132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:12]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér varð merkileg uppákoma áðan, að sjá hv. þm. Birgi Ármannsson og hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, sem ég veit ekki til að hafi tekið þátt í umræðunni sem hér hefur átt sér stað um vatnalögin, koma hér upp með fullyrðingar. Í fyrsta lagi fullyrðir hv. þm. Birgir Ármannsson að þetta bréf frá formanni UMFÍ, þar sem hann segir sig frá umsögn um vatnalögin, geri málflutning stjórnarandstöðunnar ótrúverðugan. Síðan segir hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson að við höfum byggt málflutning okkar á þessari umsögn. Aðra eins dellu hef ég ekki heyrt.

Frú forseti. Mér þykir það alvarlegt þegar menn standa og gaspra af miklu þekkingarleysi um málið þegar það er alveg ljóst að sendar voru inn sjálfstæðar umsagnir á vegum Landssambands eldri borgara, Félags umhverfis- og heilbrigðisfulltrúa, Umhverfisstofnunar, Landverndar og Náttúrufræðistofnunar, svo að eitthvað sé talið. Þegar menn fjalla um málið með þessum hætti og grípa einhvers konar fána á lofti til að kasta rýrð á umsagnir þessara aðila þá finnst mér það fyrir neðan allar hellur. Þetta voru vandaðar umsagnir og vel ígrundaðar og algjörlega óþarft að fjalla þannig um þau mál sem liggja fyrir þinginu. Þessi gögn liggja fyrir og ég hvet menn til að kynna sér þau áður en þeir koma upp með aðrar eins yfirlýsingar.

Það er alveg augljóst, virðulegi forseti, á þessum málflutningi að menn eru í töluverðum vandræðum. Hv. þm. Mörður Árnason fór ágætlega yfir að við höfum sýnt fram á, bæði stjórnarandstaðan, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og fleiri aðilar sem sendu inn umsögn, verulega veikleika í málflutningi stjórnarliða og veikleika í málinu sem slíku.

Ég tel að við ættum að sýna stillingu og fara ekki að ræða um umsagnaraðila eins og gert var fyrr í dag. Menn ættu að setjast niður og fara vel yfir þessar umsagnir og lesa og sjá hvað þær hafa raunverulega um málið að segja. Það skiptir mestu máli. Það eru gerðar alvarlegar athugasemdir við efni þessa frumvarps og á það hefur ekki verið hlustað, hvorki í meðförum nefndarinnar né í þinginu. Ég held að áður en menn koma með aðrar eins fullyrðingar og settar voru fram áðan ættu menn að kynna sér efni málsins.