132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Íbúðalánasjóður.

[13:41]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið fjallað um frumvarp til vatnalaga hér á þingi á síðustu dögum. Á fundi iðnaðarnefndar í morgun var tekið fyrir erindi frá Birni B. Jónssyni, formanni UMFÍ, sem er stílað á formann iðnaðarnefndar Alþingis og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna fréttar í Morgunblaðinu í dag 13. mars á blaðsíðu 6 undir fyrirsögninni „Vatnalagafrumvarp verði dregið til baka“ vill undirritaður taka fram:

Ungmennafélag Íslands stóð að yfirlýsingu „Vatn fyrir alla“ ásamt fjölda annarra samtaka á Íslandi síðastliðið haust. Auglýsingar birtust í fjölmiðlum í kjölfarið sem voru byggðar á fyrrgreindri yfirlýsingu.

Hins vegar er umsögn sem send var inn til iðnaðarnefndar Alþingis af hálfu BSRB þann 28. nóvember sl. er varðar frumvarp til vatnalaga, þingskjal 281, UMFÍ óviðkomandi. Undirritaður sá ekki umsögn BSRB fyrr en eftir að hún var send inn til nefndasviðs Alþingis og auk þess ekki efnislega sammála því sem þar stendur og getur þar af leiðandi ekki tekið ábyrgð á innihaldi umsagnarinnar, enda kom Ungmennafélag Íslands ekki á neinn hátt að smíði hennar né hefur samþykkt hana fyrir sitt leyti.

Selfossi mánudaginn 13. mars 2006.

Björn B. Jónsson, formaður UMFÍ.“

(Gripið fram í: Í hvaða flokki er hann?)

Hæstv. forseti. Við hljótum að harma þá villandi umræðu sem hefur verið í ræðustóli hv. Alþingis og í fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga að nafn Ungmennafélags Íslands hafi síendurtekið verið nefnt í andstöðu við það frumvarp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. (Gripið fram í.) Ég, hæstv. forseti, sem formaður nefndarinnar harma þessar rangfærslur og vona svo sannarlega að hér sé einungis um mistök (Gripið fram í.) að ræða sem ekki megi endurtaka sig aftur í löggjafarstarfi á hv. Alþingi.