132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[15:02]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég beini því til forseta hvort hann hafi veitt því athygli þegar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sem nú er flúinn úr salnum hengdi aftan í sig skítadreifarann og puðraði yfir formann iðnaðarnefndar með þvílíku orðavali (Gripið fram í: … orðalaginu.) að það er ekki honum sæmandi, þegar hv. formaður iðnaðarnefndar kom hér, sem er skylda hans, (Forseti hringir.) til að upplýsa þingheim um það hvaða gögn hafa borist iðnaðarnefnd. Er það ekki skilningur hæstv. forseta ...?

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja þann ræðumann sem stendur í stólnum að gæta orða sinna, og líka hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson ef hann hefur sagt eitthvað óvarlega sem hefur farið fram hjá forseta. Það gefur þó hv. þingmanni ekki rétt til að viðhafa óvarleg orð í ræðustól.)

Rétt. Ég biðst velvirðingar, virðulegi forseti, og skal verða við ábendingu. Ég vil einungis beina því til forseta hvort það eru ekki rétt vinnubrögð af hálfu formanns nefndar að koma hér fyrir þingheim þegar mál eru til umræðu og ný gögn og nýjar upplýsingar hafa borist þingnefnd og gera grein fyrir þeim. Hér hefur hv. formaður nefndarinnar verið sakaður um ýmislegt í því sambandi þegar hann kemur hér með góðum hug og er að sinna skyldum sínum og upplýsa þingheim um nýjar upplýsingar, og er ekki rétt og skylt af honum að gera það? Hér hafa einstakir þingmenn sakað hann um ýmislegt í þessu sambandi sem er þeim ekki sæmandi.