132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:18]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég er sammála þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls og hafa mælst til þess að menn ræði þetta mál af stillingu. Ég held að þeir áhorfendur sem hafa horft á þær umræður sem hér hafa farið fram geti vottað að það á jafnframt við um stjórnarandstöðu og stjórnarliða, ekki síður jafnvel.

Hæstv. forseti. Ég átti ekki von á þessari umræðu. Ég kom hér upp áðan og gerði grein fyrir bréfi sem barst iðnaðarnefnd Alþingis. Umsögn UMFÍ hefur legið fyrir í þingskjölum og mér finnst sjálfsagt sem formanni nefndarinnar að það komi þá fram í umræðum á Alþingi að hér hafi verið um mistök eða misskilning að ræða. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér er verulega brugðið við ræðu hv. þm. Valdimars Leós um að ég sé að sverta Ungmennafélag Íslands. (Gripið fram í: Þú varst að því.) (Gripið fram í.) Ég á ekki til orð, hæstv. forseti, yfir þá ræðu sem hv. þingmaður hélt hér áðan. Ég er að gera skyldu mína, hæstv. forseti, sem formaður nefndarinnar að koma þeim sjónarmiðum á framfæri. Að gefa það í skyn að einhver hafi verið beygður í þessu máli lýsir miklu fremur hugsunarhætti hv. stjórnarandstæðinga en stjórnarliða.

Hæstv. forseti. Ég kom ekki hér upp til að efna til ófriðar. (Gripið fram í.) Ef hv. þingmenn vilja gera athugasemd (Gripið fram í.) við það að ég komi þessum sjónarmiðum formanns UMFÍ á framfæri, sem ég tel að mér sé skylt, þá eru það bara ákveðin sjónarmið og ég er ekki sammála þeim sjónarmiðum.

Síðan mótmæli ég því, hæstv. forseti, þó að það hafi ekki verið borið á mig beint að ég hafi sakað hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar í hv. iðnaðarnefnd um einhvern misskilning eða annað slíkt, það gerði ég ekki í upphafsorðum mínum og það er mjög langt seilst ef hv. þingmenn vilja túlka orð mín með þeim hætti, en mér fannst skylda mín sem formaður nefndarinnar að koma þessum sjónarmiðum á framfæri og það eru engar annarlegar hugsanir eða annarlegir hagsmunir þar á bak við og því tel ég, hæstv. forseti, að við ættum nú að reyna að dempa þessa umræðu og ég fullvissa hæstv. forseta og annan hv. þingheim um það að á bak við ræðu mína hér áðan voru engin annarleg sjónarmið.

(Forseti (SP): Forseti vill minna á að það ber að ávarpa aðra hv. þingmenn með fullu nafni.)