132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[13:58]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls undir þessum lið vegna þess að það fellur undir fundarstjórn forseta hvernig haldið er á málflutningi úr þessum ræðustól og gefa mönnum áminningu þegar þeir fara með óvarleg orð.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í iðnaðarnefnd hafa ekki verið með ótrúverðugan málflutning þó að hér hafi verið upplýst af hv. formanni nefndarinnar að UMFÍ, sem við höfum talið að hafi staðið að einni umsögninni, hafi dregið það til baka að þeir séu aðilar að umsögn. Það gerir ekki málflutning fulltrúa Samfylkingarinnar í þessum sal, fulltrúa okkar sem eru í iðnaðarnefnd, ótrúverðugan þegar umsagnir berast til nefndar og farið er eftir þeim og þær birtar sem fylgiskjöl. Það gerir ekki málflutning þeirra þingmanna sem starfa í nefndinni ótrúverðugan.

Virðulegi forseti. Fyrir hönd Samfylkingarinnar mótmæli ég því að hv. þingmenn Samfylkingarinnar í iðnaðarnefnd hafi verið með ótrúverðugan málflutning. Þegar send eru út mál til umsagnar og umsagnir berast þá er það ekki endilega þeirra að fylgjast með því eða fylgja því eftir við forustumenn þeirra félagasamtaka eða annarra sem senda umsagnir hvort þær séu rétt eftir hafðar eða samþykki félagasamtakanna standi á bak við þær. Málflutningur Samfylkingarinnar í þessari umræðu um vatnalögin hefur ekki verið ótrúverðugur, svo mikið er víst.