132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:45]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég heyrði ekki betur en hv. þm. Pétur Blöndal hefði í ræðu sinni áðan verið að finna að fundarstjórn forseta í gærkvöldi. Hv. þm. gat þess sérstaklega að hann hefði setið heima við sjónvarpið — þegar einhver hefði nú haldið að það væri kannski betra fyrir hann að vera hér — til að fylgjast með umræðum. Hann skoraði á menn sem hér tala í dag um fundarstjórn forseta að leyfa hinni lýðræðislegu umræðu að þróast áfram, leyfa mönnum að tala. Það má svo sem taka undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal.

Ég taldi að þetta hefði borið vott um sáttfýsi af hálfu hæstv. forseta í gær og að menn væru aftur að taka hér upp nokkra virðingu fyrir eðlilegum starfsháttum í þinginu að fresta fundi upp úr miðnætti með hliðsjón af því að þá var fyrirhugaður fundur iðnaðarnefndar klukkan hálfníu í morgun. Þó að menn takist hér harkalega á og deili þá hljóta menn samt sem áður að viðhafa svona þokkaleg vinnubrögð við stjórn fundanna eins og hæstv. forseti gerði í gær. Hér eru menn hvorki sveltir né barðir til hlýðni og ég vona að réttur til svefns og hvíldar verði ekki tekinn af þingmönnum þó að menn takist harkalega á um grundvallarmál, þ.e. auðlindir.

Vegna orða hv. þm. Péturs H. Blöndals og óska um að umræðunni gæti undið fram verður að rifja það upp að það var þingmaður stjórnarliðsins, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, sem kom hér upp eins og hann hefði fundið einhvern sérstakan nýjan sannleika sem gjörbreytti öllu. Hugsið ykkur, sagði hv. þm. Birkir Jón Jónsson, það er komið bréf frá Ungmennafélagi Íslands. Og vegna þess að það er einhver misskilningur á ferðinni þá fannst hv. þingmanni sem hér hefðu gerst stórkostlegir atburðir.

Hv. þingmaður á ekki að láta etja sér á foraðið. Við verðum að gæta að okkur með hvaða hætti þessi umræða þróast fram. Við í stjórnarandstöðunni höfum beðið um útskrift á ummælum hv. þingmanns. Ég ætla ekki að rekja það nákvæmlega sem mér fannst hann segja frá orði til orðs, en efnislega var þessu beint að einum tilteknum þingmanni. Það var reynt að veikja stöðu hans í þinginu, það var talað sérstaklega þannig að samtök sem hann gegnir forustu fyrir væru að beita blekkingum.

Maður gæti látið þetta sem vind um eyru þjóta ef þetta væri eitt einstakt dæmi. Hæstv. iðnaðarráðherra beitir sömu brögðum. Flokkssystir hv. þingmanns hefur komið hér áður og ásakað þennan sama þingmann um að falsa hluti. Þetta, frú forseti, eru ekki vinnubrögð sem nokkrum stjórnmálaflokki eru til sæmdar eða fremdarauka. Það er nú það eina sem ég vil segja um það mál og háttsemi Framsóknarflokksins og hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar á þessu stigi en ég bíð eftir tækifæri til þess að ræða þau ummæli hans frekar þegar ég hef fengið af þeim útskrift.