132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:42]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hafi ég skilið hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson rétt áðan, þegar hann fór hér fram með nokkrum skorti á stillingu, þá var hann að krefjast þess í umræðu um fundarstjórn forseta að sérstaklega væri tekin til rannsóknar sú umsögn sem barst frá Ungmennafélagi Íslands. (ArnbS: Það var um störf þingsins.) Þetta er um störf þingsins. Nú veit ég ekki, forseti, hvernig þetta er í Tævan, hvernig störf þingsins eru rædd á því þjóðþingi, eða hvernig fundarsköpin eru í þeirri undirnefnd sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hefur lofað forseta Tævan að stofna hér á Alþingi Íslendinga og ekki enn þá skýrt út fyrir þingmönnum, en hér á þessu þingi er umræða um fundarstjórn forseta. Ég hóf mál mitt á því að rekja hvað Sigurður Kári Kristjánsson hefði sagt um það efni og held því áfram.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson minntist á það í umræðu um fundarstjórn forseta, að gefnu tilefni, að það kynnu að vera fleiri umsagnir sem þyrfti að fara í gegnum í þeirri rannsókn. Hann talaði sérstaklega um umsögn Bændasamtakanna. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér hana náið en það kann vel að vera að þar sé sitthvað sem þarf að fara í gegnum í þessu samhengi. Ég skil ekki af hverju hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur rétt umfram hv. þm. Sigurjón Þórðarson að ræða um þessar umsagnir í umræðu um fundarstjórn forseta. En það gerðist enn einu sinni, sem ég hef vakið athygli á, að eftir að Sigurjón Þórðarson hélt ræðu sína stóð forseti upp og taldi að hann væri með einhverjum hætti ekki á réttri leið í þessu.

Ég vil svo bæta við, ef fara á að rannsaka hlutina, forseti, að þá er kannski rétt að taka líka umsagnir Umhverfisstofnunar til rannsóknar, þá fyrri og síðari, því að þar er augljóst að komið hafa að aðilar sem ekki eiga heima í Umhverfisstofnun sjálfri og reynt að hafa áhrif á þá umsögn. Það kemur fram í síðari umsögninni að sest hafi verið niður, eins og ég hygg að því sé lýst þar, með fulltrúum úr umhverfisráðuneytinu, þ.e. starfsmönnum ráðherra sem hér situr á þinginu, hæstv. ráðherra Sigríðar Önnu Þórðardóttur, sem reyndu að hafa áhrif á þá umsögn og tókst það að einhverju leyti. En Umhverfisstofnun stóð að vísu í lappirnar að lokum og sagðist hafa haft rétt fyrir sér. Það að óskyldir, kannski ekki óskyldir en óréttmætir aðilar séu að reyna að hafa áhrif á umsagnir einstakra stofnana í stjórnkerfi okkar um mál sem koma fyrir þingið er alvarlegt umræðuefni. Miklu alvarlegra en þau mistök, skulum við kalla það, sem virðast hafa orðið í samskiptum UMFÍ við hin félagasamtökin sem sendu þá umsögn sem hér er um rætt.