132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Bréf frá formanni UMFÍ.

[15:14]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í umræðunni um fundarstjórn forseta að þessu sinni en verð þó að koma hér upp og taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni þar sem hann beinir því til og skorar á forsetadæmið, eins og hann orðaði það svo skemmtilega, að taka á þeim vanda og þeirri óvissu sem hér er uppi á Alþingi. Eftir því sem ég best veit hljóta hæstv. forsetar Alþingis að vera í því hlutverki að skipuleggja þingstörfin með þeim hætti að þau gangi sem greiðast. Að mörgu leyti má segja að fundarstjórn forseta á þinginu sé svipaðs eðlis og hlutverk flugumferðarstjóra í kringum flugvelli þar sem mikil umferð er, þ.e. að greiða fyrir umferðinni eins og hægt er þannig að allir þeir sem þurfa að nýta flugvöllinn og komast að komist að með þeim hætti sem gert er ráð fyrir.

Allir sem setið hafa í flugvél á enda flugbrautar og beðið eftir því að komast í loftið vita hversu leiðinlegt það er þegar tilkynning kemur um að það sé löng röð á undan og að ekki hafi tekist að skipuleggja starfið á flugvellinum með þeim hætti að flugvélin komist í loftið á réttum tíma, eingöngu vegna þess að ekki hefur tekist að ná stjórn á þeirri starfsemi sem fram fer á flugvellinum. Að mörgu leyti er þetta það sama hér þar sem við bíðum í röðinni eftir því að það takist að ná stjórn aftur á störfum þingsins.

Það hlýtur eitthvað mikið að vera að þegar hefðbundin störf og dagskrá þingsins raskast eins og nú er. Hv. þm. Jón Bjarnason fór yfir það að hefðbundinn fyrirspurnafundur sem á að vera á morgun verður væntanlega ekki vegna þeirrar umræðu sem hér fer fram. Okkur var tilkynnt það á þingflokksfundum að utandagskrárumræður sem eru hefðbundnar á þinginu og eiga hér sinn sess yrðu ekki meðan á þessari vatnalagaumræðu stæði. Með öðrum orðum er öllum hefðbundnum störfum þingsins vikið til hliðar meðan verið er að reyna að koma þessari flugvél í loftið sem er vatnalagafrumvarpið. Allir aðrir eiga að bíða á meðan, alveg sama hve stór tappi myndast, vegna þeirrar þvermóðsku sem uppi er. Ég held að við verðum núna að reyna á allan hátt, bæði þingmenn og hæstv. forsetar, að ná niðurstöðu um framhaldið með hvaða hætti sem það verður. Ég held að það sé þá rétt að hv. stjórnarliðar gæti að því með hvaða hætti þeir koma í umræðuna og með hvaða hætti þeir greiða fyrir eða greiða ekki fyrir þingstörfum því að ég verð að segja sem er, frú forseti, að ekki hafa þeir stjórnarliðar sem tekið hafa þátt í umræðum greitt fyrir þingstörfum í dag.