132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[14:59]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað ljóst að umræða um fundarstjórn forseta fer nokkuð víða þegar undir þeim lið er rætt dag eftir dag og það er fyrst og fremst af þeirri ástæðu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gat um hér áðan. Á meðan ekki fást skýr svör um það hvert skipulag á að vera á þinghaldinu, hvernig fundarstjórn forseta verður háttað, þ.e. hversu langur fundur verður í dag, hvað verður á dagskrá næstu daga o.s.frv. — sem betur fer hefur það nú verið venjan hér í þinginu að um slíkt hefur ríkt þokkalegt samkomulag — þá er auðvitað ljóst að þinghaldið er allt úr skorðum gengið. Það væri nær að nýta þann tíma sem fer í þennan dagskrárlið til að reyna að ná lausn í því máli. Það er hlutverk stjórnar þingsins að sinna því verki en á meðan höfum við, virðulegir þingmenn, ekki aðra leið en að reyna að hafa áhrif og óska eftir upplýsingum með því að fara hér upp um fundarstjórn forseta.

Frú forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um ræðu mína hér í gærkvöldi og kvartaði yfir því að hann hefði ekki náð dýptinni í ræðunni. Hv. þingmaður hefur að vísu nokkrum sinnum gefið það út að hann missi allan þráð þegar menn hafa rætt lengur en svona u.þ.b. 15 mínútur. (Forseti hringir.)

(Forseti (JóhS): Nú er hv. ræðumaður farinn að ræða um annað en fundarstjórn forseta og forseti getur ekki unað því að það sé rætt um annað undir þessum lið en fundarstjórn forseta.)

Frú forseti. Ég furða mig nokkuð á því að það skuli gilda hér mjög misjafnar reglur. Hv. þm. Pétur H. Blöndal fjallaði um ræðu mína undir liðnum fundarstjórn forseta. Ég er að reyna að svara því sem hv. þingmaður ræddi um undir þeim dagskrárlið. Ég kannast ekki við að ég hafi aðra möguleika á því fyrr en eftir marga, marga sólarhringa að svara því sem hv. þingmaður sagði. Og það tengist að sjálfsögðu fundarstjórn forseta vegna þess að ég heyrði ekki betur en hv. þingmaður hefði í ræðu sinni verið ýmist að hæla fundarstjórn forseta eða finna að, ég áttaði mig ekki á því. Ég ætlaði hér í minni ræðu, í svari við ræðu hv. þingmanns, að ganga í lið með hæstv. forseta, sem hér var og sýndi mikinn lipurleik um miðnætti í gær — hæstv. forseti, sem þá var hér við störf, taldi það vera eðlilega fundarstjórn að ljúka fundi um miðnætti vegna þess m.a. að ég benti á að fundur væri í iðnaðarnefnd kl. 8.30 að morgni og hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, var hér örþreyttur eðlilega um miðnætti í gær.

Ég vil því, virðulegi forseta, segja að ég tel það falla undir fundarstjórn forseta að fara hér í vörn fyrir virðulegan forseta sem sat hér á forsetastóli um miðnætti í gær. Og ég vil endurtaka það að ég held að sá hæstv. forseti hafi sýnt mikla lipurð og raunverulega gengið í lið með þeim sem telja að nú sé nóg komið af upplausn í þinghaldinu.

(Forseti (JóhS): Það er ekki hlutverk forseta að ganga í lið með einum eða neinum.)