132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:03]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Eins og oft hefur komið fram á síðustu vikum er ég nýr á þingi og þekki kannski ekki þá hegðun sem menn sýna almennt í þingsal en mikið afskaplega finnst mér hv. þm. Birkir Jón Jónsson leggjast lágt varðandi vatnalagafrumvarpið, að sverta hér UMFÍ.

Það vill þannig til að ég er í stjórnum aðildarfélags, bæði að UMFÍ og BSRB og til er póstur það … (Iðnrh.: Hann las bara upp bréf.) (BJJ: Ég las upp bréf …) Hvernig skyldi það bréf hafa orðið til, hv. þingmaður? Það er nefnilega spurningin.

Það er skýrt að Ungmennafélag Íslands stendur að yfirlýsingunni Vatn fyrir alla, sem er grunnurinn að umsögninni. Það er alveg skýrt, sama þótt hæstv. iðnaðarráðherra jánki, að þessi umsögn fór fyrir UMFÍ. Það eru til margir tölvupóstar til vitnis um það.

Hvað skyldi hafa gerst í gær? Hver skammaði formann UMFÍ? Hver í ósköpunum dró hann inn í þessa umræðu? Hver í ósköpunum stendur fyrir því að sverta nafn UMFÍ? Til hvers? (BJJ: Hvers lags málflutningur er þetta?) Þetta er alveg skýrt og mun allt verða sannað. (Gripið fram í.) Það er skýrt að UMFÍ vissi nákvæmlega um þessa umsögn og hafði hana til umfjöllunar. Það er alveg skýrt. (Gripið fram í: Hann kann að skammast sín.) Ég velti því fyrir mér hve lágt ætla menn að leggjast við að reyna að troða þessu vatnalagafrumvarpi hér í gegn. Á hvaða framsóknarmanni skyldi flokkurinn snúa upp á hendurnar næst til að senda svona yfirlýsingar? (BJJ: Þetta er með ólíkindum.) Þetta er ekkert með ólíkindum (Gripið fram í: Jú.) Nei. Þetta eru nákvæmlega ykkar vinnubrögð. Það sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) þolir ekki er að einhver skuli koma (Forseti hringir.) upp til að staðfesta það.

(Forseti (SP): Forseti vill biðja alla hv. þingmenn um að gæta stillingar við umræðuna. Hér um fundarstjórn forseta að ræða. Það er heldur ekki rétt af hv. þingmönnum að vera að ávarpa hver annan úti í þingsal. Það á að ávarpa forseta.)

Það var að vísu ekki mitt frumkvæði, hæstv. forseti, að hver skyldi ávarpa annan. En mér finnst þetta mjög alvarlegt mál, frú forseti. Ég er að tala um vatnalagamálið sem verið hefur á dagskrá í tíu daga og verður greinilega í tíu daga eða meira í viðbót, ég tala nú ekki um ef það á að draga fram fleiri félagasamtök inn í málið, einungis til að níða þau niður í svaðið. Það er ekkert annað sem hv. þingmaður hefur gert, nákvæmlega ekkert annað. Það sýnir náttúrlega hve tæpt flutningsmenn þessa máls standa. Þetta er svívirða.