132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Íbúðalánasjóður.

[13:48]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta var skrýtin ræða. Hv. þm. Ögmundur Jónasson segir hér ef UMFÍ vill segja sig frá málinu. Það kemur fram í bréfi að þeir hafa aldrei fengið að sjá umsögnina, (ÖJ: Það er bara ekki rétt.) aldrei fengið að sjá hana. Ég fylgdist ágætlega með umræðunni „Vatn fyrir alla“. Það voru yfirlýsingar sem allir gátu tekið undir.

En það sem er að gerast hér, virðulegi forseti, er að menn reyna hvað eftir annað að láta hlutina líta út fyrir að vera eitthvað allt öðruvísi en þeir eru. Það er ágætt að taka þessi tvö mál, virðulegi forseti, forustumaður Vinstri grænna kemur hér og fleiri en einn og segir að verið sé að einkavæða Íbúðalánasjóð (Gripið fram í: Og vatnið.) og vatnið. Það var gott að hv. þingmaður hjálpaði mér með það í ræðunni (Gripið fram í.) því að hér eru menn hreinlega að fara með rangfærslur. Ef menn skilja ekki hvað heildsölubanki er, ef menn skilja það ekki eiga þeir að (Gripið fram í.) kynna sér málið, hv. þingmaður. Þeir eiga ekki að koma hér upp og segja að verið sé að einkavæða Íbúðalánasjóð þegar menn eru að skoða hugmyndir sem hafa verið í umræðunni, og hefur ekki verið mótmælt af stjórnarandstöðunni fram til þessa, um að breyta fyrirkomulaginu í breyttu umhverfi á lánamarkaði og gera úr honum heildsölubanka í staðinn fyrir þá starfsemi sem hann er í nákvæmlega núna. Það er ekki einkavæðing. (Gripið fram í.) Og það á heldur ekki við um vatnið en hér reyna menn að láta það líta svo út að ef við fengjum okkur að drekka úr fjallalæk kæmi einhver bóndi á eftir og rukkaði okkur í kjölfarið. Þetta eru allt saman ósannindi. Það eru hrein og klár ósannindi að hér sé verið að einkavæða vatn og breyta fyrirkomulagi frá því sem nú er.

En hér koma menn og endurtaka sömu ósannindin hvað eftir annað og meira að segja þegar sendar eru inn umsagnir frá aðilum sem hafa ekki séð (Forseti hringir.) umsagnirnar, þá segja menn bara að þeir séu að segja sig frá þeim.