tími gefist til þess að fara yfir frumvarpið sem slíkt, ég tala nú ekki um að skoða ýmis önnur álitamál sem tengjast þessu máli, t.d. taka vatnalögin frá 1923 til fleiri þátta og ýmsir hafa bent á það í umsögnum sínum að eðlilegt sé að horfa til þeirra um leið.

Það er m.a. athyglisvert að starfsmaður einnar af meginundirstofnunum umhverfisráðuneytisins, þ.e. Umhverfisstofnunar, sem kom til fundar í iðnaðarnefnd í morgun, staðfesti að fyrri umsögn hennar um að eðlilegt sé að skoða þetta lagafrumvarp í tengslum við vatnatilskipun ESB standi enn og þrátt fyrir að komin sé fram niðurstaða um hvað í henni eigi að vera breyti það hins vegar engu þrátt fyrir að fulltrúi umhverfisráðuneytisins á sama fundi hafi sagt allt annað. Sést þá hvernig niðurstaða getur orðið þegar hið pólitíska vald og hinar faglegu stofnanir leggja mismunandi mat á málið.

Það er athyglisvert að Umhverfisstofnun skuli enn halda við þessa skoðun af þeirri einföldu ástæðu að fram hefur komið að yfirmenn og ákveðnir starfsmenn eða hæstv. ráðherra, hygg ég, hafi á stundum sett ofan í við stofnunina um að stofnunin væri jafnvel komin út fyrir sitt svið að mati hæstv. ráðherra. En stofnunin stendur enn við þá niðurstöðu sína og telur enga ástæðu til að breyta henni.

Herra forseti. Það er líka athyglisvert að fram hefur komið að sú leið sem valin er í þessu frumvarpi sé nær einstök í heiminum, þ.e. að það séu afar fá lönd sem hafi gengið jafnlangt og þetta frumvarp gerir ráð fyrir varðandi eignarréttinn á vatninu. Þetta er mjög athyglisvert. Enginn sérstakur rökstuðningur hefur komið fram fyrir því af hverju sérstaða okkar er svona mikil. Ég tala nú ekki um þegar við horfum aftur til orða margra hv. stjórnarþingmanna um að lagasetningin muni engu breyta, enda sé hér eingöngu um formbreytingu að ræða. Þrátt fyrir að í frumvarpinu segi, ef ég man rétt, að fyrst og fremst sé um formbreytingu að ræða, eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu, og ekkert annað, þá verður þetta auðvitað allt saman enn þá sérkennilegra.

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að fjalla örlítið meira, áður en ég fer í efnislega umfjöllun um frumvarpið, um þann tíma og það ástand sem við höfum þurft að horfa upp á og nú ríkir í þinginu. Ég vil aðeins fara betur í þá umræðu sem við höfum nokkrum sinnum rætt undir fundarstjórn forseta, hvaða hugmyndir við höfum og eigum að hafa um störf forseta þingsins. Hæstv. forseti þingsins hlýtur að eiga að vera, svo það sé endurtekið, forseti allra þingmanna. Það gengur ekki að stór hluti hv. þingmanna hafi það á tilfinningunni að hæstv. forseti gangi fyrst og fremst erinda einstakra hæstv. ráðherra. Slíkt gengur ekki. Fyrr í kvöld gerði ég það að umræðuefni í framhaldi af því sem nokkrir hv. þingmenn sögðu, að ég tryði því ekki að málið væri þannig.

En það er auðvitað umhugsunarefni fyrir hæstv. forseta ef fjöldi þingmanna hefur það á tilfinningunni að forseti virði ekki óskir hv. þingmanna til jafns við óskir hæstv. ráðherra. Sú staða sem við sitjum nú uppi með á þinginu bendir auðvitað til þess og því hafa margir hv. þingmenn haft það á orði að hæstv. forsetar séu ekki öfundsverðir af þeirri stöðu að þurfa að keyra mál áfram í krafti þess að hæstv. ráðherrar hafi farið fram á slíkt. Það gengur náttúrlega ekki að þetta séu viðhorf einstakra þingmanna. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt fyrir virðulegan forseta að koma fram á þann hátt að þingmenn séu vissir um að svona séu mál ekki keyrð áfram.

Ég verð, virðulegi forseti, að segja að það ástand sem nú ríkir er afskaplega óvanalegt á þessum tíma árs. Við þekkjum það að slíkt ástand hefur skapast oft rétt fyrir þinglok þegar mikil pressa er komin og verið er að reyna að hafa áhrif á hvaða mál komast í gegn fyrir þinglok eða fyrir jólaleyfi. En ég held að þetta sé nær einstakt að svona ástand komi upp um miðjan vetur. Það er enn þá sérkennilegra í ljósi þess að hæstv. forseti boðaði það í stefnuræðu sinni við upphaf þings þegar hæstv. forseti tók við embætti, að nú skyldi sérstaklega horft til þess að vinnubrögð Alþingis yrðu meira í takt við nútímann en verið hefur.

Ég held, virðulegi forseti, að flestir hv. þingmenn hafi fagnað alveg sérstaklega þessari yfirlýsingu og búist við að nú yrði breyting á. Ég held ég geti fullyrt að enginn hv. þingmaður hafi látið sér detta í hug að fyrstu einkenni breytinga á yfirstjórn þingsins yrðu þær að hér yrði slíkt ástand sem verið hefur síðustu viku eða undanfarna daga. Að boðað væri til funda með afskaplega skömmum fyrirvara og ekki lægi fyrir nein áætlun um hvernig þinghald yrði næstu daga. Boðað væri til þingfunda jafnt að kveldi sem helga daga og vonlaust væri fyrir hv. þingmenn að gera nokkrar áætlanir um vinnu sína.

Virðulegi forseti. Ég held að slíkt þekkist varla neins staðar í nútímasamfélagi að nokkrum séu búin slík vinnuskilyrði að geta ekki gert neinar áætlanir um tíma sinn vegna þess að algert skipulagsleysi sé um vinnutíma. Og að hv. þingmenn hafi enga möguleika á að skipuleggja vinnutíma sinn, ég tala nú ekki um í starfi eins og okkar hv. þingmanna sem er afskaplega fjölbreytt. Við þurfum að sinna margvíslegum störfum utan hinna hefðbundnu þingstarfa og þurfum að taka tillit til ótal þátta, svo ég tali nú ekki um þegar horft er til hinnar miklu áherslu sem hæstv. forseti lagði á að gera vinnustaðinn fjölskylduvænni.

Ég held að það sé nokkuð ljóst að þessir síðustu dagar eru líklega eins langt frá því að vera fjölskylduvænir og þeir geta verið. Af þeirri einföldu ástæðu að hér hefur verið, eins og ég sagði áðan, boðað til þingfunda með mjög skömmum fyrirvara. Ég minnist þess t.d. síðastliðinn miðvikudag þegar boð kom líklega á milli kl. 15 og 16 um að þingfundur mundi hefjast kl. 18 síðdegis, þ.e. að loknum þingflokksfundum, og það yrði haldið áfram en hversu lengi vissi ekki nokkur maður, að því er virtist vera.

Fimmtudagurinn var reyndar samkvæmt starfsáætlun. Síðan kom föstudagurinn, boðaður líka seint og um síðir, og hið sama má segja um laugardaginn. Síðan gerist það í dag, að ekkert liggur fyrir um þinghald þessarar viku annað en að þetta frumvarp til vatnalaga verði rætt svo lengi sem einhverjir hv. þingmenn séu á mælendaskrá.

Svona vinnubrögð, eins og ég sagði áðan, eru ekki til þess fallin að færa þinghaldið í átt til nútímans. Fyrir liggur að verið er að fara marga áratugi aftur í tímann í vinnubrögðum og að missa mér liggur við að segja svo einfalda hluti, virðulegi forseti, eins og að halda lágmarkssamkomulagi um vinnulag hér á þinginu í þann hnút sem gerst hefur að undanförnu, er með ólíkindum og hlýtur að verða okkur öllum mikið umhugsunarefni hvernig slíkt getur í rauninni gerst.

Það er síðan alveg sérstakur kapítuli út af fyrir sig að skoða hvað ýmsir hæstv. ráðherrar hafa verið að segja við fjölmiðla að undanförnu. Það nýjasta eru yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra sem voru afskaplega athyglisverðar á hinum mánaðarlega blaðamannafundi hæstv. ráðherra sem haldinn var í morgun. Þar er hæstv. ráðherra spurður út í þetta frumvarp til vatnalaga. Og hæstv. ráðherra telur fulla ástæðu til að tilgreina sérstaklega að hann átti sig nú engan veginn á því hvað stjórnarandstaðan sé að fara og botni ekki neitt í þeim málflutningi. Þegar fréttamaður spyr í hvaða nauðir reki varðandi frumvarpið og hvað það sé, þá er farið yfir það að það séu alls konar vandkvæði og ýmis mál sem sýni það og sanni. Þegar fréttamaðurinn spyr síðan þeirrar eðlilegu spurningar hvaða dæmi þarna sé um að ræða, þá verður hæstv. forsætisráðherra orða vant og getur engin dæmi nefnt. Ekki eitt einasta dæmi.

Þetta fellur því í sama farveg og ég nefndi áðan, að þegar spurt er af hverju liggi svona á hvað varðar þetta mál verður fátt um svör, því engar skýringar hafa komið fram varðandi það.

Það var sérstaklega athyglisvert að hæstv. forsætisráðherra reyndi síðan að eyða þessari spurningu og fór að tala um annað mál, þjóðlendumálið, sem vissulega er ljóst að ríkisstjórnin hefur lent í ákveðnum vanda með. En það sýnir, og er alþekkt dæmi, að þegar menn eru komnir í vanda með svör vilja þeir helst tala um eitthvað allt annað. Þetta dæmi frá því í morgun sýnir það býsna vel að hæstv. forsætisráðherra var í miklum vanda við að svara svo einfaldri spurningu sem maður hefði nú talið að væri ekki vandsvarað miðað við hversu mikið virðist liggja við að koma þessu máli í gegnum þingið. Þá hefði átt að vera hægur vandi að færa almennileg rök fyrir því en augljóst var að meira að segja hæstv. forsætisráðherra réði ekki við það. Við höfum verið nokkuð hissa á að ýmsir hv. þingmenn, sem hér hafa verið fótgönguliðar ríkisstjórnarinnar í þessu máli, hafa átt í erfiðleikum með að útskýra þetta fyrir okkur. Við sáum það í morgun þegar hæstv. forsætisráðherra gat það ekki einu sinni, þá er það skiljanlegt að einstakir hv. þingmenn skuli eiga í erfiðleikum með slíkt.

En virðulegi forseti. Við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum þess vegna verið að velta því fyrir okkur hvað það geti verið sem valdi þessu. Er einhver skýring sem hæstv. ráðherrar hafa af ýmsum ástæðum ekki viljað gefa á því af hverju liggi svona mikið á þessu? Það er eðlilegt að nokkrir hv. þingmenn hafi velt fyrir sér stórframkvæmdum austur á landi sem tengdar eru Kárahnjúkavirkjun. Getur verið að það sé eitthvað þar að gerast sem kallar á að breyta þurfi þessum lögum? Það var eðlilega spurt um þetta í dag. Hæstv. iðnaðarráðherra kom í þennan ræðustól í morgun og fullyrti að svo væri ekki. Að sjálfsögðu treystum við því að hæstv. ráðherra gefi ekki slíkar yfirlýsingar nema niðurstaðan sé rétt. Þá getum við ýtt því til hliðar og sagt að það væri þá ekki út af því.

Það eru gífurlegir vatnaflutningar sem við vissum ekki til að væru nein vandkvæði á og þetta staðfestir hæstv. ráðherra að er ekki. Við gerum þar af leiðandi ráð fyrir að svo sé ekki. Enda hefði þá væntanlega verið tekið á þeim vandamálum, ef einhver hefðu verið, í þeim sérlögum sem gilda um þær framkvæmdir. Svo var ekki. Við getum þá ekki horft til þeirra.

Þá eðlilega fara menn að velta fyrir sér: Hvað getur það þá annað verið? Ræddar hafa verið ýmsar virkjanir í Þjórsá. Getur verið að þar séu einhver vandkvæði? Ég gat ekki í dag, virðulegi forseti, fylgst með hverri einustu ræðu sem hér var haldin. En ég minnist þess ekki að því hafi verið svarað hreinlega, að minnsta kosti ekki af hæstv. ráðherra, að slíkt væri ekki. Þannig að hugsanlegt er að þar séu einhver vandkvæði. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ef svo er, þá er nauðsynlegt að það komi fram við umræðuna. Að einhver skýring komi á því hvers vegna verið er að keyra frumvarpið í gegnum þingið með þessum hraða. Hvað liggur á? Svar við því, virðulegi forseti, hefur ekki komið enn, því miður, og við bíðum eftir að slíkt svar komi.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan í ræðu minni að það hefði valdið mér miklum vonbrigðum að sá fundur sem haldinn var hér í kvöldmatarhléi með formönnum þingflokka og hæstv. forseta skyldi ekki hafa skilað árangri. Maður veltir því fyrir sér hvernig standi á því vegna þess að eftir því var tekið fyrr í dag að tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem tengjast þessu máli á ákveðinn hátt lögðu sérstaklega til að reynt yrði að finna einhvern flöt á að koma þinghaldinu í eðlilegan farveg. Ég sagði að þessir hv. þingmenn tengdust þessu máli á ákveðinn hátt. Það er eðlilegt að skýra það örlítið. Annars vegar var um varaformann iðnaðarnefndar að ræða sem hefur þar af leiðandi leitt með væntanlega formanni iðnaðarnefndar málið í (Gripið fram í: Oddviti stóra flokksins.) nefndinni og er oddviti stóra flokksins í stjórnarsamstarfinu í málinu. Ekki bara það heldur hefur hv. þingmaður mikla reynslu af því að láta mál ekki fara í slíkan hnút eins og þetta mál hefur farið í. Ég rifjaði það upp fyrir stuttu síðan í ræðu minni að hv. þingmaður kom að þjóðarsáttarsamningunum svokölluðu. Þar var brotið blað í samskiptum aðila vinnumarkaðarins. Ég taldi að af því hefðu allir lært sína lexíu. Þess vegna er það afskaplega alvarlegt að yfirstjórn þingsins skuli ekki hafa numið þessi fræði.

Ég held að það verði að líta á þessa ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar í þessu samhengi. Hv. þingmaður var að gefa ákveðin skilaboð til þingheims og vegna þess frammíkalls sem hér átti sér stað um að væntanlega hafi þetta verið ákveðin vísbending til litla flokksins í stjórnarsamstarfinu þá held ég að það geti vel verið og það sé eðlilegt að sá flokkur íhugi hvort ekki sé kominn tími til að hægja örlítið á þannig að við getum komið þinghaldinu aftur í eðlilegan farveg. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lét sér ekki nægja að benda á þetta heldur fullyrti að það mundi engu breyta hvort þetta frumvarp yrði að lögum eða ekki. (Gripið fram í: Þessi þingmaður hafði forustu um að ... í vetur.)

Hæstv. forseti. Þetta frammíkall er afskaplega gefandi inn í þessa umræðu. Af þeirri (Gripið fram í.) einföldu ástæðu að hér skiptir auðvitað máli hver er að tala. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að varaformaður iðnaðarnefndar hefur áður komið með svipuð skilaboð til þingheims. Það er mikilvægt að skoða þetta í þessu samhengi einnig vegna þess að þar var ekkert venjulegt mál á ferðinni. Þar var verið að bjarga klúðri. Það gerðist m.a. í þessum ræðustól að hæstv. iðnaðarráðherra kom hér og baðst afsökunar á því að hafa misskilið eigið frumvarp. Þetta skiptir gífurlegu máli vegna þess að þetta varð til þess að iðnaðarnefnd þingsins kom hér með tillögu sem leysti í raun og veru það mál. Ég er alveg viss um það, hæstv. forseti, að ef þetta mál fer með svipuðum formerkjum til iðnaðarnefndar þá væri hugsanlega hægt að finna flöt sem gæti tryggt að þingstörf yrðu í eðlilegum farvegi. Þetta tel ég að hafi verið skilaboð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, þ.e. að það mætti finna flöt á málinu ef menn nálguðust það með því markmiði.

Virðulegi forseti. Annar þingmaður kom einnig og tók undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Það var Guðlaugur Þór Þórðarson, sem við skulum ekki gleyma (Gripið fram í.) að hefur verið starfandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, þ.e. stóra flokksins í stjórnarsamstarfinu alla síðustu viku eða megnið af henni. (LB: Og annálaður friðarins maður.) Hárrétt, hv. þingmaður. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur oft farið með friði hér í þingsölum þó svo að einstaka sinnum hafi hv. þingmaður sýnt á sér aðra hlið þegar hv. þingmaður hefur talið væntanlega að það væri einhverju máli til framdráttar.

Ég tók eftir því að fyrir helgi, (Gripið fram í: Það er óljóst hvenær ...) kom hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson með allt aðra nálgun á málið heldur en í dag. Þá kom hv. þingmaður hér og talaði með allt öðrum hætti og eiginlega vildi, ef maður vill skilja það þannig, spilla friði. (LB: Kom aldrei inn á ...) Það er að vísu töluvert afrek hjá hv. þingmanni að hafa komist hjá því og verður það að segjast að það virðist benda til að hv. þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson sé nú að stíga afskaplega mikilvæg skref í þá átt að einbeita sér að þingstörfum og gleyma störfum sínum í Ráðhúsinu sem er mjög mikilvægt að gerist. (SKK: Hvað kemur þetta ... það upplýst.) Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er að verða nokkuð órólegur hæstv. forseti. (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Forseti hefur veitt því athygli að þingmenn eru nokkuð órólegir sumir í salnum og biður forseti þá að gefa hv. 7. þm. Norðausturkjördæmis tækifæri til að halda áfram ræðu sinni.)

Ég þakka það að virðulegur forseti aðstoðar mig við að róa hv. þingmenn. Mér þætti vænt um, virðulegi forseti, af því ég sé að afspyrnulítið er af vatni í ræðupúlti hvort möguleiki sé að bjarga því. Ég sé líka að klukkan er orðin rúmlega hálftólf og því væri kannski gott að fá að vita hvort hæstv. forseti hafi einhverja hugmynd um hvenær fundi (Gripið fram í.) muni hugsanlega ljúka á þessu ágæta kvöldi?

(Forseti (BÁ): Forseti getur upplýst að ætlunin er að halda áfram fundi enn um sinn en um nákvæmar tímasetningar getur forseti ekki gefið upplýsingar á þessari stundu.)

Virðulegi forseti. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til að hæstv. forseti svari þessu nákvæmlega. En ég vona að hér sé verið að undirbúa (Gripið fram í: Vatnsburð.) vatnsburð. (Gripið fram í: ... pening?) Hv. þingmaður, sem betur fer er nú ekki frumvarpið orðið að lögum. Ég geri ráð fyrir að hér sé ég að fá vatn sem er í okkar allra eigu og ég hefði því rétt á að fá þann skammt (Gripið fram í: Enn um sinn.) sem mér þóknast enn um sinn. Vona ég að enn um sinn sé í þeirri merkingu nokkuð langur tími þó svo að enn um sinn í ummælum hæstv. forseta sé hins vegar frekar styttri tími en í hinu tilfellinu.

Virðulegi forseti. Þar sem hæstv. forseti getur ekki svarað spurningu minni um hversu lengi megi búast við að þessi fundur muni standa er ástæða til þess að upplýsa hæstv. forseta um að klukkan hálfníu í fyrramálið er iðnaðarnefnd kölluð til fundar. Þá er á dagskrá nefndarinnar afskaplega mikilvægt mál, nefnilega byggðaáætlun. Svo vill til að sá sem hér stendur þarf að sinna störfum í iðnaðarnefnd í fyrramálið þar sem hv. þm. Helgi Hjörvar er fjarstaddur. Mér þætti vænt um ef hæstv. forseti gæti svarað mér til um hvort það væri ekki tryggt að ég fengi svona um það bil átta klukkustunda hvíld fyrir þann mikilvæga nefndarfund, ég tala nú ekki um þar sem að ég tók þetta ekki að mér fyrr en seinni partinn í dag og var þá að undirbúa þessa ræðu mína. Þess vegna hef ég ekki lokið því að undirbúa mig fyrir þennan nefndarfund í fyrramálið. Mér þætti því vænt um að vita hvort hæstv. forseti muni ekki tryggja að ég fái að minnsta kosti átta tíma hvíld fyrir nefndarfundinn sem hefst, eins og ég sagði áðan, klukkan hálfníu í fyrramálið.

Ég get bætt við þessa spurningu, svo hæstv. forseti fái örlítinn umhugsunarfrest, því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson formaður iðnaðarnefndar hefur þurft að standa hér vakt býsna mikið að undanförnu og ég held að það sé alveg ljóst að hv. þingmaður — ég held ég taki nú ekki sterkara til orða en það — hefði gott af því að fá örlitla hvíld fyrir nefndarfundinn á morgun þannig að það væri tryggt (Gripið fram í.) að nefndarfundurinn yrði árangursríkur um það mikilvæga mál sem þar á að fjalla um. Ég tel, þó ég undirskilji sjálfan mig þrátt fyrir að ég mundi þiggja átta klukkustunda hvíldina, að hv. formaður iðnaðarnefndar mundi væntanlega þiggja átta klukkustunda hvíld eins (Gripið fram í.) og yfirleitt er gert ráð fyrir svona við alvarleg störf sem ég tel að verði sinnt í iðnaðarnefnd með morgni.

Telur virðulegi forseti að hægt sé að fá svör við þessari spurningu, ef ekki nú þá kannski um miðnætti? (Gripið fram í.) Virðulegur forseti. Þú áttaðir þig á spurningu minni?

(Forseti (BÁ): Forseti veltir fyrir sér hvort hv. þingmaður hafi lokið ræðu sinni?)

Virðulegur forseti. Nei, það er ekki svo. En það eru ákveðin kaflaskipti í ræðu minni nú svo það væri ágætt þegar ég skipulegg þennan kafla minn að vita hvað langur tími hugsanlega sé til fundarloka þannig að hægt væri að hafa annaðhvort styttri eða lengri útgáfu á þessum kafla.

(Forseti (BÁ): Forseti hefur áður sagt að ætlunin er að halda áfram fundi enn um sinn (ÖS: Hvernig skilgreinir hann enn um sinn?) og verður hv. þingmaður að una því svari að svo stöddu. )

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný svör hæstv. forseta. Ég tel að hæstv. forseti þurfi annaðhvort að ráðfæra sig við einhverja eða gefa sér örlítið meiri umhugsunartíma áður en hann ákveður hvenær þessum fundi ljúki. Ég vek athygli hæstv. forseta á því að það er nefndarfundur klukkan hálfníu í fyrramálið í iðnaðarnefnd sem er sú nefnd sem fjallar um það mál sem er hér til umfjöllunar. Það verður að gera ráð fyrir því að flestir ef ekki allir, hv. þingmenn sem sitja í þeirri nefnd fylgist með þessari umræðu og telji það nær skyldu sína að vera hér ætíð viðbúnir þátttöku í umræðum ef ástæða þykir til og eru hugsanlega einhverjir á mælendaskrá eða í þeim stellingum að vilja fara í andsvör við ræðumenn. Ég vil því í mestu vinsemd benda hæstv. forseta á að það væri, held ég, leið að minnsta kosti í þá átt að greiða frekar fyrir þingstörfum ef það lægi fyrir að allir hv. þingmenn sem þurfa að taka þátt í nefndarstörfum klukkan hálfníu í fyrramálið gætu verið vissir um að þeir fengju í hið minnsta átta klukkustunda hvíld. Ég þori ekki að fullyrða, virðulegur forseti, að það sé algjör regla hér í þinginu að slíkt sé tryggt. En ég trúi því að það hafi að minnsta kosti fram að þessu verið reynt að tryggja að ekki væri mál til umræðu í þinginu sem tilheyrðu ákveðinni nefnd öðruvísi en að gengið væri út frá að hv. þingmenn sem í viðkomandi nefnd starfa hefðu að minnsta kosti átta klukkustunda hvíld fyrir nefndarfund, ég tala nú ekki um þegar umræður eru búnar að standa jafnlengi og raun ber vitni í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég mun þá snúa mér að næsta kafla í ræðu minni þar sem ég tel þörf á að rifja upp ýmislegt sem fram hefur komið í þessari umræðu og er eiginlega grundvöllur hennar fyrst og fremst, þ.e. nefndarálitið sem minni hluti iðnaðarnefndar lagði fyrir þingið. Það má segja að í því nefndaráliti komi fram það sem meginmáli skiptir. Í áliti minni hlutans er t.d. bent á að á fundum nefndarinnar hafi það komið mjög skýrt fram hjá ýmsum umsagnaraðilum og sérfræðingum að ekki væri nauðsyn á þeirri breytingu sem var lögð til og engin sérstök vandamál gerðu það að verkum að hraða þyrfti endurskoðun laganna. Þá þarf ekki umsagnaraðila eða sérfræðinga til þess. Hv. þingmenn stjórnarliðanna hafa heldur ekki bent á að neitt kallaði á að hraða þyrfti þessu sérstaklega í gegnum þingið eða að endurskoða þyrfti þessi lög, ég tala nú ekki um að taka þau út úr þeirri heildarskoðun sem bent hefur verið á að væri nauðsynlegt að fara í og ég veit ekki betur en að allir hafi lýst yfir að þeir væru reiðubúnir að gera. En af einhverjum ástæðum hefur þótt ástæða til að taka þetta mál alveg sérstaklega út úr í þessu samhengi.

Í nefndarálitinu er rifjað upp að fara þurfi hægt í málið og vanda betur til verka. Það er eðlilegt að minna á að það tók Alþingi sex ár að fjalla um og semja núgildandi vatnalög. Við vitum að þau eru býsna vönduð smíði. Það var farin ákveðin leið til að semja lögin en svo virðist sem meiri hlutinn, sem nú situr á þingi, hafi ekki áhuga á að fara slíka samráðsleið og fá sem mesta samstöðu um málið. Nei, nú er öldin önnur, skal ganga hart fram í að keyra málið í gegn og setja þinghaldið í uppnám. Þannig virðist mikið liggja við þrátt fyrir að engar skýringar komi á því hvað á liggur.

Í nefndaráliti er vakin sérstök athygli á því sem segir í 1. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni …“ og í nefndarálitinu segir síðan, með leyfi forseta:

„Það verður að telja vafasamt orðaval ef hér á fyrst og fremst að vera um formbreytingu að ræða eins og sagði í athugasemdum með frumvarpinu. Þar var einnig sagt að í þessari nýju skilgreiningu á vatnsréttindum fælist í raun meginatriði frumvarpsins en þó var sérstaklega áréttað að þar væri „fyrst og fremst“ um formbreytingu að ræða.“

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert hvernig þetta er orðað. Þetta tal um formbreytingu er rauði þráðurinn í öllum málflutningi hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans, að eingöngu sé um formbreytingu að ræða og ekkert annað. Þrátt fyrir það segir að fyrst og fremst sé um formbreytingu að ræða, sem samkvæmt orðanna hljóðan þýðir að eitthvað meira er á ferðinni en formbreyting, þótt hún sé aðalatriðið að mati höfunda laganna, sem hefur verið upplýst að eru lögfræðingar, verktakar sem hafa verið fengnir til að semja það.

Í nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar segir, með leyfi forseta:

„Í athugasemdum frá laganefnd Lögmannafélags Íslands var sérstaklega fjallað um það orðalag og sagt að það væri til þess fallið að vekja vafa um markmið breytinganna og að mun skýrara væri að segja afdráttarlaust að hér væri einungis um formbreytingu að ræða.“

Á því varð engin breyting þrátt fyrir þessa ábendingu. Í þessu ágæta minnihlutaáliti er einnig bent á eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í sérstakri viðbótarumsögn Orkustofnunar sem nefndinni barst var tekið sérstaklega undir þessa athugasemd laganefndar Lögmannafélagsins. Meiri hluti nefndarinnar hefur lýst því yfir að þessi breyting sé einungis formbreyting en muni engin áhrif hafa á raunveruleg réttindi. Höfundar frumvarpsins hafa ítrekað fullyrt að engin ný réttindi muni skapast eða glatast verði það að lögum. Eftir stendur að skilningur þeirra sem sömdu frumvarpið var og er óumdeilanlega að aðalmarkmið þess sé „skýrt eignarhald á vatni“. Það vekur óneitanlega tortryggni þegar því er haldið fram að aðalmarkmið lagasetningarinnar sé formbreyting eins og nú er orðin niðurstaða meiri hlutans.

Það að hér gangi mönnum annað til en umhyggja fyrir formi og samræmi sannaðist þegar aðalhöfundur þessarar lagasmíðar svaraði spurningum nefndarmanna, en hann var m.a. spurður hvort það gæti skapað skaðabótaábyrgð á hendur ríkinu ef ákvæði um vatn sem nú eru í lögunum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu yrðu numin brott. Svarið var skorinort „já, án vafa“. Höfundar frumvarpsins höfðu ítrekað vísað til þessara ákvæða um vatn sem sambærilegra við þau sem deilt er um í þessu máli. Þarf frekari vitna við? Ef sambærileg ákvæði laganna um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og þau sem hér um ræðir færa mönnum skaðabótarétt verði gerð á þeim sú formbreyting að færa réttindin til fyrra horfs hlýtur að mega gagnálykta á þann veg um þá breytingu sem felst í frumvarpinu að í henni felist breyting á réttarstöðu.“

Virðulegi forseti. Ég hef ekki orðið var við það í umræðunni, í einstaka innskotum hv. þingmanna stjórnarliðanna, að þessi gagnályktun hafi verið hrakin. Ég hef ekki orðið var við það þannig að við hljótum að halda okkur við það þar til okkur verður a.m.k. sýnt fram á annað Það er með ólíkindum að heill þingmeirihluti skuli dag eftir dag halda því fram að aðeins sé um formbreytingu að ræða og að lagafrumvarpið muni engar breytingar hafa í för með sér. En samt liggur svo mikið við að koma frumvarpinu í gegnum þingið að önnur mál er ekki hægt að ræða á Alþingi Íslendinga. (ÖS: Þeir skilja ekki íslensku.) Gæti verið vandinn, hv. þingmaður.

Það væri ekki vandamál fyrir þingheim að taka örlítinn tíma í það, þar sem við höfum menntaða menn á því sviði, til að fara yfir íslenskukunnáttuna ef það er vandamálið. Er það enn ein vísbendingin um að gefa þurfi sér betri tíma til að fara yfir málið. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á með frammíkalli sínu, að það hefur hvarflað að okkur trekk í trekk að einhver misbrestur sé á að allir hv. þingmenn skilji íslenskuna eins. (ÖS: Heldur þú að það sé greindarskortur?) Ekki vil ég fullyrða það, hv. þingmaður. Ég held fremur að menn skilji ekki á sama hátt orðið formbreyting og geri það viljandi. (Gripið fram í: Láta greindarmæla formann iðnaðarnefndar.) Ekki held ég að það sé þörf á því, hv. þingmaður. Ef hv. þingmaður formaður iðnaðarnefndar fær a.m.k. átta klukkustunda svefn í nótt er ég viss um að hv. þingmaður kemur af fullum krafti til starfa í iðnaðarnefnd í fyrramálið þar sem til stendur að ræða mikilvægt mál, þ.e. byggðaáætlun næstu ára. Ekki veitir af að allir nefndarmenn hafi fulla athygli á því máli. (ÖS: Svíkja það eins og allt annað.) Því trúi ég ekki, hv. þingmaður, að hæstv. forseti sjái ekki til að iðnaðarnefnd verði fullfær til þeirra (Gripið fram í.) mikilvægu starfa að morgni.

Að gefnu tilefni, vegna þessa frammíkalls, tel ég rétt að minna hæstv. forseta á að það er fundur í iðnaðarnefnd kl. 8:30 í fyrramálið. Ég bendi á það svo að hæstv. forseti, sem ég trúi að sé farinn að þreytast örlítið líka, haldi fullri athygli við að íhuga hvenær eðlilegt geti talist að þessum fundi ljúki. Ég tala ekki um í ljósi þess að kl. 8:30 í fyrramálið kemur iðnaðarnefnd saman og fjallar um það mikilvæga mál sem ég hef áður nefnt, byggðaáætlun til næstu ára. Það er auðvitað nauðsynlegt að nefndin sé að minnsta kosti þokkalega úthvíld til að taka á því máli.

Við gætum auðvitað, virðulegi forseti, ef það bætti við rökstuðninginn fyrir því hve nauðsynlegt er að nefndin sé þokkalega úthvíld, rifjað upp hvernig byggðaáætlanir síðustu ára hafa skilað sér. Bara til að leggja áherslu á hve mikilvægt er að iðnaðarnefnd sé þokkalega hvíld þegar hún tekur þau mál fyrir. Það verður því miður að segjast að byggðaáætlanir, allt of langt aftur í tímann, hafa ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Þar er væntanlega ýmsu um að kenna. En ég held að það sé mikilvægt að iðnaðarnefnd fái tækifæri til og þokkalega hvíld til að fara yfir reynslu sögunnar svo við þurfum ekki að gera sömu mistök og gerð hafa verið fram að þessu svo bæta megi úr því sem misfarist hefur á undanförnum árum.

Það var áðan rifjað upp að iðnaðarnefnd tók að sér að bæta frumvarp sem kom fram, ef ég man rétt, þá í annað sinn. Það voru breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það var býsna þarft verk af iðnaðarnefnd að koma með þær breytingar sem tryggðu ákveðinn frið og framgang málsins. Ég get endurtekið það, því ég sé hv. formann iðnaðarnefndar koma dauðlúinn í salinn. Ég sé að hv. þm. Birkir Jón Jónsson er algjörlega sammála mér um að æskilegt væri að allir hv. þingmenn í iðnaðarnefnd fari að hvílast örlítið svo þeir verði ferskir í morgunsárið til að taka fyrir það mikilvæga mál sem er á dagskrá nefndarinnar.

Ég held, virðulegi forseti, að full ástæða sé til að taka tillit til hv. þingmanns formanns iðnaðarnefndar. (BJJ: Þú lest mig eins og opna bók.) Þakka þér fyrir, hv. þingmaður, að staðfesta tilgátu mína um það sem fram fer í höfði þér. Það blasti við mér að hv. þingmaður væri einmitt að hugsa til þess að undirbúa þyrfti mikilvægan fund í iðnaðarnefnd með morgni. Það er mikilvægt að þá séu menn þokkalega hvíldir og fara megi yfir þau mál, bæði líta til fortíðar og framtíðar, sem er enn þá mikilvægara, þótt við getum ýmislegt lært af fortíðinni. Ég trúi því að hv. þingmaður sé sammála mér um að mikilvægt er að vel takist í umfjöllun iðnaðarnefndar varðandi væntanlega byggðaáætlun. Þar er um mikilvæg mál að ræða og í raun ekki hægt að bjóða hv. þingmönnum í iðnaðarnefnd upp á að geta ekki verið með fulla starfsorku þegar svo mikilvægt mál er á dagskrá nefndarinnar.

Ég endurtek að það er ekki síður mikilvægt að sá sem leiðir fund nefndarinnar sé þokkalega hvíldur og geti einbeitt sér að þeim störfum án þess að þreytan trufli. (BJJ: Það er mikilvægt að fara yfir það hvort landsbyggðin fái minni aðgang að vatni eða ekki.) Já, hv. þingmaður. Það er hárrétt að þannig mætti tengja þessi tvö mál. (LB: Ef menn verða hálfsofandi þá gæti eitthvað farið fram hjá mönnum.) Já, það er mikil hætta á því og ekki síður að ýmislegt annað gæti farið fram hjá hv. þingmönnum í nefndinni, séu þeir illa sofnir og þreyttir. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að tryggja þeim hvíld. Mér finnst það hlutverk virðulegs forseta að tryggja að hv. þingmenn fái nægilega hvíld til að störf þingsins, sem ég trúi að allir hv. þingmenn hafi áhuga á, séu sem vönduðust. (Gripið fram í: Á maður ekki rétt á 11 tíma hvíld.) Ég veit ekki hv. þingmaður hvort 11 tíma hvíld sé endilega nauðsynleg, en ég hef verið afskaplega hógvær. (SigurjÞ: Sýnir þetta ekki bara viðhorf Framsóknarflokksins til byggðaáætlunar?)

(Forseti (BÁ): Forseti vill eins og í ræðu hv. 7. þm. Norðaust. biðja aðra hv. þingmenn að gefa þingmanni tækifæri að flytja ræðu sína ótruflaður.)

Hæstv. forseti. (Gripið fram í: Þingmaður hefur ekkert kvartað.) Það er ánægjulegt að hæstv. forseti sýnir mér tillitssemi og vilji helst hlífa mér við frammíköllum. En, virðulegi forseti, þau frammíköll sem ég hef fengið fram að þessu hafa ekki truflað mig sérstaklega og hafa kannski fremur verið upplýsandi. En ég vona að hæstv. forseti sýni svipaða umhyggju gagnvart væntanlegum fundi í iðnaðarnefnd sem, eins og margoft hefur komið fram, hefst kl. 8:30 í fyrramálið, þ.e. eftir rétt rúmlega átta og hálfa klukkustund. Ég trúi að hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, verði stundvís eins og hann er vanur og setji fundinn stundvíslega kl. 8.30.

Ég veit auðvitað ekki, virðulegi forseti, hvernig umferðarmálum borgarinnar er nú háttað, en ég trúi að ýmsir hv. þingmenn eigi töluverða leið til svefnstaðar og það gæti tekið a.m.k. suma hv. þingmenn 30 mínútur að komast í svefnstað og eftir svo ítarlegar og erfiðar umræður gæti verið að einhverjir þyrftu töluverðan tíma til þess, eins og sumir hafa orðað það, að ná sér niður til að geta fest svefn. Ég held að það sé því ráðlegt, virðulegi forseti, nú þegar komið er miðnætti að virðulegur forseti íhugi alvarlega hvort ekki fari að styttast í að rétt sé að fresta fundi. Nú er hafinn nýr dagur, miðað við þá klukku sem hér er í þingsal, og því held ég að virðulegur forseti gæti kannski gefið mér örlitlar vísbendingar, ef þær liggja fyrir, um það hvenær megi vænta þess að fundi verði frestað. Það mundi auðvelda mér mjög skipulag á ræðu minni þar sem ég á nokkurt efni eftir. (Gripið fram í: … jafnmikið leyndarmál og tilgangur frumvarpsins?)

Já, sú áleitna spurning leitar stöðugt á mig, hv. þingmaður, hvort það sé að verða regla hér að ekki fáist skýr svör við neinum spurningum. Við höfum margoft spurt þessarar einföldu spurningar: Hver er tilgangur frumvarpsins? Hvað liggur á við afgreiðslu frumvarpsins? Hvað má vænta að fundir standi lengi? Má vænta þess að hv. þingmenn fái hvíld til þess að sinna nefndarstörfum? Því miður, virðulegur forseti, hefur staðið á svörum við öllum þessum einföldu spurningum. Ég held að í tilefni þess að klukkan er farin að ganga eitt verði ég enn á ný að kanna hvort virðulegur forseti hafi skýrari svör nú en fram að þessu, því að það eru vissulega ætíð tímamót þegar nýr sólarhringur hefst og ég vona að virðulegur forseti hafi fengið einhverjar fréttir, hugsanlega eftir samráð eða hafi fengið nægilegan tíma til að íhuga þær spurningar sem ég hef hér reitt fram nokkrum sinnum en fram að þessu fengið afar óljós svör. Ég vil því gefa hæstv. forseta enn á ný tækifæri til þess að gefa skýr svör. (MÁ: Annars þarf að ljúka inngangi og hefja meginmál.)

Já, virðulegur forseti, það er nú þannig statt í ræðu minni að ég gæti annars vegar gert hlé á á henni nú eða hafið nýjan kafla sem ég gæti út af fyrir sig hagað nokkuð lengdinni á eftir því hvort virðulegur forseti hefur áhuga á að ljúka fundi hér á einhverjum tíma, þá gæti ég tekið mið af því. Það sem ég á hér eftir er þess eðlis að ég gæti trúlega hagað máli mínu nokkuð í samræmi við það að koma til móts við óskir virðulegs forseta t.d. gæti ég stytt mál mitt ef við hefðum eitthvert viðmið, virðulegi forseti, og ég vil bjóða upp á það nú á þessari stundu. Virðulegur forseti áttar sig kannski ekki alveg á hvað ég er að fara en það sem ég er að segja er að ég reiðubúinn til þess, ef það gæti greitt fyrir þingstörfum, að stilla ræðu mína nokkuð af miðað við það hvað virðulegur forseti gerir ráð fyrir að fundur standi hér lengi. (HHj: Jafnvel gera hlé.) Hárrétt hjá hv. þingmanni, ég er jafnvel reiðubúinn til þess að gera hlé á máli mínu en ég gæti þess vegna lokið máli mínu innan ákveðinna tímamarka ef virðulegur forseti hefði einhver viðmið þar um.

Ég get endurtekið spurningar mínar ef virðulegur forseti þarf meiri umhugsunartíma en ég get líka endurtekið rökstuðning minn við því að óska eftir … (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Forseti þakkar hv. þingmanni fyrir að gefa forseta orðið hvað eftir annað í þessari umræðu. Forseti vill nú sjá aðeins hvernig framvindan verður í ræðu hv. þingmanns. Skilur forseti það rétt að hv. þingmaður sé að ljúka máli sínu?)

Virðulegur forseti. Þannig að allir hv. þingmenn skilji, þá var ég að bjóðast til þess að stytta mál mitt ef það mundi flýta eða greiða fyrir þingstörfum. Ég gæti jafnvel gert hlé á ræðu minni ef það mundi greiða fyrir þingstörfum, þannig að ég er eiginlega að leggja hér inn afskaplega opið tilboð til virðulegs forseta um að við gætum hugsanlega mæst einhvers staðar í því að ljúka þessum þingfundi.

(Forseti (BÁ): Forseti telur almennt að ef hv. þingmaður getur stytt mál sitt muni það greiða fyrir störfum þingsins og telur að það megi ná markmiðum um að stytta þennan fund ef hv. þingmaður getur stytt mál sitt.)

Virðulegi forseti. Bara þannig að það sé enginn misskilningur hér á ferðum, skil ég það rétt að ræðulengd mín ráði því hvenær þessum fundi ljúki? Er það svo að ég sé að greiða fyrir lokum eða frestun þessa fundar með því að stytta mál mitt eða hefur það ekkert að segja um lengd fundarins, virðulegi forseti, bara þannig að hér sé enginn misskilningur? Það er stutt á milli okkar hér þannig að ef virðulegur forseti á við það að fundi verði frestað að lokinni minni ræðu þá mun ég að sjálfsögðu taka tillit til þess.

(Forseti (BÁ): Forseti telur að einhver slík niðurstaða geti náðst ef hv. þingmaður getur mögulega stytt ræðu sína eitthvað.)

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan tel ég mig geta stytt ræðu mína þó nokkuð. Ég gæti að vísu haldið töluvert lengi áfram því eins og sjá má hef ég aðeins fært örlítinn hluta af þeim pappírum sem ég er með hér í ræðustól til hliðar. (Gripið fram í: Við viljum hlusta á þig.) Háttvirtu þingmenn. Ég hef lagt gífurlega áherslu á að í fyrramálið klukkan 8:30 hefst fundur í iðnaðarnefnd. (BJJ: Stundvíslega.) Stundvíslega klukkan 8:30 segir hv. þm. og formaður iðnaðarnefndar, sem leggur mikið upp úr stundvísi. (Gripið fram í.) Hárrétt, hv. þingmaður. Ég hef tekið eftir því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson er afskaplega þreytulegur og það er auðvitað eðlilegt. Hv. þingmaður hefur lagt sig verulega fram um að vera hér viðstaddur langar og erfiðar umræður og hefur væntanlega móttekið gífurlegan fróðleik um það mál sem hér er á dagskrá. (Gripið fram í.) Ja, það er ýmislegt sem bendir til þess, hv. þingmaður, að það sé býsna erfitt starf hjá formanni iðnaðarnefndar hvað það varðar að vera eins og milli steins og sleggju.

Ég legg gífurlega mikið upp úr því að hv. þingmaður sem formaður iðnaðarnefndar verði býsna vel úthvíldur þegar iðnaðarnefnd kemur saman í fyrramálið til þess að ræða byggðaáætlun. Þess vegna, virðulegi forseti, mun ég nú í þeim anda sem ég hef hér boðað, þ.e. að nauðsynlegt sé að a.m.k. átta klukkustunda hvíld sé tryggð þar til iðnaðarnefndarfundur hefst, ljúka ræðu minni á eins skömmum tíma og mér er framast unnt. Það er auðvitað allt saman gert vegna þess mildileika sem virðulegur forseti hefur hér sýnt af forsetastóli um að þess megi vænta að fundi verði frestað að lokinni ræðu minni. Ég vil því að sjálfsögðu koma til móts við virðulegan forseta og reyna að flýta ræðu minni sem mest má vera. Þetta skapar mér auðvitað svigrúm þar sem ég á eftir aðra ræðu og get þá reynt að fara nákvæmar í gegnum þá pappíra sem ég hef hér.

Virðulegi forseti. Þar sem ég sé að klukkan er nú nokkuð gengin í eitt og ég veit að nokkrir hv. þingmenn eiga töluverða leið heim til sín og þurfa að mæta hér á nefndarfundi í fyrramálið mun ég ljúka ræðu minni hér og nú og segi það aðeins, virðulegi forseti, að þetta mun þó aðeins líta út eins og hlé á ræðu minni því að ég mun um leið og ég lýk máli mínu nú óska eftir því að verða skráður aftur á mælendaskrá.