132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Íbúðalánasjóður.

[13:55]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera nokkur tilfinningahiti í þessari umræðu. Hér koma hv. þingmenn og segja að það eigi að einkavæða Íbúðalánasjóð sem er auðvitað alrangt og hefur verið farið í gegnum það hér. Það hefur heldur ekki verið ákveðið hvernig Íbúðalánasjóður verður rekinn í framtíðinni en það er alveg ljóst að það verður í breyttri mynd. Við þurfum að fá á borðið tillögur til að geta metið þetta mál og sú vinna er í gangi og það samráð er í gangi. Það er alveg sama hvað hv. þingmenn hrópa hátt um það, þau gögn verða fengin inn á borð í félagsmálaráðuneytinu og þar verða þau metin. Þetta er mikil vinna sem verður hraðað eins og forsætisráðherra nefndi hér í gær. Það er alveg ljóst.

Hvað varðar lánsupphæð og veð sjóðsins varðandi lóðir að þá eru þær tillögur á mínu borði líka og ég hef verið að skoða þær, ég hef fengið þær inn á mitt borð og hef verið að líta yfir það mál jafnframt því sem endurskoðun á málefnum sjóðsins stendur yfir. Mér er alveg ljóst að það eru óþægindi af því fyrir sjóðinn að fá ekki þessar reglugerðarbreytingar inn en ég er að skoða þau mál og hef það á mínu borði.

Ég endurtek að aðalatriðið í þessu máli er að tryggja þjónustu við landsmenn um íbúðalán, alla landsmenn án tillits til þess hvar þeir eru búsettir á landinu. (Forseti hringir.) Það eru hin pólitísku markmið í þessu máli.