132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Íbúðalánasjóður.

[13:43]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Þetta eru merkileg tíðindi sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, ber á borð fyrir okkur. Það hefur komið í ljós að þau samtök sem tilnefnd eru sem undirskriftaraðilar að þeirri umsögn sem stjórnarandstaðan hefur hvað mest flaggað í umræðunni um vatnalagafrumvarpið standa ekki að þeirri umsögn. Það segir hér að formaður UMFÍ hafi ekki séð umsögn BSRB fyrr en eftir að hún var send inn á nefndasvið Alþingis og auk þess sé hann ekki efnislega sammála því sem þar stendur og þar af leiðandi innihaldi umsagnarinnar.

Frú forseti. Auðvitað varpar þetta mjög mikilli rýrð á það sem kemur fram í þeirri umsögn og vekur náttúrlega upp alvarlegar spurningar um hvernig þau samtök sem þar eru talin upp, þ.e. Samtök starfsfólks fjármálafyrirtækja, Landssamband eldri borgara, Kennarasamband Íslands, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, Náttúruverndarsamtök Íslands, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Öryrkjabandalag Íslands voru fengin til að skrifa undir þessa umsögn.

Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem er formaður þeirra samtaka, sem var forsprakkinn að því að leiða þessa aðila saman, a.m.k. innan gæsalappa vegna þess að ljóst er að ekki var öllum þeim aðilum sem tilnefndir eru og tilgreindir í þessari umsögn heimilað að sjá umsögnina áður en þeirra var getið á henni. Auðvitað hlýtur hv. þingmaður sem jafnframt er formaður BSRB að svara því af sinni hálfu og sambandsins hvernig að þessu var staðið. Við hljótum að gera þá kröfu til þingsins og forsætisnefndar þingsins að það verði rannsakað nákvæmlega hvernig að þessu máli var staðið. (Gripið fram í: … rannsóknarnefnd.) Þetta mál er ekki fullklárað, frú forseti.