132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:09]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það gerðust merk tíðindi í dag. Hér kom upp ábúðarfullur formaður iðnaðarnefndar og las upp bréf. Síðan komu ungir liðsmenn Sjálfstæðisflokksins og tóku undir að það væri forkastanlegt og töldu jafnvel í framhaldinu að allur málflutningur stjórnarandstöðunnar mundi falla, með þessu eina bréfi frá Ungmennafélagi Íslands. Það var eins og þeim væri létt.

En það gerðist fleira en að þeim virtist létta við þetta, að allur málflutningur stjórnarandstöðunnar mundi falla út af bréfi frá UMFÍ. Þeir heimtuðu líka rannsókn. Ég gat ekki heyrt betur en að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson heimtaði rannsókn á öllum umsögnum. Ég er á því að það yrði málinu bara til framdráttar, vegna þess að hér hafa fallið stór orð, að fram færi rannsókn á því hvort þessar umsagnir eigi við rök að styðjast.

Ég er á því að hæstv. forseti ætti að fresta málinu þar til rannsóknin, sem liðsmaður Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd hefur farið fram á, hefur farið fram og öll gögn málsins verði könnuð til hlítar.

Þessi ágæti liðsmaður iðnaðarnefndar Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hefur einnig efast um að umsögn Bændasamtakanna eigi við rök að styðjast. Ég vildi að menn gengju úr skugga um það þannig að menn fari ekki í grafgötur með það hvort umsagnir eigi við rök að styðjast. Það væri fróðlegt að fá viðbrögð hæstv. forseta við þessari ósk minni, hvort hann muni fresta málinu þar til kannað hefur verið hvort þessar umsagnir séu settar fram á réttum forsendum. (Gripið fram í.) Það kom fram að mjög miklar efasemdir væru um viðhorf bænda. Ég heyri á bændum víða um land að þeir hafa verið að styrkjast í efasemdum um þetta frumvarp. Það hefur komið fram að þeir efast um að frumvarpið þjóni hagsmunum þeirra. Fram hafa komið vangaveltur um að auðveldara verði að svipta þá eignum sínum í kjölfarið á þessu frumvarpi, að það verði léttara að koma á eignarnámi á jörðum þeirra. Þessu hafa bændur áhyggjur af. Í þeirra umsögn kemur einnig fram að með því sé verið að þynna út netlög.

Það væri fróðlegt að fá viðbrögð hæstv. forseta við þessari ósk þingmanns Sjálfstæðisflokksins um að fram fari rannsókn á umsögnum um frumvarpið.