132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:00]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Mér leið undir umræðunni áðan eins og ég væri staddur á vegamótum á Jónsmessunótt. Eins og hæstv. forseti veit er það á Jónsmessunótt að kýrnar fá mál og hingað streymdu allir kálfar Sjálfstæðisflokksins og bauluðu. Sá sem baulaði hæst, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur nú runnið undan og er hvergi sjáanlegur. (Gripið fram í.) Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason kallar fram í. Ég saknaði hans úr umræðunni áðan, um Íbúðalánasjóð, alveg eins og ég sakna núna hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Á dauða mínum hélt ég að ég ætti von, frú forseti, en að hv. þingmaður færi að tala fyrir ríkisvæddum heildsölubanka. (Gripið fram í.) Annars vegar talaði hv. þingmaður um að ríkisvæða Íbúðalánasjóð en hins vegar um að einkavæða vatn.

Frú forseti. Ég kem upp af sömu ástæðu og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, til að mótmæla þeim ásökunum sem hér komu fram á hendur þingmönnum Samfylkingarinnar og stjórnarandstöðunnar vegna þess að einhver misskilningur er af hálfu einhverra um umsagnir. Ég kem til að mótmæla því sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði, að stjórnarandstaðan hefði byggt allt sitt á umsögninni sem hann vísaði til. Ég byggði ræðu mína ekki á henni. Ég hélt að mínu viti gagnmerka ræðu sem ég reyndi að haga þannig í gær að hún upplýsti hv. þingmenn stjórnarliðsins um þær rangfærslur sem þeir hafa staðið fyrir og þar vísaði ég aðeins í eina umsögn. Það var umsögnin sem kom frá einni mikilvægustu eftirlitsstofnun okkar á sviði umhverfismála, Umhverfisstofnun, stofnun hv. umhverfisráðherra, sem sagði um frumvarpið, sem hér hefur verið deilt um síðustu daga, að það bryti í bága við flesta alþjóðlega samninga, væri í andstöðu við hagsmuni almennings og skapaði réttaróvissu. Hvað segir hæstv. umhverfisráðherra við því að fá slíka einkunn frá embættismönnum sínum? Það er það sem við vorum að tala um í gær.

Þeir sem hafa verið með rangfærslur eru hvorki þeir sem stóðu fyrir átakinu Vatn fyrir alla né Ungmennafélag Íslands heldur fyrst og fremst málsvarar þessa frumvarps. Þar fer fremstur í flokki hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem hefur haft uppi staðhæfingar sem ekki standast próf veruleikans. Sá hv. þingmaður ætti að koma hingað. Ég ætla ekki að biðja hann um að skammast sín, því að ég efast um að hann kunni það eftir þessa umræðu, en að hann ætti a.m.k. að biðjast afsökunar á því að hafa aftur og aftur sagt að hér væri aðeins um formbreytingu að ræða (Forseti hringir.) þegar fyrir liggja yfirlýsingar frá aðalhöfundum frumvarpsins sem gefa allt annað til kynna.