132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:20]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum um vatnalög og höfum gert það nú síðustu dægrin. Ég hef ýmislegt við þetta lagafrumvarp að athuga og undra mig ekki á þeirri miklu umræðu sem hér hefur farið fram. Ég hefði nú helst viljað að menn hefðu tekið mark á þessum umræðum og athugasemdum og hreinlega dregið frumvarpið til baka. Þau lög sem fyrir eru, og eru orðin rúmlega 80 ára gömul, hafa staðist tímans tönn og það hefur ekki verið rökfest hér nægilega vel af hverju ætti að breyta þeim.

Frú forseti. Mig langar nú að koma nokkuð víða við en ætla að nefna það hér strax að vegna ákvæða í frumvarpinu þá hef ég áhyggjur af fiskeldi í framtíðinni. Það hefur ekki verið tekið upp í umræðunum áður nema að litlu leyti. En það sem veldur mér mestum áhyggjum varðandi fiskeldið er að hér segir í 3. gr. frumvarps til vatnalaga, með leyfi forseta:

„Í lögum þessum er merking hugtaka sem hér segir: … 3. Búsþarfir: Búsþarfir til kvikfjárræktar.“

Þetta er breyting frá því sem er í lögunum. Hér er ekki talað um ylrækt. Hér er ekki talað um fiskeldi. Þeir sem hafa komið nálægt fiskeldi trúa því að í framtíðinni verði það ein af aðalatvinnugreinum Íslands og menn hafa löngum heyrt talað um að gengið sé hart á fiskstofna og verður að teljast mjög líklegt að fiskurinn, rétt eins og aðrar skepnur, verði alinn upp í framtíðinni á þessu landi til manneldis.

Ég hef, frú forseti, áhyggjur af því að þetta frumvarp skerði möguleika bænda og annarra sem vilja hafa fiskeldi sem landbúnað. Það kemur jafnframt hér fram varðandi aðgangsröð að vatni í 15. gr. að vatnstaka til heimilis og búsþarfa gengur fyrir annarri vatnsnýtingu. Þar af gengur heimilisþörf fyrir búsþörf, þ.e. það er búið að strika fiskeldi gjörsamlega út. En því er nú þannig háttað að til að geta verið með eldi laxfiska hér á Íslandi þarf að ala upp seiði á landi í seiðaeldisstöðvum og til þess þarf mikið rennandi vatn. Það þarf að vera öruggt vatn. Ég reikna með að flestir sem hér eru inni hafi heyrt í fréttum að vatnsveita hafi brugðist og orðið mikið tjón í fiskeldisstöðvum.

Ég get ekki séð, frú forseti, annað en að þetta séu töluverðir meinbugir á þessu frumvarpi og þurfi að taka það sérstaklega fyrir. Það væri rétt að taka þessi frumvörp saman, þ.e. þessi mörgu frumvörp sem koma frá hæstv. landbúnaðarráðherra, frumvarp til laga um eldi vatnafiska og frumvarp til laga um fiskrækt m.a., enda kemur hér fram í 2. gr. frumvarps um fiskrækt varðandi gildissvið, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til allrar fiskræktar, ... sem fram fer í ferskvatni á íslensku forráðasvæði. Við framkvæmd þeirra skal gætt samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, laga um eldi vatnafiska og laga um varnir gegn fisksjúkdómum.“

En það þarf í raun að taka líka tillit til vatnalaga, þ.e. ef þeim verður breytt, þar sem fiskeldið mun ekki lengur, miðað við 3. gr. frumvarps til vatnalaga, njóta neins forgangs. Í frumvarpinu er ekki litið á það sem landbúnað og því er nauðsynleg vatnsnotkun til seiðaeldis ekki tryggð.

Í frumvarpi til laga um eldi vatnafiska segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að skapa skilyrði til uppbyggingar eldis vatnafisks og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.“

Ég get ekki séð að þetta markmið sé raunhæft, frú forseti, miðað við þau ákvæði er ég hef bent á í frumvarpinu um vatnalög og sé því ekki alveg að hægt sé samþykkja þetta frumvarp til laga um eldi vatnafiska ef frumvarp til laga um vatn fer óbreytt í gegn.

Hér segir, frú forseti, í 8. gr. í frumvarpi um eldi vatnafiska, með leyfi forseta:

„Umsókn um rekstrarleyfi til fiskeldis skal vera skrifleg. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um eignaraðild að fiskeldisstöð, fagþekkingu umsækjenda rekstrarleyfis á viðkomandi sviði, stærð stöðvar, framleiðslumagn hennar, eldistegundir og eldisaðferðir, matsskyldu vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Umsókn skulu fylgja skilríki um heimild til afnota lands, vatns og sjávar.“

Ég spyr: Mun þetta ganga upp verði vatnalagafrumvarpið að lögum? Ég get ekki séð að það geti gerst því frumvarpið gerir ráð fyrir breytingu varðandi vatnsrennsli. Í 14. gr. í frumvarpi til vatnalaga segir, með leyfi forseta:

„Heimild til að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag. Nú breytist farvegur af náttúrulegum ástæðum og er þá fasteignareiganda hverjum sem bagi verður að breytingunni rétt að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag.“

Hér áður var ekki einungis talað um að farvegur breyttist af náttúrulegum ástæðum heldur og af hendi þriðja aðila. Því spyr ég, frú forseti: Getur 14. gr. í frumvarpi til vatnalaga virkilega þýtt að þriðji aðili geti breytt farvegi ár og þar með komið í veg fyrir að fiskeldisstöð á svæðinu fái það vatn sem nauðsynlegt er til að eldið geti þrifist?

Við erum ekki að tala um langan tíma, við erum kannski að tala um einhverjar klukkustundir sem liðið geta frá því að vatnsskortur verður í seiðaeldisstöð og þar til seiðin fara að drepast. Mér finnst því eðlilegt, frú forseti, að iðnaðarnefnd og landbúnaðarnefnd skoði þessi frumvörp saman því að ég get ekki betur séð en að þau rekist á og að fiskeldi á Íslandi sé í raun í algjöru uppnámi.

Þar að auki segir um rekstrarleyfi í 10. gr. frumvarps um eldi vatnafiska, með leyfi forseta:

„Telji Landbúnaðarstofnun að umsókn um rekstrarleyfi fullnægi skilyrðum laga þessara skal stofnunin gefa út rekstrarleyfi til tíu ára í senn.“

Ég spyr: Er hægt, eins og ég las upp úr 8. gr. áðan um að umsókn þurfi að fylgja skilríki um heimild til afnota á vatni samkvæmt þessu nýja frumvarpi um eldi vatnafiska, verði það samþykkt, að gefa út rekstrarleyfi til tíu ára, miðað við skilning minn á frumvarpi til vatnalaga, ef þriðji aðili getur nánast hvenær sem er breytt farvegi ár sem veldur því að fiskeldisstöðin fái ekki það vatn sem hún þarf á að halda til að geta haldið áfram starfsemi?

Frú forseti. Einhverra hluta vegna hafa þessi atriði varðandi ylrækt og fiskeldi ekki komið upp í umræðunni en eiga væntanlega eftir að gera það héðan í frá því að þetta frumvarp til vatnalaga, verði það að lögum, getur sett allt seiðaeldi á Íslandi í algjört uppnám.

Munurinn á seiðaeldi og svokölluðu matfiskeldi er að seiðaeldi, t.d. á laxi, fer fram í ferskvatni í þar til búnum kerjum í fiskeldisstöðvum og þegar laxinn hefur náð ákveðinni stærð er hann ýmist settur út í stærri ker eða hreinlega í sjókvíar. Hins vegar eru bleikjan og regnbogasilungurinn alin upp í ferskvatni á Íslandi. Mér sýnist miðað við vatnalagafrumvarpið að það geti þýtt að aðgangur fiskeldisfyrirtækja að vatni sé ekki tryggður í framtíðinni. Fyrst og fremst byggi ég það á þeirri ábendingu sem ég kom með strax í upphafi máls míns að í 3. gr. vatnalagafrumvarpsins þegar talað er um búsþarfir þá er einungis átt við kvikfjárrækt. Það er hvorki talað um fiskeldi né um ylrækt. Því hefur verið kippt út. Ég velti því fyrir mér hvort þeir sem málið varðar fyrst og fremst, Landssamtök fiskeldis- og hafbeitarstöðva, geri sér grein fyrir hvað hér er að gerast en ef ég man rétt, og ég mun koma að því á eftir, hafa Bændasamtökin væntanlega gert athugasemd við þessa grein varðandi búsþarfir eða fiskeldi. — Jú, það kemur hér fram, frú forseti, í umsögn sem Bændasamtök Íslands sendu hv. iðnaðarnefnd um vatnalagafrumvarpið að taka þurfi tillit til annarra búsþarfa en einungis kvikfjárræktar. Ég mun fara nánar yfir það síðar.

Eins og ég hef sagt, frú forseti, tel ég að hvort tveggja frumvarpanna, frumvarp til laga um eldi vatnafiska og frumvarp til laga um fiskirækt, séu í uppnámi vegna þessa frumvarps til vatnalaga. Það getur ekki verið ætlunin hjá hv. iðnaðarnefnd eða hæstv. iðnaðarráðherra að loka svona snögglega á fiskeldið með því að setja í uppnám möguleika fiskeldisstöðva og fiskræktenda til að hafa fullan og frjálsan aðgang að vatni.

Það segir hér í öðru þessara frumvarpa, um eldi vatnafiska, í umsögn frá fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um Veiðimálastofnun, frumvarpi til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, frumvarpi til laga um fiskrækt og frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði …“

Ég hefði talið heppilegra, frú forseti, að þetta frumvarp hefði verið flutt samhliða frumvarpi til vatnalaga, því að án vatnsins er ekkert fiskeldi. Og þrátt fyrir að ekki hafi gengið vel í fiskeldinu hjá þjóðinni síðustu 15 árin þá er það á ákveðinni þróunarbraut. Hvert einasta ár er dýrmætt. Menn þurfa að huga að því að finna rétta stofninn til að ala upp, finna réttu verkfærin til að vinna þessi verk og hentugustu aðstæðurnar. Og hvað varðar kvíaeldið, þ.e. eldi fiska upp í matfiskstærð í netum úti í sjó, þá þarf að huga að umhverfinu, að möguleikum á því að þar frjósi, að vindhraða og öðru slíku. Ég ítreka það enn og aftur, frú forseti, að ég get ekki séð að fiskeldisfyrirtæki geti uppfyllt skilyrði 8. gr. í frumvarpi til laga um eldi vatnafiska þar sem stendur að umsögn skulu fylgja skilríki um heimild til afnota vatns, verði frumvarp til vatnalaga að lögum. Ég er að sjálfsögðu að tala hér um það versta sem gæti gerst.

Í 15. gr. frumvarps til vatnalaga segir um forgang að vatni, með leyfi forseta:

„Vatnstaka til heimilis- og búsþarfa gengur fyrir annarri vatnsnýtingu. Heimilisþörf gengur fyrir búsþörf.“

Jafnframt segir þar:

„Sveitarfélag skal hafa forgangsrétt til töku vatns til vatnsveitu innan sveitarfélags á eftir heimilis- og búsþörfum fasteignareigenda.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Nái sveitarfélag ekki samkomulagi við fasteignareiganda um töku vatns í landi hans til vatnsveitu, eða um önnur atriði sem nauðsynleg má telja í því sambandi, getur iðnaðarráðherra heimilað að nauðsynlegt land, mannvirki og aðstaða til nýtingar og töku vatnsins og lagningar vatnsveitu, sem og önnur réttindi fasteignareiganda, verði tekin eignarnámi.“

Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Ég sé ekki betur en að hér halli enn og aftur á fiskeldisfyrirtækin.

Það er nokkuð greinilegt af því sem ég hef farið hér yfir, frú forseti, að skoða þarf öll þessi lög saman. Það er ekkert óeðlilegt við það þegar eldri lög eru tekin upp, eins og t.d. lög um lax- og silungsveiði, að taka þurfi upp fleiri lög og að gera þurfi það samhliða. Ég tel að í þessu tilfelli þurfi menn að lesa saman með vatnalagafrumvarpinu frumvarp til laga um eldi vatnafiska, um fiskirækt og jafnvel varnir gegn fisksjúkdómum.

Eins og ég hef vikið að, frú forseti, væri jafnvel hægt að halda því fram að frumvarp til vatnalaga setji fiskeldisfyrirtæki á Íslandi í uppnám. Fiskeldisfyrirtækin eru, eins og menn vita væntanlega, víða um land og sú stefna var rekin hér á landi í kringum 1984, ef ég man rétt, að aðstoða bændur við að setja upp seiðaeldisfyrirtæki víða um land sem atvinnuveg. Þar átti seiðaeldið, sem skapaði nokkur störf og verðmæti, að sinna þörf veiðifélaga og landeigenda til að rækta upp fisk í ánum til að gera þær veiðilegri og á þessum árum, 1987–1989, var útflutningur á seiðum til Írlands og Skotlands. Ríkisstjórnin aðstoðaði bændur við að koma upp seiðaeldisstöðvum sem voru í sjálfu sér kannski ekki stórfyrirtæki, miklu minni umfangs en matfiskseldisstöðvarnar, en byggðu á þeirri nauðsyn að hafa góðan aðgang að köldu vatni og helst að hitaveitu til að geta hitað vatnið upp í kjörhita.

Í umsögn frá Bændasamtökum Íslands kemur einmitt fram það sem ég hef verið að benda á, með leyfi forseta:

„Frumvarpið hefur nú verið yfirfarið á nýjan leik, og kemur þá í ljós að athugasemdir Bændasamtakanna hafa verið að engu hafðar. Þær eru því sendar á ný og nefndin vinsamlegast beðin um að íhuga þær vandlega. Sumar athugasemdirnar eru nánast sjálfsagðar, svo sem um skilgreiningu búsþarfa í 3. grein. Það er auðvitað fráleitt í dag að búsþarfir séu einskorðaðar við kvikfjárrækt.“

Ég furða mig svolítið á því að þetta hafi ekki verið nefnt við þessa 30 klukkustunda umræðu, sá möguleiki að fiskeldi sé hreinlega í uppnámi vegna vatnalagafrumvarpsins. Ég ætla að venda kvæði mínu í kross, frú forseti. Það má vera að þegar fjölgar aftur í salnum fari ég betur yfir áhrifin á fiskeldið, þ.e. að ég tel að fiskeldi á Íslandi gæti verið í uppnámi verði frumvarpið samþykkt.

Menn hafa rætt mikið og vel um vatn að undanförnu. Að sjálfsögðu er vatnið lífsnauðsyn og víða úti í heimi höggva menn mann og annan fyrir vatnið. Ég hlýddi á viðtal í gærkvöldi, frú forseti, í Kastljósi ríkissjónvarpsins þar sem Ingibjörg Elsa Björnsdóttir umhverfisfræðingur var spurð álits á frumvarpi til vatnalaga. Hún kom inn á að helsta breytingin yrði, sagði hún nánast orðrétt, að eignarréttur landeigenda yrði skýr og þetta væri ekki lengur nýtingarréttur. Landeigandinn, yrði frumvarpið að lögum, ætti vatnið rétt eins og farveginn og gæti þar af leiðandi framselt vatnið öðrum aðila.

Þetta fer að minna svolítið á þegar í desember 1983 voru sett lög um kvótakerfi á íslenska fiskstofna. Mönnum fannst misjafnlega um það en tíu árum síðar var bætt í betur og kvótaeigendum gert heimilt að framselja kvótann. Í máli umhverfisfræðingsins í gær kom fram að með vatnalagafrumvarpinu gæti sá er færður er eignarréttur á vatninu framselt vatnið öðrum. Þá yrðu stofnuð sérstök vatnsfyrirtæki sem keyptu vatnið. Mögulega yrði það selt erlendum vatnsfyrirtækjum, sem ég mun koma nánar inn á hér á eftir. Að sögn Ingibjargar væri hægt að selja erlendum aðilum vatnið og selja þeim land með, þ.e. jarðir með vatni á þannig að erlendir aðilar gætu keypt vatnsréttindi með því að kaupa hreinlega land. Það er ákveðin þróun í þá átt að ákveðnir aðilar kaupa upp jarðir víða um land. Við skulum reikna með að það sé í jákvæðum tilgangi en hitt er ljóst að þeir eiga möguleika, verði þetta frumvarp að lögum, að framselja vatnið öðrum aðilum, t.d. útlenskum fyrirtækjum. Hvar er þá þjóðin stödd?

Það er á hreinu að vatnsskortur er víða í heiminum og hefur frekar aukist en hitt. Eins og kom fram í máli Ingibjargar umhverfisfræðings í Kastljósi í gærkvöldi mun vatnið, þegar menn leysa flutningsvandann í framtíðinni, það er dýrt að flytja vatnið út í dag, verður vatnið að sjálfsögðu verðmætara, vatnsauðlindin verðmætari. Maður upplifir það í þessari umræðu, frú forseti, að verið er að búa til vatnskvóta sem mun síðan safnast á fáar hendur. Það er sem sagt, frú forseti, verið að einkavæða vatnið. Við í Samfylkingunni höfum bent á það síðustu daga en einhverra hluta vegna virðast stjórnarliðar ekki vilja hlusta á það og reyna einfaldlega að beita lagaklækjum. Staðreyndin er, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur margoft bent á, að lögin eru góð eins og þau eru í dag. Ég veit að hv. þm. Kjartan Ólafsson, sem nú gengur í salinn mér til mikillar gleði, mundi líka taka undir það ef honum væri tungan ekki bundin.

Ætlunin er að gera tilraun til að breyta vatnalögum, úr jákvæðri skilgreiningu í neikvæða. Ég mun rétt bráðum fara yfir mjög merkilegan fyrirlestur sem David Hall hélt á Íslandi um rannsókn sína á áhrifum einkavæðingar vatns í heiminum. Þetta er afskaplega merkilegur fyrirlestur sem allir hefðu gott af að hlýða á og ég hef undir höndum eintak af honum og mun fara yfir hann á eftir.

Í Kastljósi í gær urðu jafnframt orðaskipti milli þáttastjórnanda og hæstv. iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Mig langar aðeins að fara yfir það, með leyfi forseta, þar sem þáttastjórnandinn spyr Valgerði um réttindi eiganda vatns: „Hann má þá gera allt sem hann vill nema sérstaklega það sem honum er meinað að gera?“ Svarið hjá hæstv. viðskiptaráðherra var skýrt já, þ.e. sá sem eignast vatnið getur selt það erlendu vatnsfyrirtæki. Það hefur ekki reynst vel alls staðar eins og ég mun víkja að á eftir.

Áður var kveðið fast á um nýtingarrétt landeigendanna en nú er eins og hér hefur margoft komið fram er verið að einkavæða það. Vatnið á að sjálfsögðu að vera sameiginleg auðlind allrar þjóðarinnar en í Kastljósi í gær var hæstv. viðskiptaráðherra jafnframt spurð af þáttastjórnanda hvort menn gætu hreinlega bara keypt upp jarðirnar. Hæstv. iðnaðarráðherra svaraði því til að ekki væri hægt að koma í veg fyrir það. Áfram hélt síðan þáttastjórnandinn, með leyfi forseta:

„Og einhver gæti eignast mjög veruleg vatnsréttindi í landinu?“ — Svar hæstv. iðnaðarráðherra var skýrt. Já.

Þetta kemur inn á, virðulegur forseti, það sem við hjá Samfylkingunni höfum einna mestar áhyggjur af, að búa eigi til kvóta sem síðan verði úthlutað, að í framtíðinni muni vatnið ganga kaupum og sölum hér á Íslandi og að sjálfsögðu hafa menn þá áhyggjur af aðgangi almennings að vatni, að drykkjarvatni og eins hvað varðar fiskeldi, eins og ég kom inn á áðan.

Ég minntist á fyrirlestur sem haldinn var í vetur af prófessor David Hall frá Greenwich-háskólanum í London. Hann veitir þar forstöðu deild sem kallast Public Services International Research Unit, sem sérhæfir sig í rannsóknum á ýmsum þáttum almannaþjónustunnar.

Hans sérsvið er hvort tveggja rafmagn og vatn. Hann hefur rannsakað ýmislegt sem lýtur að heilbrigðiskerfinu og öðrum grunnþáttum almannaþjónustu. Hann á að baki langan feril sem fræðimaður og rannsakandi. Hann starfaði í 25 ár áður en hann kom til Greenwich fyrir háskóla og fyrir verkalýðshreyfinguna

Hann hefur einnig starfað fyrir aðra aðila og er núna stjórnandi rannsóknarverkefnis sem heitir Water Time Project og er fjármagnað af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þetta rannsóknaverkefni, sem hófst árið 2002, og er ætlað að standa í þrjú ár, byggir á samstarfi fimm stofnana og háskóla víðs vegar um Evrópu og rannsakar vatnsbúskap í borgum og sögu hans.

David Hall er eftirsóttur fyrirlesari. Við sem hlýddum á hann urðum nokkuð áhyggjufull af því að vatnið á Íslandi yrði ekki fyrir alla. Ég held að það sé réttast, frú forseti, að ég lesi fyrirlesturinn bara nákvæmlega eins og hann kom fyrir þannig að engar rangtúlkanir verði. Hefst nú yfirferðin, með leyfi forseta:

„Í þessum fyrirlestri mun ég varpa ljósi á hvernig vatnsveitur hafa þróast á opinberum og einkavæddum markaði í alþjóðlegu samhengi. Ég mun beina sjónum mínum fyrst og fremst að Evrópu en mun auk þess horfa til sögunnar og þróunarinnar annars staðar, t.d. í Norður-Ameríku og þróunarlöndunum, því reynslan er svipuð hvar sem er í heiminum.

Í erindi mínu mun ég taka fyrir fjögur meginviðfangsefni. Fyrst sögulega þróun vatnsþjónustu á annars vegar opinberum og hins vegar einkavæddum markaði. Í öðru lagi sitthvað um vatn í hagfræðilegum eða efnahagslegum skilningi en þar hefur vatnsgeirinn ákveðna sérstöðu. Í þriðja lagi mun ég taka fyrir vinnubrögð einkarekinna fyrirtækja sem starfa innan greinarinnar og þau áhrif sem þau hafa og að síðustu mun ég fjalla um vatnið og pólitík. Svo mun ég reyna að taka fyrir alla þessa þætti út frá alþjóðlegu og evrópsku sjónarhorni.“

Þetta eru einmitt þeir hlutir, frú forseti, sem við erum að fjalla um í dag og höfum rætt um síðustu daga. Áfram segir, með leyfi forseta:

„Fyrst er það hin söguleg þróun. Það er greinilegt samræmi í sögu vatnsveitna í borgum Evrópu og í öðrum heimsálfum. Í OECD-löndunum, þróuðu löndunum, má rekja upphaf vatnsveitna á 19. öld til einkarekinna fyrirtækja sem uppgötvuðu að markaðstækifærin væru hjá nýrri miðstétt og þróuðu því vatnslagnir fyrir miðstéttarheimilin sem höfðu efni á að borga fyrir slíka þjónustu.

Þegar leið á öldina sagði iðnbyltingin meira til sín og hagvöxtur jókst. Stækkaði þá sá hópur sífellt sem gerði kröfu um sömu þjónustu. Með heilbrigði fyrir alla að leiðarljósi kom krafan um að allir ættu sama rétt á hreinu vatni óháð efnahag. Reynslan varð sú að það var erfitt að fá einkageirann til að fjárfesta í slíkri útvíkkun kerfisins, því eðli máls samkvæmt var það óarðbært fyrir fyrirtækin að fjárfesta fyrir almenning sem ekki gat borgað fullt verð fyrir þjónustuna.

Því varð þróunin sú í byrjun 20. aldar um alla Evrópu og Norður-Ameríku og öllum þróuðum ríkjum að bæjar- og sveitarstjórnir tóku yfir einkareksturinn og var almannaþjónustan yfirleitt fjármögnuð með almennri skattlagningu.“

Það er athyglisvert, frú forseti, að áður hafa menn reynt að einkavæða vatnið, en hér kemur skýrt fram að ekki gekk það þá. En síðan segir, með leyfi forseta:

„Staðan í heiminum í dag er afleiðing þessarar sögulegu þróunar. Á heimsvísu eru vatnsveitukerfi sem eru fjármögnuð með einkarekstri um 5% af heildinni en 95% af vatnsveitum eru í almannaþjónustu. Undantekningin frá þessu er Evrópa og Bandaríkin, en þar er talsverður einkarekstur; í Evrópusambandinu um 25%. Í Bandaríkjunum, þar sem yfirleitt er meira um einkarekstur en annars staðar, er staðan svipuð. Um 85% vatns í Bandaríkjunum er miðlað til fólks af sveitarfélögum með almannaþjónustu. Ef horft er á heiminn heildrænt þá blasir við að vatnsveitur eru yfirgnæfandi í eigu opinberra aðila.“

Ég verð að segja, frú forseti, að það hryggir mig að hv. stjórnarliðar skuli ekki koma hér í salinn og hlýða á mál mitt því hér er ég að fara yfir afskaplega merkilegan fyrirlestur sem er skrifaður eftir mikla rannsóknarvinnu um reynslu af einkavæðingu vatns. En áfram segir, með leyfi forseta:

„Innan þessa heildarramma má síðan finna nokkurn mun á milli einstakra landa og sértæk kerfi sem hafa þróast. Sennilega er algengasta fyrirkomulagið stofnun fyrirtækja í eigu sveitarfélaga. Við sjáum þetta í löndum Mið- og Norður-Evrópu, t.d. í Þýskalandi, Hollandi og Belgíu. Þessa þróun er einnig að finna í dreifingu rafmagns, sorphirðu og almenningssamgöngum. Þessi fyrirtæki, sem eru alfarið í eigu sveitarfélaganna, eru rekin m.a. á þeim grundvelli að sveitarfélagið getur velt fjármunum á milli þeirra eftir því hvernig reksturinn gengur. Þessi fyrirtæki geta því stutt hvert við annað enda öll í eigu sama sveitarfélagsins. Til dæmis er hefð fyrir því að Þjóðverjar noti hagnaðinn af vatns- og rafmagnsfyrirtækjum til að niðurgreiða almenningssamgöngur sem ekki skiluðu hagnaði.“

Þetta er mjög athyglisverð uppgötvun, frú forseti. Ég endurtek hér, með leyfi forseta:

„Til dæmis er hefð fyrir því að Þjóðverjar noti hagnaðinn af vatns- og rafmagnsfyrirtækjum til að niðurgreiða almenningssamgöngur sem ekki skiluðu hagnaði.“

Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Þetta kerfi var því hugsað til að ná fram sem hagkvæmustum rekstri hjá sveitarfélaginu í heild. Þessi almenningsþjónustufyrirtæki eru sveigjanleg og opin fyrir nýjungum. Í Hollandi og Belgíu hefur þróunin orðið sú að samliggjandi sveitarfélög hafa tekið höndum saman og skapað sameiginlegt vatnsveitukerfi og síðan hafa fyrirtæki sveitarfélaganna gert samstarfssamninga um frekari uppbyggingu kerfisins þar sem það hefur þótt skila árangri. Svo þarna er komið sveigjanlegt og áhugavert kerfi innan almenningsþjónustunnar.“

Síðan segir um þróunina í Frakklandi og Bretlandi, með leyfi forseta:

„Í tveimur löndum hefur þróunin orðið á annan veg. Það er í Frakklandi og Bretlandi og það er einmitt í þessum löndum sem einkareksturinn í dreifingu vatns ræður ríkjum. Þau eru ekki dæmigerð, en með sitt hvorum hættinum. Í Frakklandi gerðist það að einkafyrirtækin, sem voru stofnuð í borgum, t.d. París og Lyon, á miðri 19. öld lifðu af. Í flestum borgum Evrópu liðu einkafyrirtækin undir lok en ekki í Frakklandi. Ein af ástæðunum fyrir því er að sveitarstjórnarvaldið hefur alltaf verið veikt í Frakklandi. Þannig að þegar komið var undir lok 20. aldar var Frakkland, nánast fyrir sögulega tilviljun, eina landið í heiminum með öflug einkafyrirtæki sem sáu um dreifingu vatns þangað til sú þjónusta var einkavædd í Bretlandi.

Hitt dæmið um sérstæða þróun kemur frá Bretlandi. Á 19. öldinni og stærstum hluta 20. aldar var Bretland á svipuðu róli og önnur lönd Evrópu. Vatnsveitukerfi í opinberri eigu þróaðist þar mjög snemma og var í eigu sveitarfélaga til ársins 1974 þegar það var þjóðnýtt. Það var þá í raun tekið úr höndum sveitarfélaganna og sett undir stjórn ríkisins og breytt í níu stór svæðisbundin vatnsveitufélög. Það voru þessi félög sem svo voru einkavædd 15 árum seinna. Aftur var hér um að ræða afleiðingar af sögulegri tilviljun. Ef vatnið hefði ekki verið þjóðnýtt í Bretlandi og stór svæðisbundin fyrirtæki stofnsett, hefði ríkisstjórnin ekki haft möguleika á að einkavæða þau eins og hún gerði, því annars hefðu verið til staðar hundruð minni fyrirtækja í eigu sveitarfélaganna eins og er annars staðar í Evrópu. Þannig eru það sögulegar tilviljanir sem skapa tveimur ríkjum í Evrópu þá sérstöðu að vera með einkavætt vatn og nokkur fyrirtæki sem hafa áhuga á að færa út kvíarnar um allan heim.“

Ég vek athygli á því, frú forseti, að það eru til vatnsfyrirtæki, eins og hér kemur skýrt fram, sem hafa áhuga á að færa út kvíarnar. Maður veltir því fyrir sér miðað við þær umræður sem hér hafa verið um frumvarp til vatnalaga hvort við séum næst. Hér muni koma einkafyrirtæki, kaupa upp vatnsréttindi eða landareignir og hvað gerist í framhaldi af því? Ekki mun fyrirtækið ætla að reka sig með halla.

En við höldum hér áfram með fyrirlestur Davids Halls. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„En það eru frávik á öðrum sviðum líka og mun ég nefna dæmi um það. Það er greiðslufyrirkomulag vatns hjá sveitarstjórnum. Upphaflega var það gert með skattlagningu þar sem miðað var við skattstofn til eignarskatts, en nú er að mestu leyti farið að mæla hversu mikið vatn fólk notar. Þó eru undantekningar á þessu, t.d. á Írlandi þar sem ekki er greitt fyrir vatn sérstaklega, heldur er það greitt með almennri skattlagningu. Undarlegt en satt þá er England einnig undantekning hvað þetta varðar því að á miklum meiri hluta enskra heimila eru engir mælar sem mæla vatnsnotkun og því er ekki vitað hversu mikið vatn heimilin nota. Á reikningunum sem heimilin fá kemur ekki fram hversu mikil vatnsnotkunin er. Hún er óþekkt vegna mælaskorts. Upphæðin fer eftir verðmæti íbúðarinnar. Með öðrum orðum, um skattlagningu er að ræða. Svo þrátt fyrir að breska kerfið sé einkavætt og rekið af einkafyrirtækjum í hagnaðarskyni þá er gjaldið sem þau innheimta í raun skattur en ekki söluþóknun. Ég nefni þetta til að sýna ykkur muninn á þróuninni í ýmsum löndum og þá sérstöðu sem getur skapast og því skulum við ekki draga neinar ályktanir um það hvað er eðlilegt eða stöðugt. Það eru þessi mjög skýru sögulegu sérkenni sem hafa áhrif á þróunina.“

Síðan segir hér áfram, með leyfi forseta, varðandi söguna í þróunarlöndunum:

„Þá eru það nokkur orð um sögu vatnsins í þróunarlöndunum. Þar er miklu einfaldara mynstur. Fram að því að nýlendur urðu sjálfstæðar var vatnsveitukerfið þróað til hagsbóta fyrir miðstéttirnar úr röðum nýlenduherranna en ekki fyrir alla íbúana. Þegar kom að sjálfstæði hinna ýmsu nýlendna um 1950–1960 var mikið lagt upp úr þróun almenningsþjónustu, þar með talið vatnsveitna. Sjálfstæðinu fylgdi breyting í efnahagsmálum og uppbygging opinberrar þjónustu. Aftur fáum við dæmin um að það er opinberi geirinn sem byggir upp almannaþjónustuna. Ég þekki engin dæmi þess að fyrirtæki á almennum markaði í þróunarlöndunum hafi byggt upp frá grunni vatnsveitukerfin eftir að löndin urðu sjálfstæð.

Ég vil bæta aðeins við um mynstrið í opinbera og einkageiranum í Evrópu. Það má skipta löndum Evrópusambandsins í fjóra hópa. Í fyrsta lagi Frakkland og Bretland sem leiða einkavæðinguna en hjá þeim eru um 83% einkavædd. Í öðru lagi hópur Miðjarðarhafslanda, Portúgal, Spánn, Grikkland og Ítalía, sem höfðu frekar bágborin vatnsveitukerfi og gæði vatnsins ekki mikil. Þar er þriðjungur af þjónustunni einkavæddur. Það eru mismunandi form á einkavæðingunni í þessum löndum og má segja að þau hafi þróast sem viðbrögð við ákveðnum brotalömum sem menn hafa talið vera á þjónustunni. Í þriðja lagi er hópur nýrra ríkja Evrópusambandsins en það eru fyrrum kommúnistaríkin Tékkland, Ungverjaland, Pólland, Slóvakía, Slóvenía o.s.frv. Um 17% vatnsveitna þar eru einkavæddar, þó í mjög mismiklum mæli eftir löndum. Í Tékklandi markaðssettu frönsk fyrirtæki í einkaeigu sig t.d. af miklum ákafa og með góðum árangri snemma á tíunda áratugnum skömmu eftir fall kommúnista. Í Tékklandi eru nú um 75% veitukerfisins einkavædd. Í Póllandi var vatnsveita Gdansk einkavædd snemma eða 1992. Engin önnur borg í Póllandi hefur einkavætt vatnsveitukerfið. Hinar borgirnar kynntu sér kerfið í Gdansk og tóku síðan þá ákvörðun að gera ekki eins. Svo staðan hvað varðar einkavæðingu í Póllandi er að 3–5% vatnsveitna eru einkavæddar og stendur Gdansk fyrir því.

Að lokum koma þau lönd sem hafa hefð fyrir miklum vatnsgæðum og góðu vatnsveitukerfi. Það eru í grófum dráttum lönd Mið-Evrópu og Norðurlöndin þar sem lítið er um einkavæðingu. Einkavæðing í þessum löndum er álitin vera um 8% og er mjög staðbundin, t.d. í Berlín þar sem mjög sérstakar ástæður ollu einkavæðingu á tíunda áratug tuttugustu aldar.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Undanfarin þrjú ár höfum við unnið skipulega að rannsóknarverkefni sem kallast Water Time Project og er nú komið að lokum þess. Einn þáttur verkefnisins var að rannsaka sögulega þróun vatnsveitukerfa í 29 borgum í 13 mismunandi ríkjum. Eins og sjá má hér til hliðar eru löndin sem við höfum rannsakað dreifð um alla Evrópu, að nýju aðildarlöndunum í Mið- og Austur-Evrópu meðtöldum. Ýmis mynstur eru greinileg en rannsóknin staðfesti á ýmsan hátt að vatnsveitur höfðu einkum þróast í þá átt að vera í eigu sveitarfélaga og á ábyrgð þeirra en uppbygging þeirra er mismunandi og sveigjanleg.“

Frú forseti. Hér bendir höfundur á nokkur lönd varðandi fyrirkomulag vatnsveitna. Hér er um að ræða 13 ríki. Þetta er mjög athyglisvert og mun ég hér renna yfir það, með leyfi forseta:

Í Svíþjóð og Finnlandi er vatnsveitan á vegum sveitarfélaga en aðföng og þjónusta frá einkaaðilum. Samstarf sveitarfélaga og sameiginlegt veitukerfi, þ.e. vatn og skolp. Norður-Írland og Skotland, svæðisbundið opinbert fyrirtæki. England, einkafyrirtæki, háð opinberum reglugerðum. Holland, sjálfstæð svæðisbundin opinber fyrirtæki, sameiginlegt veitukerfi, þ.e. vatn og skolp. Þýskaland, ríkisrekstur en í eigu sveitarfélaga, vatn og skolp aðskilið. Frakkland, einkaframkvæmd en í eigu sveitarfélaga. Spánn, í eigu sveitarfélaga en sameiginlegt veitukerfi, þ.e. vatn og skolp. Ítalía, vatnsveitan í eigu sveitarfélaga, nokkrir einkaaðilar líka, fer vaxandi. Í Rúmeníu fór vatnsveitan til sveitarfélaganna eftir lok kommúnismans en sérleyfi í Búkarest. Ungverjaland, til sveitarfélaganna eftir lok kommúnismans, sameiginlegt veitukerfi, þ.e. vatn og skolp. Pólland, fært aftur til sveitarfélaga en nokkrir einkaaðilar líka enn starfandi. Eistland og Litháen, vatnsveitan færð aftur til sveitarfélaga eftir að löndin öðluðust sjálfstæði en einkaaðili í Tallinn. Sameiginlegt veitukerfi, þ.e. vatn og skolp að mestu leyti.

Frú forseti. Hér segir síðan áfram í ræðu Davids Halls varðandi vatn í efnahagslegu ljósi, með leyfi forseta:

„Þetta er hin söguleg mynd af vatni í umsjá hins opinbera og einkageirans. Nú víkjum við að efnahagslegu hliðinni því það er þar sem umræðan er skörpust. Rök þeirra sem tala fyrir einkavæðingu vatnsveitukerfa eru iðulega að einkavæðing sé efnahagslega hagkvæmari.

Upphafspunktur minn varðandi fjárhagshliðina á vatni er nokkuð óvenjulegur en fjárhagslegi þátturinn er mun meira grundvallaratriði en áður hefur verið talið í þessu samhengi. Í fyrsta lagi er það spurningin um einokun. Það er staðreynd að vatnsveitukerfi í borgum, bæjum og í stærri þorpum falla undir það sem kallað er náttúruleg einokun. Með náttúrulegri einokun á ég ekki við að þar sem vatn sé ómissandi þáttur lífs sé eðlilegt að það sé í einokun, heldur að vatn sem er leitt í gegnum vatnsveitukerfi lýtur náttúrulegri einokun. Ástæðan fyrir þessu er augljós. Það er fjárhagslega óhagkvæmt og vitlaust að leggja tvær leiðslur hlið við hlið í samkeppni um að veita vatni í sama húsið. Enda eru slík tvöföld kerfi aldrei lögð. Þess vegna munum við alltaf hafa aðeins eitt vatnsveitukerfi í borgum og bæjum og þess vegna, þar sem um opinberan rekstur er að ræða, mun alltaf verða einokun á dreifingu vatns. Þessi einfalda staðreynd að vatnsveitukerfi eru alltaf í einokunarrekstri, vekur þá grundvallarspurningu hvað einkafyrirtæki gera þegar þau eru farin að stjórna einokuninni.“

Frú forseti. Þetta er einmitt eitt af þeim atriðum sem við í Samfylkingunni höfum miklar áhyggjur af þar sem svo virðist sem stjórnarmeirihlutinn sé óður og uppvægur í þeim áformum sínum að einkavæða vatnið. En síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Það er greinileg hætta á og augljósir möguleikar fyrir fyrirtækin að notfæra sér aðstöðu sína, ofrukka notendur um gjöld og draga að sér einokunargróða. Þannig að þegar kemur að hagfræðilegu umræðunni er þetta meginröksemdin fyrir því að starfsemi sem fellur undir náttúrulega einokun verður að vera á vegum hins opinbera, þar sem opinberir aðilar leitast ekki við, eða ættu ekki að reyna, að hámarka gróðann af sölunni.“

Frú forseti. Þetta eru afskaplega athygliverð atriði sem prófessor David Hall kemur hér inn á og að sjálfsögðu til þess fallin að maður hafi miklar áhyggjur af þeim tilburðum sem hér er haldið frammi um að einkavæða vatnið. En síðan segir um fjármagnskostnað hjá hinu opinbera, með leyfi forseta:

„Annað hagfræðilegt grundvallaratriði í sambandi við vatn, er að mínu mati, að vatn sem veitt er til borga er efnahagsleg framleiðsla og efnahagsleg starfsemi. Eins og með aðra framleiðslu má skipta henni upp í þrjá meginþætti, fjármagn, vinnu og náttúrulegar auðlindir. Allir þessir þættir eru mikilvægir varðandi vatnið hver á sinn hátt. Fjármagnið er mjög mikilvægt því vatnsnýting er mjög fjárfrek. Hlutfall kostnaðar við byggingu og viðhald á vatnsveitum er mjög hátt. Búast má við að um 70% af kostnaði við evrópskar vatnsvirkjanir sé fjármagnskostnaður. Þegar opinberir aðilar og einkaaðilar eru bornir saman er það grundvallarstaðreynd þegar kemur að fjármagni, að opinberir aðilar geta ávallt útvegað ódýrara fjármagn en einkaaðilar. Með öðrum orðum hið opinbera fær hagstæðari kjör og borgar alltaf hlutfallslega lægri vexti en einkafyrirtæki. Þetta er staðreynd um allan heim, jafnvel í þróunarlöndunum. Ríkisstjórnir í löndum eins og Filippseyjum, Brasilíu og Bólivíu borga hlutfallslega lægri vexti heldur en jafnvel dótturfyrirtæki alþjóðafyrirtækja. Ástæðan fyrir því er einföld og enn og aftur er hér um að ræða grundvallaratriði í hagfræði. Ríkisstjórnir ábyrgjast opinberar fjárfestingar, svo frá sjónarhóli bankamanna og fjárfesta er það öruggasta fjárfestingin fyrir þá og þeir eru því tilbúnir að bjóða lægstu vexti. Það að hið opinbera fær hagstæðari lán en einkageirinn, er eitt þeirra efnahagslegu lykilatriða varðandi það að hið opinbera hefur forskot á einkageirann þegar kemur að rekstri og uppbyggingu vatnsveitna.“

Þetta eru athygliverðar ábendingar, frú forseti, og til þess fallnar að auka enn á áhyggjur okkar í stjórnarandstöðunni, að hér skuli vera reynt með miklum látum að troða í gegn frumvarpi til vatnalaga þar sem menn deila um hvort breytingin sé efnisleg eða formbreyting. Margur trúir því að í þessu frumvarpi felist einfalt mál, þ.e. einkaeignarréttur á vatni. En þar sem landeigendur eru ekki bændur í öllum tilfellum í dag, margir auðmenn hafa nú þegar víða keypt upp jarðir, þá óttast menn að í framtíðinni sé hætta á að nýting á vatni gangi kaupum og sölum. Þá er spurning hversu mikinn aðgang almenningur hefur að vatni og hvaða verð hann þyrfti greiða fyrir þann aðgang.

En áfram heldur David Hall og talar um að gæði vinnu rýrni við einkavæðingu, með leyfi forseta:

„Við lítum á vinnuna sem einn þátt framleiðslunnar. Vinnuþátturinn er að sjálfsögðu mikilvægur en ég vil nefna sérstaklega eina hlið á hlutverki vinnuþáttarins í tengslum við vatnsveitur en það er spurningin um þjálfun og verkkunnáttu. Við höfum tekið eftir því að í einkavæddum stoðkerfum, kerfum sem hafa verið markaðsvædd, og það á ekki bara við vatnsveitur heldur einnig orku- og gasfyrirtæki, að þar er tilhneiging til að auka hlut undirverktaka í t.d. viðhaldi. Ástæðan fyrir fjölgun undirverktaka er að einkafyrirtækin sjá það sem leið til að draga úr kostnaði og auka hagnað fyrirtækisins með því að hvetja undirverktakann til að bjóða sem lægst í verkið.

Það sem gerist við þær aðstæður er að samningsaðili sem er að bjóða í viðhaldsvinnu á vatnsveitukerfi eða rafmagnskerfum reynir að halda kostnaði eins langt niðri og hægt er með því að útrýma öllum óþarfa útgjöldum, ef kostur er. Einn þeirra kosta sem undirverktakinn á völ á, er að draga úr kostnaði við þjálfun. Fyrir tveimur árum var gefin út skýrsla um stöðuna í þjálfun og sífræðslu hjá öllum vatns-, gas- og rafmagnsfyrirtækjunum sem höfðu verið einkavædd í Bretlandi. Þá kom í ljós að gæði og umfang þjálfunar höfðu rýrnað verulega í kjölfar fjölgunar undirverktaka.

Víða í Evrópu og í öllum löndum Evrópusambandsins þar sem umsýsla rafmagns hefur verið markaðsvædd og að hluta til einkavædd fyrir nokkrum árum, sjáum við það sama gerast. Það er því mikið áhyggjuefni um alla Evrópu að raforkuiðnaðurinn notar undirverktaka og þjálfar því mjög fáa rafiðnaðarmenn. Þetta er vegna þrýstings á að hagnaðurinn aukist.“

Frú forseti. Þetta er einmitt einn af þungu punktunum, þ.e. að ef vatnsveitur verða allar einkavæddar þá muni menn skera við nögl allt er varðar viðhald o.s.frv. Hér segir áfram, með leyfi forseta:

„Það er mikilvægt að hafa þetta í huga varðandi færni og þjálfun starfsfólks í vatnsgeiranum. Þar skiptir það miklu máli hvort vatnið er í höndum hins opinbera eða í höndum einkageirans.

Þriðji þáttur framleiðslu sem byggir á náttúruauðlind, er í þessu tilfelli auðvitað vatnið sjálft. Það er til margs að horfa þegar kemur að verndun vatnsauðlinda. Þegar einkavæðingin kemur að þessum þætti getur ýmislegt gerst, hún hefur áhrif á hvernig við stjórnum og verndum vatnsauðlindir. Ég ætla að nefna eitt dæmi um það: Bandaríska raforkufyrirtækið Enron varð frægt að endemum fyrir „skapandi“ bókhaldsaðferðir og síðar hrun fyrirtækisins. Fyrirtækið vildi á ákveðnum tímapunkti færa sig yfir í vatnsgeirann. Eitt af því sem stjórnendur fyrirtækisins gerðu var að kaupa stórt landsvæði í Kaliforníu með ríkulegum vatnsforða neðan jarðar. Enron útskýrði fyrir hluthöfum sínum að þetta væri góð fjárfesting vegna þess að það stæði til að selja 80% af vatninu með langtímasamningum til sveitarstjórna og sjá þeim þannig fyrir öruggum vatnsbirgðum. Þau 20% sem eftir stóðu var ætlunin að geyma til mögru áranna þegar þurrkar og vatnsskortur ríkti. Þá væri hægt að selja vatnið miklu dýrara og hagnast þeim mun meira. Það átti beinlínis að hertaka auðlindina til þess að geta grætt á henni seinna þegar þörf almennings væri mest. Þegar aðferðum einkaframtaksins er beitt á þennan hátt geta komið upp vandamál er varða auðlindirnar sjálfar.“

Frú forseti. Þetta rökstyður einmitt þann málflutning sem við í Samfylkingunni höfum verið með hér síðustu daga. Það er sú bölvun sem getur fylgt því að einkavæða vatnið. Síðan segir hér áfram í fyrirlestri Davids Halls, með leyfi forseta:

„Skilvirkni einkageirans ekki meiri. Nú langar mig að velta fyrir mér spurningunni um skilvirkni því það er útbreidd skoðun að einkavæddur rekstur sé skilvirkari eða afkastameiri en opinber rekstur. Sú skoðun er jafnvel útbreidd meðal þeirra sem eru á móti einkavæðingu af öðrum ástæðum. Það undarlega er að þegar byggt er á vísindalegum rannsóknum kemur í ljós að þessi skoðun stenst ekki. Í raun benda niðurstöður til að enginn markverður munur sé á afköstum hjá opinbera og almenna geiranum. Þetta er staðreynd sem gildir almennt, eins og kemur fram í skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en sú stofnun er yfirleitt mjög hlynnt einkavæðingu. Þar eru dregnar saman niðurstöður um samanburð á skilvirkni í almenna og einkarekna geiranum og komist að þeirri niðurstöðu að kenningin um yfirburði einkageirans sé vafasöm og hinar vísindalegu sannanir málum blandnar. Með öðrum orðum, þá kemst Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að því að það eru engir kerfisbundnir yfirburðir einkageirans til staðar þegar kemur að skilvirkni. Fyrir nokkrum árum var gerð nákvæm vísindarannsókn í Bretlandi á afleiðingum einkavæðingarinnar á öllum sviðum og niðurstöðurnar gefnar út. Þar kemur í ljós á grundvelli nákvæmra gagna að enginn merkjanlegur munur væri á framleiðniaukningu í Bretlandi vegna einkavæðingarinnar. Með öðrum orðum þá hefur iðnaðurinn ekki sýnt meiri afköst en við hefði mátt búast, hefði hann áfram verið í almannaeigu sem þjóðnýttur iðnaður.

Ef til vill er enn athyglisverðari sú niðurstaða sem birtist á síðasta ári frá framkvæmdanefnd Evrópusambandsins sem rannsakaði ýmsar atvinnugreinar innan ESB sem höfðu verið markaðsvæddar. Þar hefði mátt búast við samkeppni og þess vegna umtalsverðum árangri í aukinni skilvirkni af þeim sökum. Hér er á það að líta enn og aftur að samkeppni getur ekki orðið í vatnsveitum. Í öðrum geirum má a.m.k. reyna það. Það kom í ljós að það virtist ekki vera um að ræða neina viðvarandi framleiðniaukningu eftir að þessar greinar höfðu verið markaðsvæddar.

Ef við skoðum vatnsgeirann sérstaklega eru vísbendingarnar enn athyglisverðari, meira afgerandi og sértækari. Í skýrslu sem Alþjóðabankinn gaf út fyrr á þessu ári (2005) eru rannsóknir teknar saman og réttilega dregnar þær ályktanir að rannsóknarniðurstöðum beri saman um að það er enginn verulegur munur á skilvirkni. Þetta var ekki álit Alþjóðabankans fyrir fimm árum, en hann heldur þessu fram núna. Við höfum allnákvæmar rannsóknir frá rómönsku Ameríku, jafnvel frá Afríku og Asíu og Bandaríkjunum sem sýna að hvað varðar fjölbreyttar lykilbreytur þá er enginn markverður frammistöðumunur á vatnsveitum í opinberum höndum og einkageiranum. Svo hvað sem aðrar röksemdir segja um opinbera geirann og almannageirann, þá er rangt að gefa sér þær forsendur að einkageirinn hafi forskot hvað varðar skilvirkni og afköst.

Ef litið er á verð, þá eru tvenns konar væntingar um verð í einkageiranum. Annars vegar er það afstaða fólks sem styður einkavæðingu, að einkaaðilarnir, jafnvel þótt þeir séu ekki afkastameiri, sýni viðskiptavinum meiri áhuga eða umhyggju en hið opinbera gerir og þess vegna ætti viðskiptavinurinn að fá betri kjör frá þeim. Hins vegar eru hinar hefðbundnu væntingar sem eru byggðar á þeirri staðreynd að um sé að ræða náttúrulega einokun og að einkageirinn krefjist hærra verðs til að geta grætt á einokuninni.

Samanburður í Frakklandi. Í einu landi Evrópu er hægt að bera saman einkavædda þjónustu og opinbera þjónustu í framkvæmd, en það er í Frakklandi. Þar eru nægilega margar vatnsveitur í eigu sveitarfélaga til að bera saman við þær einkareknu. Þetta línurit sýnir hlutfallslegan samanburð á verði í borgum þar sem vatn er einkarekið og þar sem það er á vegum hins opinbera. Eins og sjá má nær samanburðurinn yfir allmörg ár og alltaf er verðið um 15% hærra þar sem vatnsveiturnar eru í einkaeigu. Þetta er í samræmi við það sem mátti búast við miðað við þá staðreynd að þetta er náttúruleg einokun og að gróðasækinn einkarekstur reynir að hagnast á einokuninni. Það er líka önnur leið til að skoða þessi gögn frá Frakklandi og það er að skoða einstaka borgir og raða þeim eftir verði hvers rúmmetra af vatni. Það er eins með þessi gögn og þau hér á undan að það eru margir mismunandi þættir sem hafa áhrif á verð á vatni. Náttúrulegar aðstæður skipta augljóslega máli og hve auðvelt er að gera vatnið drykkjarhæft með eða án meðferðar á því, en spurningin stendur eftir: Hefur eignarhaldið, þ.e. hvort vatnsveitan er í eigu einkaaðila eða hins opinbera, merkjanleg áhrif á verðið til hækkunar eða lækkunar?

Þessar staðreyndir frá Frakklandi benda til þess að einkarekið vatn sé kerfisbundið dýrara fyrir notendur en það sem opinberir aðilar sjá um.“

David Hall heldur áfram og ræðir um Bretland og Argentínu eftir einkavæðingu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ef við horfum til Bretlands getum við ekki borið saman einkarekstur og opinberan rekstur á sama hátt og í Frakklandi, en við getum skoðað hvað gerðist eftir að vatnið var einkavætt í Bretlandi. Þá sjáum við að á fyrstu níu árunum eftir einkavæðingu hækkaði vatnsreikningurinn að meðaltali um 102% …“

Frú forseti. Ég sé ástæðu til að bakka hér og lesa þetta aftur.

„Ef við horfum til Bretlands getum við ekki borið saman einkarekstur og opinberan rekstur á sama hátt og í Frakklandi, en við getum skoðað hvað gerðist eftir að vatnið var einkavætt í Bretlandi. Þá sjáum við að á fyrstu níu árunum eftir einkavæðingu hækkaði vatnsreikningurinn að meðaltali um 102%, þ.e. verð á vatni tvöfaldaðist í Englandi og á Wales á níu árum. Gróði fyrirtækja fyrir skatta hækkaði jafnvel enn meira eða um 150%. Kaup forstjóranna hækkaði um 136% á tíma þar sem smásöluverð í Bretlandi hækkaði um 38% að meðaltali.“ — Þetta eru athyglisverðar tölur, frú forseti, sem nauðsynlegt er að taka með í umræðunni um frumvarp til vatnalaga. Áfram heldur David Hall: — „Það voru ýmsar ástæður fyrir því að verð á vatni hefði hækkað hvort sem var á tíunda áratug tuttugustu aldar. Eins og annars staðar í Evrópu hækkuðu gæðakröfurnar á vatni í Bretlandi í takt við auknar gæðakröfur frá ESB og má rekja hluta af verðhækkununum til þess. Þrátt fyrir það eru það tölurnar sem varða gróða og laun forstjóranna sem skipta mestu máli og þær benda ákveðið til þess að stór hluti hækkananna, um 100%, sé til kominn vegna þess að einkareknu fyrirtækin voru að hámarka gróða sinn.

Svo þegar við tölum um verð almennt, þá sjáum við að einkareknu fyrirtækin gera nákvæmlega það sem við mátti búast af þeim í einokunaraðstöðu.“

Frú forseti. Hér fylgir fyrirlestrinum skýringamynd um þróun vatnsreikninga frá einkavæddum vatnsveitum í Argentínu 1993–2002. Þessi skýringamynd segir okkur að við fáum svipaða niðurstöðu í Bretlandi.

„Verðið rauk upp og ágóðinn sömuleiðis. Á þessu tímabili“ — þ.e. 1993–2002 — „keypti Aguas Argentinas í Buenos Aires vatnsfyrirtæki og náði út úr þeirri fjárfestingu tvöföldum arði á við arðsemi annarra fyrirtækja í Argentínu að meðaltali.“

Frú forseti. Einkavæðing á vatni, á vatnsveitum o.s.frv. snýst öll um gróðafíkn. (Gripið fram í: … vatnið í krönum?) Ja, það er spurning.

Áfram segir í þessum mjög svo merkilega fyrirlestri Davids Halls, þar sem hann lýsir áhyggjum af einkavæðingu vatns og hér fer hann að tala um leka og eykst nú spennan, með leyfi forseta:

„Þegar við nú höfum skoðað almenna skilvirkni og litið á verðið, skulum við skoða aðra hlið í frammistöðu vatnsfyrirtækja. Vatnsleki, eða hversu mikið vatn glatast eftir að það er komið inn í kerfið, skiptir rekstur vatnsveitna miklu máli. Hann skiptir einnig miklu máli þegar litið er til verndunar þeirrar takmörkuðu náttúruauðlindar sem vatn er. Leki er flókið fyrirbæri og haldbær tölfræði liggur ekki alltaf á lausu, en ef við skoðum tölur og gögn fyrir stærri löndin í Evrópu, sjáum við að það er frekar hátt lekastig í Frakklandi og Bretlandi, en að leki er mun minni í Þýskalandi, Hollandi og Belgíu sem eru með vatnsveitur í opinberum rekstri. Lekastigið er svo lágt í Þýskalandi að Alþjóðabankinn, eftir að hafa skoðað ástandið þar, brást við og skrifaði skýrslu um að leki væri of lítill og þar með fjárhagslega óhagkvæmur og var svo að skilja að mælst væri til að Þýskaland hækkaði lekastigið í vatnskerfum sínum! Þessi skýrsla var um margt mjög athyglisverð því Alþjóðabankinn sagði einnig að margt benti til að fyrirkomulagið í gömlu austantjaldslöndunum, með héraðsvatnsveitum í eigu ríkisins, væri skilvirkara en kerfi sveitarstjórnavatnsveitnanna í Vestur-Þýskalandi.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Hvað leka varðar, þá höfum við hér að minnsta kosti vísbendingu um að einkageirinn sé ekki líklegri til að leysa þau vandamál og aftur má segja að það sé önnur niðurstaða en mörgum er tamt að gefa sér. Fyrir tveimur árum“ — þ.e. 2003 — „var mikil vatnsráðstefna í Kyoto, World Water Forum. Ég var á fundi með Jamal Saghir framkvæmdastjóra þeirrar deildar Alþjóðabankans sem sinnir stoðkerfum (infrastructure). Hann sagði að nokkrar borgir í þróunarlöndunum töpuðu 40% eða meira af vatni út úr kerfum sínum. Hann taldi það óþolandi ástand og að alvarlega þyrfti að íhuga að fá fjölþjóða vatnsfyrirtæki til að glíma við lekavandamálið.“

Frú forseti. Eitt af því sem menn hafa áhyggjur af er einmitt umgengni um þessa miklu auðlind, vatnið. Hér kemur skýrt fram í rannsóknum prófessors Davids Halls að einkafyrirtæki hugsa ekki mikið um að vanda umgengnina við vatnið heldur fyrst og fremst hvernig hægt er að græða sem mest á hinu einkavædda vatni.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Það kaldhæðnislega við þetta er að ég kem frá London, sem er ekki borg í þróunarlandi, en þar er lekastigið 40%. Vatnsfyrirtækið sem ber ábyrgð á því er Thames Water og það fjölþjóðlega fyrirtæki býður fram þjónustu sína í indverskum borgum eins og Bangalore sem er með 35% lekastig, eða betra en í London. Þrátt fyrir það þykist félagið Thames Water geta leyst úr lekavandamálum annarra þjóða! Í þessu felst mikil mótsögn og aftur, þvert á allar væntingar, benda tölurnar ekki til þess að einkageirinn eigi eitthvað auðveldara með að leysa vandamálið.“

Frú forseti. Þetta eru hryggilegar staðreyndir úr rannsóknarvinnu hvernig vatn fer hressilega til spillis þegar það hefur verið einkavætt, þar sem þeir sem eiga vatnið hugsa fyrst og fremst um hvernig hægt sé að græða á því. Við erum að tala um vatnsleka, 30%, 35%, 40%. Þvílík sóun.

En áfram segir David Hall í fyrirlestri sínum, með leyfi forseta:

„Mig langar að gera nokkrar almennar athugasemdir um framferði fyrirtækja. Sumt af því sem ég hef þegar sagt, á við um hegðun einkarekinna vatnsfyrirtækja sem eru í einokunaraðstöðu og hvernig hún hefur áhrif á hlutina. Ástæðan fyrir því að við einbeitum okkur að þeim, er að lítið er um þetta talað af talsmönnum einkavæðingar og þar af leiðir að þegar fólk frá þróunarlöndum og löndum í Evrópu talar um væntanlega kosti einkavæðingar, virðist umræðan fara fram á þeim ætluðu forsendum að við séum öll sammála um markmiðin með rekstri almannaþjónustu. Sumu fólki finnst, einhverra hluta vegna, að einkageirinn geti betur náð þessum markmiðum og því ætti hann að sjá um málið. En það sem skiptir meginmáli hér er að einkageirinn hefur önnur markmið en opinber almannaþjónusta. Einkageirinn getur aðeins haft það markmið að auka sinn eigin gróða. Í raun og veru er það eina markmið einkafyrirtækis. Þegar einkarekstur er innleiddur leysast öfl úr læðingi, átök á milli þess tilgangs og hagsmuna einkarekstursins að hámarka gróða og þess að hafa hagsmuni almennings í fyrirrúmi. Þessir hagsmunir geta rekist á eða farið saman, en það er augljóst að þetta tvennt mun takast á.“

Í þessu sambandi, frú forseti, er kannski engin furða þó að hér í dag og síðustu daga hafi menn tekist allharkalega á um frumvarp til væntanlegra breytinga á vatnalögum. Almenningur hræðist einkavæðingu á vatni þar sem markmið einkafyrirtækja snúast, eins og allir vita og geta viðurkennt, nánast undantekningarlaust um að hámarka hagnað sinn. Einkavæðing á vatni snýst ekki um að þjónusta almenning sem best. Þess vegna hlýtur það að valda okkur öllum miklum áhyggjum að sá möguleiki sé að opnast hér á hinu háa Alþingi að sett verði í lög einkaeign fárra manna á vatni sem — miðað við orð Ingibjargar Elsu Björnsdóttur umhverfisfræðings er ég vitnaði í áðan — getur jafnvel þýtt að sá sem fengi úthlutað þessu einkaleyfi hefði jafnframt framsalsrétt, þ.e. menn gætu farið að braska með vatnið líkt og menn hafa síðan 1990 braskað með fiskikvótann.

En það er langt komið í þessum mjög svo merkilega fyrirlestri, frú forseti. Það er nú svo með þann er hér stendur að honum finnst hver blaðsíða jafnathyglisverð og því meira sem maður fer yfir og rýnir í fyrirlestur Davids Halls, því meiri áhyggjur hefur maður af því að vatnið í framtíðinni sé ekki vatn fyrir alla.

En David Hall segir áfram, með leyfi forseta:

„Nú langar mig að vekja athygli á nokkrum þeim einkennum sem hægt er að merkja um þessa hegðun einkageirans. Fyrst sjáum við að í vatnsgeiranum ríkir mjög lítil skilvirk samkeppni. Þar ríkir náttúruleg einokun en einnig vegna þeirra sögulegu staðreynda sem ég útskýrði hér á undan, þá ráða örfá stórfyrirtæki heimsmarkaðinum. Þessi geiri er mjög sérstakur, því um 75% af öllum einkareknum vatnsveitum í heiminum eru reknar af tveimur frönskum fyrirtækjum, Suez og Veolia. Það fyrirfinnst enginn annar framleiðslumarkaður í heiminum sem líkist vatnsmarkaðinum. Olíufélögin eru t.d. mun fleiri og þar ríkir miklu meiri samkeppni en á vatnsmarkaðinum.“

Frú forseti. Það fer hreinlega hrollur um mann. En áfram segir, með leyfi forseta.

„Það eru því fá fyrirtæki á vatnsmarkaðinum, en dæmigerð hegðun fyrir þau er að mynda sameiginleg dótturfélög eða komast að einhvers konar samkomulagi sem minnkar samkeppni þeirra í milli. Þetta er m.a. gert með því að skipta upp borgum á milli fyrirtækjanna og hef ég kosið að kalla slíkt fyrirkomulag samráðsborgir. Í staðinn fyrir að keppa hvort við annað um yfirráð yfir borginni er höfð samvinna og borginni skipt milli fyrirtækjanna.“

Þetta þekkjum við, frú forseti, frá olíufélögunum hér á Íslandi þar sem nú er í gangi dómsmál varðandi meint samráð olíufyrirtækjanna þar sem því er haldið fram að fyrirtækin hafi hreinlega skipt markaðnum á milli sín. Hér hef ég verið að nefna dæmi þar sem sama hefur gerst varðandi sölu á vatni þar sem tvö fyrirtæki skipta á milli sín markaðnum. Skipta hreinlega á milli sín borgunum. Þetta er ekki samkeppni. Er það þetta sem við viljum innleiða á Íslandi ef allt fer á versta veg? Menn hafa spáð að í kjölfar þessara vatnalaga, þ.e. ef nýja frumvarpið til vatnalaga verður að veruleika, skapist þeir möguleikar, eins og ég hef áður komið hér inn á, að vatnsréttindin safnist á fárra manna hendur, að ákveðnir aðilar, innlendir eða erlendir, kaupi sér vatnsréttindi og selji síðan almenningi til neyslu og fiskeldisfyrirtækjum til að geta starfað, fyrir offjár. Og haldið þá mögulega uppi verðinu með samráði.

Þessi möguleiki er fyrir hendi, frú forseti, og áhyggjur okkar í Samfylkingunni eru þær að þetta gæti gerst á Íslandi og sjáum í raun engan tilgang í að gera þessa breytingu á vatnalögum sem deilt er um hvort sé formbreyting eða efnisbreyting. En áhyggjur okkar snúast að því að með því að gera þessa breytingu varðandi rétt til nýtingar á vatninu, færa hann yfir í einkaeign, þá gæti það því miður, frú forseti, orðið þróunin að vatnið safnist á hendur fárra aðila sem síðan seldu almenningi það dýrum dómum.

Það er ekkert grín þegar um að ræða eins og í þessu tilfelli, lífsnauðsyn. Við lifum ekki af án vatns og það er svolítið sérstakt fyrir þann er hér stendur, og hefur verið meinað að kallast nýliði öllu lengur, að upplifa þau gífurlegu átök sem fara fram hér í þingsal um hvort eigi að heimila einkaeignarrétt á vatni.

Það hefur margoft verið spurt að því hvað liggi svona mikið á, hvers vegna menn taki sér ekki tíma og jafnvel nokkur ár í að fara yfir frumvarpið og koma með skynsamlega og ásættanlega lausn sem allir flokkar gætu sætt sig við.

Á sínum tíma, eins og hér hefur margoft komið fram, m.a. í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, tók lagasetningin á sínum tíma sex ár. Það var árið 1923 sem henni lauk, mjög svo giftusamlega. Vatnalögin hafa staðist tímans tönn og eru þeim sem sömdu frumvarp til vatnalaga fyrir rúmum 80 árum til mikils sóma. Þess vegna veltir maður fyrir sér hvers vegna í ósköpunum liggur svona mikið á að afgreiða lög sem hafa staðist svona lengi. Þrátt fyrir hávær mótmæli og ýmsar athugasemdir vilja menn, þ.e. stjórnarmeirihlutinn halda áfram, og eins og haft hefur verið á orði, nánast keyra málið í gegn.

Það klingja bjöllur, frú forseti, bæði utan dyra og í höfði mínu um að eitthvað slæmt gæti verið hér á ferðinni og þess vegna er ég að fara yfir mjög svo merkilegan fyrirlestur Davids Halls sem hefur rannsakað einkavæðingu á vatni.

Ég sé enga ástæðu til að flytja bara útdrátt úr fyrirlestri Davids Halls því að hver blaðsíða er þar annarri merkilegri og þessi fyrirlestur verður gefinn út af samtökunum sem stóðu að ráðstefnunni „Vatn fyrir alla“. Nú þori ég ekki að fullyrða hvort öll samtökin standi á bak við þetta, miðað við þau orðaskipti sem áttu sér stað hér fyrr í dag. Ég vil engan særa í því sambandi en ég veit a.m.k. að BSRB mun í næstu viku, ásamt fleirum, gefa út fyrirlesturinn sem ég hef lesið úr.

Frú forseti. Ég held að sú mikla vitneskja, þær staðreyndir og niðurstöður sem koma fram í þessum fyrirlestri, væru öllum þingmönnum holl lesning. Í sjálfu sér væri ekkert að því að fresta hreinlega umræðunni um frumvarp til vatnalaga og þannig að menn geti næstu helgi lesið í rólegheitum yfir þennan mjög svo merka fyrirlestur, þ.e. þeir sem ekki hafa gefið sér tíma til að hlusta á yfirferð mína hér. Þessi fyrirlestur er afskaplega merkilegur og dregur fram margar grjótharðar ábendingar um hvað gæti gerst ef menn einkavæddu vatnið.

Ég held því áfram lestrinum þaðan sem frá var horfið, í fyrirlestri Davids Halls, með leyfi forseta, um vatnsfyrirtækjageirann:

„Þessi geiri er mjög sérstakur, því um 75% af öllum einkareknum vatnsveitum í heiminum eru reknar af tveimur frönskum fyrirtækjum, Suez og Veolia. Það fyrirfinnst enginn annar framleiðslumarkaður í heiminum sem líkist vatnsmarkaðnum. Olíufélögin eru t.d. mun fleiri og þar ríkir miklu meiri samkeppni en á vatns markaðnum. Það eru því fá fyrirtæki á vatnsmarkaðnum, en dæmigerð hegðun fyrir þau er að mynda sameiginleg dótturfélög eða komast að einhvers konar samkomulagi sem minnkar samkeppni þeirra í milli. Þetta er m.a. gert með því að skipta upp borgum á milli fyrirtækjanna og hef ég kosið að kalla slíkt fyrirkomulag samráðsborgir. Í staðinn fyrir að keppa hvort við annað um yfirráð yfir borginni er höfð samvinna og borginni skipt milli fyrirtækjanna. Þannig ræður Veolia París á norðurbakka Signu, en Suez suðurbakkanum. Í Marseilles, sem er önnur stærsta borg Frakklands, stjórnar eitt fyrirtæki allri vatnsveitu borgarinnar en það einkarekna fyrirtæki er í sameiginlegri eigu Suez og Veolia. Í staðinn fyrir að keppa hvort við annað hafa þessi fyrirtæki stofnað dótturfyrirtæki til að gæta hagsmuna sinna og til að komast hjá samkeppni.“

Frú forseti. Enn er ástæða til að staldra við. Þetta eru grjótharðar staðreyndir um einkarekið vatn, hvernig vatnsfyrirtækin safna vatnsréttindum og fara síðan í samráð sín á milli til að geta hagnast sem mest á almenningi. Í þessu dæmi, varðandi vatnsveitufyrirtækin, ganga menn meira að segja það langt að í stað þess að keppa hvort við annað þá stofna þau sameiginlegt dótturfyrirtæki. Þannig kemur hvort fyrirtækið um sig í veg fyrir að tapa á samkeppni. Ég er ekki að segja að þetta þurfi alls staðar að vera eins en þetta er staðreynd. Þannig er það í dag á vatnsmarkaðnum. Önnur dæmi höfum við ekki. Þess vegna er ástæða til að staldra við þær staðreyndir sem fram koma í rannsókn Davids Halls. Í fyrirlestri hans segir, með leyfi forseta:

„Þannig er þetta einnig í Berlín. Þar reka sameiginlegt dótturfélag fyrirtækin Veolia og RWE-Thames, sem er þriðja stærsta vatnsfyrirtæki í heimi. Í Búdapest er öðruvísi skipting. Þar er einn samningur fyrir vatn og annar fyrir frárennsli og sér annað frönsku fyrirtækjanna um vatnið og hitt um skolpið. Hvort fyrirtæki er svo í sameignarfélagi með RWE-Thames. Þetta sama fyrirkomulag sjáum við svo endurtekið um allan heim, í mismunandi útfærslum eftir löndum. Í Buenos Aires var vatnið t.d. einkavætt til fyrirtækjasamsteypu í eigu Suez, Veolia, Anglian Water og Agua de Barcelona.“

Hér setur David síðan fram töflu yfir þau vatnsfyrirtæki sem stærstu fjölþjóðafyrirtækin eru í samkrulli með. Frú forseti, ég get því miður ekki sýnt öllum í þingsal þessa töflu en þar er hægt að sjá hvernig fyrirtækin starfa saman í stað þess að keppa hvert við annað. Þetta eru dæmi um hvernig farið er með einkavætt vatn í dag. Þetta er mjög átakanlegur lestur, frú forseti, og sýnir skýrt að fyrirtækin hafa ekki einu sinni fyrir því að skipta með sér borgunum heldur búa til dótturfyrirtæki og reka þannig saman einokun í sölu vatns til almennings.

Síðan kemur að merkilegum kafla í fyrirlestrinum, með leyfi forseta, um mútur og spillingu. Í fyrirlestrinum segir, með leyfi forseta:

„Samkeppnin er því tiltölulega lítil. Við verðum einnig vör við spillingu en það er viðbúið því venjulegur samningur um vatnsréttindi er langtímasamningur …“

Hér komum við, frú forseti, að enn einu stóratriðinu varðandi einkavæðingu á vatni. Hversu lengi munu þeir sem eignast vatnið eiga það? Væntanlega mundi sá landeigandi sem eignast vatnið, ef nýja vatnalagafrumvarpið yrði að lögum, eiga vatnið til eilífðar nema hann kæmi því í verð. Hvernig í ósköpunum ættu menn að láta slíka hluti ganga til baka ef svo illa skyldi fara sem fram kemur í þessum fyrirlestri?

„Samkeppnin er því tiltölulega lítil. Við verðum einnig vör við spillingu en það er viðbúið því venjulegur samningur um vatnsréttindi er langtímasamningur til 20–30 ára sem byggir á sérleyfisveitingu, sem þýðir að fyrirtækið getur búist við gróða frá langtímasamningi. Þetta þýðir að miklar fjárfúlgur eru í húfi fyrir viðkomandi fyrirtæki þegar gengið er frá slíkum samningum. Fyrirtækið reynir því með öllum ráðum að ná samningnum því næstu 30 árin verður engin samkeppni í gangi.“

Frú forseti. Hér er mikið talað um mútur og spillingu. Ekki ætla ég okkur Íslendingum að fara að taka þátt í slíku. Ég ætla því einfaldlega að sleppa þessum kafla í fyrirlestrinum. Ég get ekki hugsað til þess að mútur og spilling fari að blandast í átökin um vatnið á Íslandi. Ég stekk því yfir þennan kafla, frú forseti, þótt ekki sé nema fyrir sjálfan mig.

Síðar segir, í fyrirlestri Davids Halls, með leyfi forseta:

„Það er athyglisvert að sjá hvað gerðist í Bretlandi þar sem er til staðar einn opinber eftirlitsaðili, regulator, sem er tiltölulega öflugur miðað við eftirlitsstofnanir í öðrum löndum. Þessi eftirlitsaðili ákvarðar hámarksverð vatnsfyrirtækjanna fjögur til fimm ár fram í tímann og er það hámarksverð fundið út frá uppgefnum áætlunum um fjárfestingar fyrirtækjanna næstu fjögur til fimm árin. Svo þýðingarmesti þátturinn þegar verðið er ákvarðað er framtíðarspá fyrirtækjanna varðandi fjárfestingar.“

Höfundur birtir síðan línurit þar sem hann útskýrir það hvernig vatnsfyrirtæki í Bretlandi gera fyrst áætlanir um fjárfestingar í framtíðinni og ákveða síðan verðið eftir því. En þegar er litið á þetta eins og David Hall gerði þá kemur í ljós að verðið á vatni í Bretlandi var í raun mun hærra en fjárfestingaráætlanir gáfu til kynna. Þar af leiðandi gátu fyrirtækin, eins og hér segir, með leyfi forseta:

„… lagt til hliðar mun meiri gróða en eftirlitsstofnunin hafði gert ráð fyrir. Þetta gerðu fyrirtækin um leið og eftirlitsstofnunin hafði ákvarðað þeim hámarksgjaldtökurétt. Áætlað verð til næstu fjögurra til fimm ára var gefið út af eftirlitsstofnuninni í byrjun árs 1995 og í apríl sama ár, þegar félögin gáfu út ársfjórðungsuppgjör, upplýstu þau að þau hefðu uppgötvað það sem þau kölluðu „skilvirka nýtingu fjármagns“ og greiddu þess vegna út tugi milljóna punda í aukinn arð til hluthafa. Þetta gerðist aftur árið 1999 þegar fyrirtækin ýktu aftur áætlaða fjárfestingarþörf. Þarna hófst því leikur sem fólst í að fyrirtækin gáfu vísvitandi eftirlitsstofnuninni rangar upplýsingar til að blekkja. Þessi leikur skilaði fyrirtækjunum gríðarlegum aukahagnaði á kostnað almennings.“

Frú forseti. Ef stjórnarmeirihlutinn ætlar að einkavæða vatnið, eins og lesa má úr frumvarpi til vatnalaga, munu næstu kynslóðir glíma við þá hræðilegu staðreynd að aðgangur að vatni takmarkast. Ég hef líka minnst á hið mikla lekavandamál hjá vatnsfyrirtækjum úti í heimi sem segir okkur hversu lítið einkaeigendum vatnsins í Bretlandi og öðrum erlendum löndum er umhugað um að ganga vel um þá gífurlega merkilegu auðlind sem vatnið er. Það þarf í sjálfu sér ekkert að ítreka það að vatnið er okkur öllum lífsnauðsynlegt. Þegar menn láta sér til hugar koma að einkavæða hið rennandi vatn er eðlilegt að átök hefjist. Menn velta ýmsu fyrir sér varðandi framtíðina. Ég hef farið hér yfir mjög svo merkilegan fyrirlestur sem David Hall hélt á fundi í haust í upphafi formannafundar BSRB. Þessi fyrirlestur var tengdur ráðstefnunni Vatn fyrir alla.

Ég rakti síðast, frú forseti, þær staðreyndir sem blöstu við David Hall varðandi gróðafíkn þeirra fyrirtækja sem eiga vatnið, eiga vatnsréttindin, ekki einungis nýtingarrétt heldur hreinlega eiga vatnsréttindin í áratugi. Mér þykir ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því ef þetta stjórnarfrumvarp nær fram að ganga. Ekki er hægt að skilja það á annan hátt en svo að menn ætli sér að einkavæða vatnið og hefta þannig aðgang almennings að því í framtíðinni nema fyrir háar fjárhæðir. Það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af því, eins og hefur komið fram hér í máli mínu, að umgengni um vatnið hjá vatnsfyrirtækjum í heiminum er mjög slök. Lekinn er 30, 35 og jafnvel 40% og það segir okkur að þetta er ekki góð stefna, frú forseti.

Ég ætla að grípa aftur niður í fyrirlestur Davids Halls þar sem hann segir varðandi uppgjör vatnsfyrirtækja og verðmyndun á vatni:

„Þessi leikur skilaði fyrirtækjunum gríðarlegum aukahagnaði á kostnað almennings. Upplýsingar láku í fyrra“ — þ.e. árið 2004 — „frá fyrrum starfsmanni eins þessara vatnsfyrirtækja í Bretlandi, Seven Trent. Hann sagðist hafa verið ábyrgur fyrir fimm manna deild sem hafði þann starfa einan að koma á framfæri upplýsingum um ýmsar ýktar fjárhagslegar forsendur til eftirlitsstofnunarinnar.“

Frú forseti. Ég ætla að lesa þetta aftur, þetta er alveg svakalega slæmur og neikvæður punktur og neikvætt fyrir ímynd vatnsfyrirtækja eins og staðan er í dag. Hér segir um starfsmann fyrirtækis í Bretlandi sem heitir Seven Trent, með leyfi forseta:

„Hann sagðist hafa verið ábyrgur fyrir fimm manna deild sem hafði þann starfa einan að koma á framfæri upplýsingum um ýmsar ýktar fjárhagslegar forsendur til eftirlitsstofnunarinnar. Eitt af því var t.d. að ýkja verulega þann fjölda fólks sem ekki borgaði vatnsreikningana sína, því þá hækkuðu gjaldtökuheimildir fyrirtækjanna. Svo að þetta eru engin tæknileg mistök sem má leiðrétta sem slík. Þetta leiðir af þeirri stöðu sem einkafyrirtækin og eftirlitsstofnunin eru í gagnvart hvert öðru og því samspili sem þar skapast í millum.“

Áfram segir í fyrirlestrinum, með leyfi forseta:

„Sterk samningsstaða einkageirans. Annað sem einkennir framferði einkaaðila í vatnsgeiranum helgast af því að einkageirinn er í sterkri stöðu til að ákveða hvenær hann riftir samningum og hvenær ekki. Fyrirtæki geta auðveldlega horfið frá samningum ef þeir eru ekki arðvænlegir. Það er engin leið að knýja einkafyrirtæki til að standa við gerðan samning ef það sér sér ekki hag í því. Eitt áhrifamesta dæmið um þetta var hjá franska fyrirtækinu SAUR í Mósambík. Vatnið hafði verið einkavætt til fyrirtækis sem var rekið af SAUR, þegar flóð eyðilögðu lagnakerfið sem kallaði að sjálfsögðu á miklar viðgerðir. Þetta er einmitt atburðarás þar sem maður getur ímyndað sér að það kæmi fátæku landi eins og Mósambík vel að vera í samstarfi við fjölþjóðafyrirtæki. SAUR endurskoðaði útreikninga sína og komst að því að reksturinn skilaði ekki hagnaði lengur og lét Mósambík um að lagfæra skemmdirnar og bera þann kostnað. Síðan snýst staðan við þegar kemur að því að vernda gróða: Einkafyrirtæki nota alls konar kænskubrögð til að verja fjárfestingar sínar þegar þær eru arðsamar. Í Bretlandi hafa þau gert þetta með mjög einföldum en sérstökum hætti. Þar tókst vatnsfyrirtækjum að sannfæra eftirlitsstofnunina um að það væri nauðsynlegt að vernda sérleyfin sem fyrirtækin höfðu með 25 ára uppsagnarfyrirvara. Það þýðir með öðrum orðum að ef t.d. ríkisstjórn er kosin til valda sem vill færa vatnsveiturnar aftur undir stjórn hins opinbera þá verða þeir að koma að máli við fyrirtækin og segja: „Við erum að hugsa um að segja samningnum upp eftir 25 ár.““

Ég er ekki að segja, frú forseti, að samningar varðandi vatnið hér yrðu nákvæmlega eins og hér um ræðir. Ég rek hér einfaldlega staðreyndir sem liggja fyrir eftir nokkurra ára rannsóknarvinnu sem David Hall prófessor vann að í stofnuninni Public Service International Research Unit. Hann rannsakaði vatnið og rafmagnið og ýmislegt er lýtur að heilbrigðiskerfinu og öðrum grunnþáttum almannaþjónustunnar. Hann er fræðimaður sem hefur yfir 25 ár að baki sem rannsakandi og er virtur á sínu sviði. Ég verð að segja það, frú forseti, að sú mynd sem hann dregur upp af einkareknum vatnsfyrirtækjum í heiminum hræðir mann. Það ætti að vera okkur öllum umhugsunarefni hvort einhver hagur sé í því fólginn fyrir íslensku þjóðina að einkavæða vatn.

Ég var að rekja það sem David hefur skrifað um það að segja upp samningum sem vatnsveitufyrirtækin hafa varðandi vatnið. Hér segir áfram, með leyfi forseta:

„Og fyrirtækin geta farið fram á skaðabætur fyrir ætlaðan hagnað og annað, ef ríkisstjórnin vill rifta samningum innan skemmri tíma. Það er furðulegt að það skuli vera hægt að gera samninga með þessum hætti. Þetta er nokkuð sem framkvæmdastjórn ESB ætti að rannsaka og athuga hvort þetta sé ekki eitthvað örlítið andstætt samkeppnishugsuninni — meira að segja eru frönsku fyrirtækin verulega öfundsjúk út í bresku fyrirtækin út af þessu fyrirkomulagi.“

Eins og ég nefndi hér, frú forseti, er ekki þar með sagt að nákvæmlega þetta fyrirkomulag, hvað varðar langtímasamninga, réttindi og skaðabótaskyldu o.s.frv. til vatnsfyrirtækja í einkareknum heimi vatnsins, eigi að gilda hér á Íslandi en það er hætta á því.

Hér segir áfram í fyrirlestrinum, með leyfi forseta:

„Í Barcelona er þetta jafnvel enn makalausara því vatnið þar var einkavætt fyrir 136 árum og hefur verið rekið af einkafyrirtæki sem kallast Agua de Barcelona sem hefur síðan þá verið hluti af Suez-samsteypunni, með stuttri undantekningu á árum spönsku lýðveldisstjórnarinnar upp úr 1930. Vegna þess að fyrirtækið hefur sérleyfi má segja að vatnsveitukerfið sé í eigu einkafyrirtækisins. Það hefur aldrei á þessum 136 árum farið fram útboð og verður sennilega aldrei gert. Ég heyrði eitt sinn framkvæmdastjóra Agua de Barcelona segja: „Enginn getur borgað skaðabætur fyrir allar okkar fjárfestingar sl. 136 ár.“ Það var einmitt tilfellið í annarri spænskri borg, Valencia, þar sem vatnið hafði verið einkavætt í 99 ár og engin samkeppni verið allan þann tíma. Reynt var að setja það í útboð og fyrirtækið sem rak vatnsveituna sagði: „Ef einhver er með hagstæðara tilboð en við verður sá hinn sami að greiða okkur 56 milljónir evra fyrir fjárfestingu okkar sl. 99 ár í vatnsveitunni.“ Þannig að þegar tilboðin streymdu inn var tilboð þeirra sjálfra að sjálfsögðu lægst því allir aðrir þurftu að bæta 56 milljónum evra ofan á sín tilboð. Svo þarna er langtímakerfi sett til að vernda stöðu fyrirtækisins.“

Frú forseti. Þetta var enn einn punkturinn sem við á hinu háa Alþingi þurfum að leiða hugann að. Það er um fyrirtæki sem fá einkaleyfi til að nýta vatnið, vatnsveitur sem hafa einkarétt á að nýta og selja almenningi vatn og leggja út í alls konar tilkostnað þess vegna, og ef reyna á að breyta þeirri stöðu og koma öðrum inn á markaðinn þá er það ekki hægt, eins og kemur skýrt fram í þessu hrikalega dæmi frá Spáni þar sem vatnið hafði verið einkavætt í 99 ár og engin samkeppni, það er ekki hægt að koma slíku fyrirtæki, einokunarfyrirtæki, út af markaðnum öðruvísi en að greiða því skaðabætur upp á 56 milljónir evra. Þetta eru langtímakerfin sem vatnsfyrirtækin setja upp til að vernda stöðu sína.

Í þessum mjög svo merkilega fyrirlestri Davids Halls, sem er fullur af dæmum, fullur af staðreyndum frá Evrópu og víðar og ætti að vera varnaðarorð öllum þeim sem hafa hugann mest við að einkavæða vatn á Íslandi, segir um pólitísk átakamál, með leyfi forseta:

„Að lokum nokkur orð um stjórnmálin. Miðað við það sem ég nefndi áður varðandi söguna, ætti að vera augljóst að ríkisstjórnir og sveitarstjórnir eru lykilaðilar í vatnsgeiranum. Drifkrafturinn í vatnsgeiranum hefur ekki verið í höndum einkaaðila síðan á 19. öld. Í öðru lagi snýst þetta um pólitík, þetta er pólitískt mál þar sem pólitísk hugmyndafræði er ábyrg fyrir breyttum áherslum.“

Frú forseti. Þetta er einmitt það sem við erum að ræða. Allt varðandi vatnið og einkavæðingu þess snýst um pólitísk áhersluatriði og sem betur fer eru ekki allir stjórnmálaflokkar á Íslandi í dag sammála um að fara út í þá aðgerð að einkavæða vatnið. Þetta snýst um pólitík, um pólitískan vilja, og því miður eru pólitíkusar oft drifnir áfram af öðrum sem standa utan þings án þess að ég ætli nokkrum illt.

Áfram heldur David Hall varðandi pólitísk átakamál:

„Uppbygging og rekstur vatnsveitna í höndum sveitarfélaga seint á 19. öld og í upphafi þeirrar 20. helst í hendur við þróun félagshyggju þar sem sveitarstjórnum var ætlað stórt hlutverk, og tengist hugmyndinni um að almannaþjónusta sé órjúfanlegur hluti opinbera geirans. Eins er augljóst að einkavæðing síðustu 15–20 ára hefur tengst pólitískri hugmyndafræði, þeirri frjálshyggjuhugmyndafræði sem trúir því að einkavæðing sé leiðin fram á við.“

Frú forseti. Enn og aftur erum við komin að staðreynd í þessum fyrirlestri sem bendir á þær áherslur eða þau atriði sem hafa verið nefnd í umræðunni um vatn og einkavæðingu á vatni hér á Alþingi en það er þessi frjálshyggjuhugmyndafræði sem, eins og David Hall segir svo réttilega, trúir því að einkavæðingin sé leiðin fram á við. Það er alveg ljóst að í ákveðnum tilfellum getur einkavæðing verið til góðs varðandi rekstur stofnana eða fyrirtækja en það er ekki hægt að telja okkur öllum trú um að einkavæðing á vatninu sjálfu sé leiðin fram á við. Þarna er frjálshyggjuhugmyndafræðin komin mjög langt og ég held, eins og margoft hefur komið fram í umræðunni, að hér ættu menn að staldra aðeins við og gera hlé á þessari málsmeðferð á frumvarpi til vatnalaga og fara vel yfir það með öllum þeim aðilum sem hafa mælt því mót, hvort sem um er að ræða okkur í núverandi stjórnarandstöðu, ég segi núverandi, frú forseti, því að það styttist væntanlega í það að við í Samfylkingunni förum í stjórnarmeirihluta. (Gripið fram í.) Og þá mundi ég taka hv. þm. Mörð Árnason með í þá gleði, og þá gæfist að sjálfsögðu sá möguleiki að skera burtu þessi æxli frjálshyggjuhugmyndafræðinnar sem eru víða farin að grassera í skjóli mjög langþreyttra valdhafa í ríkisstjórninni. Það hlýtur ávallt að koma að því þegar menn sitja lengi — rétt eins og sá sem hér stendur og hefur staðið lengi og þá þreytast menn — að það komi valdaþreyta í menn og ég ætla ekki segja, nei, ég ætla ekki að ganga svo langt, en menn hreinlega gleyma sér. Menn gleyma markmiðunum, menn gleyma tilganginum, menn gleyma, frú forseti, fyrir hvern verið er að vinna. Meiri hlutinn á jafnt sem minni hlutinn að hafa hag almennings, allrar þjóðarinnar að leiðarljósi í hverju því máli sem tekið er fyrir hér.

Nóg af frjálshyggjuhugmyndafræði í bili. En þessi fyrirlestur sem ég er að vitna hér af og til í, frú forseti, er einfaldlega það áhugaverður, það er svo mikið líf í honum, það flæðir svo mikil orka í honum að það er erfitt að lesa nema nokkrar línur án þess að maður æsist allur upp og þurfi að fara að diskútera það sem þar kemur fram. En þar sem skyndilega hefur fjölgað í salnum er rétt að taka fram, frú forseti, að ég er hér að mestu leyti að fara yfir mjög svo merkan fyrirlestur sem prófessor David Hall flutti í fyrra. (Gripið fram í: Er ekki svolítið eftir enn?) Jú, jú, en ég er nú mest farinn að spá í hvað sé í kvöldmatinn. Í því sambandi væri að sjálfsögðu mjög athyglisvert ef ríkisstjórnin þægi bara kvöldverðarboð með David Hall og ræddi þessi mál aðeins á rólegum nótum.

Ég var kominn þar í fyrirlestrinum þegar ég fór á brun niður ána þar sem David Hall sagði svo eftirminnilega, með leyfi forseta:

„Eins er augljóst að einkavæðing síðustu 15–20 ára hefur tengst pólitískri hugmyndafræði, þeirri frjálshyggjuhugmyndafræði sem trúir því að einkavæðing sé leiðin fram á við.“

Áfram segir David, með leyfi forseta:

„Og aftur getur maður séð viðbrögð við þeirri þróun sem byggist á hugmyndafræði. Í löndum eins og Hollandi og Úrúgvæ hafa verið sett lög eða ákvæði í stjórnarskrá til að vernda vatnsauðlindina og vatnsveitur frá einkageiranum.“

Frú forseti. Enn þá stöldrum við við. Hér er David Hall að vitna til þess, eftir nokkurra ára rannsóknir á einkavæðingu vatns, að í löndum eins og Hollandi og Úrúgvæ hafa hreinlega verið sett lög og ákvæði. — Hvar er hv. þm. Jóhann Ársælsson sem er afskaplega mikill áhugamaður um stjórnarskrána, frú forseti, og vonandi fleiri. Ég tek brosið sem jáyrði. — Hér er David Hall að benda á það sem hefur kannski hrætt mig hvað mest þegar maður hefur verið að fara yfir þennan fyrirlestur, fyrir utan það að ég sat undir honum á sínum tíma, að í sumum löndum, og hér tekur hann fram Holland og Úrúgvæ, hafa menn hreinlega sett lög og ákvæði í stjórnarskrá til að vernda vatnsauðlindina frá einkageiranum. Ég hlýt að hafa misst af þessum kafla, frú forseti, þegar ég var að hlusta á þetta erindi því að það er ekki laust við að það renni kalt vatn á milli skinns og hörunds þegar maður kemst að þessari merkilegu staðreynd að sumar þjóðir telji vegna reynslu nauðsyn á því að vernda vatnsauðlindirnar með lagasetningum og með því að setja sérstök ákvæði til verndar vatnsauðlindinni í stjórnarskrá.

Þá erum við komin aftur að því sem stjórnarandstaðan hefur farið yfir á síðustu dögum í þessari mjög svo merkilegu umræðu um frumvarp til vatnalaga, að skoða þurfi öll þessi frumvörp heildstætt. Það þarf að skoða lög um verndun auðlinda, um verndun vatnsauðlinda jafnframt með þessum vatnalögum, auk þess sem ég benti á í upphafi máls míns fyrir einhverjum stundum síðan að þeim er hér stendur, sem er sérmenntaður í fiskeldisfræði, þykir, eftir að hafa lesið frumvarp það til vatnalaga sem við ræðum hér, ástæða til að taka auk þess til umræðu á sama tíma önnur lög, önnur frumvörp um auðlindir og m.a. umræðu um niðurstöður auðlindanefndarinnar svokölluðu. Og að sjálfsögðu þarf, frú forseti, að taka með inn í umræðuna frumvörp sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur nýverið lagt fram um fiskirækt, frumvarp um eldi vatnafiska, frumvarp um Veiðimálastofnun o.s.frv.

Öll þessi frumvörp tengjast í gegnum vatnið, frú forseti. Ég tel því nauðsynlegt að öll þessi stóru frumvörp sem hér hafa komið fram og tengjast vatni þurfi að ræðast samhliða. Þar skarast ráðuneytin, iðnaðarráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti.

Frú forseti. Af því ég sé að í hliðarsal eru komnir ágætir menn, hv. þingmenn stjórnarmeirihluta, þá ætla ég að endurtaka einungis síðasta kaflann í fyrirlestri Davids Halls prófessors um einkavæðingu á vatni sem ég fór yfir. Þessi kafli er sá sem ætti að vekja athygli þeirra hvað mest. Þar segir um pólitísk átakamál, með leyfi forseta:

„Miðað við það sem ég nefndi áður varðandi söguna, ætti að vera augljóst að ríkisstjórnir og sveitarstjórnir eru lykilaðilar í vatnsgeiranum. Drifkrafturinn í vatnsgeiranum hefur ekki verið í höndum einkaaðila síðan á 19. öld. Í öðru lagi þá snýst þetta um pólitík, þetta er pólitískt mál þar sem pólitísk hugmyndafræði er ábyrg fyrir breyttum áherslum. Uppbygging og rekstur vatnsveitna í höndum sveitarfélaga seint á 19. öld og í upphafi þeirrar 20. helst í hendur við þróun félagshyggju þar sem sveitarstjórnum var ætlað stórt hlutverk, og tengist hugmyndinni um að almannaþjónusta sé órjúfanlegur hluti opinbera geirans.“

Nú förum við að nálgast þann kafla sem að — nú, þeir eru þá flúnir. Jæja, en ég held áfram, með leyfi forseta:

„Eins er augljóst að einkavæðing síðustu 15–20 ára hefur tengst pólitískri hugmyndafræði, þeirri frjálshyggjuhugmyndafræði sem trúir því að einkavæðing sé leiðin fram á við.“

Nú kemur kafli sem ég veit að alla vega hv. þm. Samfylkingarinnar, Jóhann Ársælsson, hefur einstaklega mikinn áhuga á. Þar segir þessi mæti maður í sínum magnaða fyrirlestri sem mun væntanlega í framtíðinni verða öllum aðgengilegur á prenti eftirfarandi um pólitísk átakamál, með leyfi forseta:

„Og aftur getur maður séð viðbrögð við þeirri þróun, sem byggist á hugmyndafræði. Í löndum eins og Hollandi og Úrúgvæ hafa verið sett lög eða ákvæði í stjórnarskrá til að vernda vatnsauðlindina og vatnsveitur frá einkageiranum.“

Svo mörg eru þau orð, frú forseti. Hér er bent á þá staðreynd að sum ríki hafa séð sér hag í að setja lög og setja ákvæði hreinlega í stjórnarskrá — er til eitthvað sterkara? — til að vernda vatnsauðlindina og vatnsveitur frá einkageiranum. Eitthvað hefur nú gengið á hjá þessum þjóðum ef menn hafa svo miklar áhyggjur af einkavæðingu vatns að þeir setji sérstök lög til að vernda vatnsauðlindina frá einkageiranum, frú forseti. (Gripið fram í: Ólíkt höfumst við að.) Ólíkt höfumst við að. En þetta er ekki búið enn, frú forseti, því batnandi mönnum er best að lifa og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þetta vatnalagafrumvarp fari hér í gegn, eða hvað? (Gripið fram í.) Verði samþykkt, já. (JBjarn: ... móti því.) Hvoru? (Gripið fram í.) Á móti hvoru er hv. þm. Jón Bjarnason? (JBjarn: Ég er nú á móti því að ...) (Forseti hringir.)

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmenn að vera ekki með tveggja manna tal hér í þingsalnum. (JBjarn: ... áréttingar.) Leyfum ræðumanni að ljúka máli sínu. )

Frú forseti. Þetta var kannski nauðsynlegt til áréttingar. Ég bið forláts.

Ég held að það sé mjög eðlilegt að menn fari hér á flug eða taki brun niður ána þegar þessar staðreyndir koma hér fram eins og ég hef farið svo skilmerkilega yfir varðandi neikvæða reynslu af einkavæðingu vatns. En ég tek aftur niður í erindi Davids Halls þar sem hann talar um pólitísk átakamál varðandi lagasetningar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þarna er greinilega á ferðinni hugmyndafræði þess efnis að vatn sé í almannaeigu, það sé almannagæði og eigi því ekki að ganga kaupum og sölum á almennum markaði eins og hver önnur vara.“

Frú forseti. Þetta er einmitt meginkjarninn, ekki einungis í þessum fyrirlestri, ekki einungis í þeirri ræðu sem hér er haldin heldur í mörgum þeim ræðum sem hafa verið haldnar hér á síðustu dögum í þinginu af hv. stjórnarandstöðuþingmönnum um að vatnið sé almannagæði, sé sú lífsnauðsyn sem eigi alls ekki að ganga kaupum og sölum á markaði eins og hver önnur vara.

Svo segir, með leyfi forseta:

„Eitt er augljóst og ber að nefna í þessu sambandi, en það er að um heim allan er einkavæðing vatns óvinsæl.“

Frú forseti. Hér dugar einungis ein setning. Hér þarf maður að staldra við. Það er eitt af því sem hefur svo skýrt og greinilega komið fram á hinu háa Alþingi á síðustu dögum að einkavæðing á vatni er óvinsæl. Það hefur jafnframt komið fram úti í þjóðfélaginu. Okkur berast fréttir af því í gegnum fjölmiðla og af samtölum fólks í milli, almennings, sem hrýs hugur við þeirri staðreynd að ríkisstjórnin er að reyna að troða í gegn lagasetningu til að geta einkavætt vatnið. Þetta gildir hér eins og alls staðar annars staðar í heiminum að þetta er hugmyndafræði sem engum hugnast nema þeim sem ganga á vegum frjálshyggjuhugmyndafræði. Síðan segir í fyrirlestri Davids Halls, með leyfi forseta:

„Undanfarin ár höfum við tekið eftir skipulagðri baráttu um allan heim. Ég get nefnt dæmi um þrjár herferðir í Evrópu síðastliðin tvö ár, þar sem ég hef verið beðinn um að tala. Ein var á Spáni, þar sem fjöldi borga hefur bundist í sístækkandi bandalag með það að markmiði að berjast gegn einkavæðingu á vatni. Önnur var í Hamborg, þar sem reis upp mótmælaalda fyrir ári, þegar upp kom tillaga um einkavæðingu á mjög vel reknu og afkastamiklu vatnsfyrirtæki þar.“

Frú forseti. Hér erum við komin að þeirri staðreynd í máli Davids Halls prófessors sem rannsakað hefur afleiðingar einkavæðingu vatns að óánægjan er það mikil víða í borgum að til uppþota kemur.

Frú forseti. Það er ekkert óeðlilegt við að til uppþota komi í borgum þar sem ríkisstjórnir hafa áform um að einkavæða vatn. Við erum að vísu friðelskandi þjóð á Íslandi enn þá. Við lögðum vopn niður að stórum hluta fyrir 800–900 árum þegar menn töldu það ekki eftir sér að höggva mann og annan ef þeir voru ósáttir við ætlanir einhvers eða ákvarðanatöku eða hegðan.

Það er mjög eðlilegt, frú forseti, að í þessum rannsóknum sé komið inn á þá staðreynd að til uppþota hafi komið úti í heimi þegar menn hafa ætlað sér að einkavæða vatnið. Hér í umræðunni hefur sú staðreynd áður komið fram að vatnsmagn í heiminum fer minnkandi og átök um vatn hafa aukist. Þá er ég ekki bara að tala um átök eins og við höfum staðið í hér í dag með orðum heldur átök upp á líf og dauða. Það gerist víða í heiminum að menn berjast upp á líf og dauða fyrir vatnið og okkur berst til eyrna, eins og kemur fram í þessari rannsókn, að á síðustu árum hafi menn lent í átökum í Hamborg og fleiri stöðum, þ.e. það verða uppþot, almenningur mótmælir, almenningur rís upp þegar menn ætla að einkavæða vatnið. Því hefur verið spáð, og ekkert er óeðlilegt við það, að í framtíðinni verði enn harðari barátta háð fyrir aðgang að vatni. Það hefur verið komið vel inn á það hér á síðustu dögum og eitt af því sem menn hafa velt fyrir sér er hvers vegna þessi mikli hraði sé nauðsynlegur, þessi miklu læti við að koma þessu máli hér í gegn. Er það ekki að hluta til vegna átaka sem ávallt hafa verið um þá nauðsyn sem vatnið er, vegna þess að átökin í framtíðinni eiga eftir að aukast og vatnið á eftir að verða verðmætara?

Ég nefndi það í upphafi máls míns fyrr í dag að umhverfisfræðingurinn Ingibjörg Elsa Björnsdóttir sagði að það hljóti að verða þannig í framtíðinni, frú forseti, að menn leysa þessi flutningavandamál, ef hægt er að kalla það vandamál, sem gera það að verkum að vatnsútflutningur í dag er ekki mjög arðbær. Það er dýrt að flytja vatnið á milli landa. En í framtíðinni hlýtur að draga að því að við munum finna upp þannig flutningatæki að það borgar sig að flytja út vatn frá Íslandi til þeirra landa er þurfa á því að halda. Þess vegna er þetta gífurlega mikilvæg auðlind sem hér er um að ræða og ætti að sjálfsögðu ekki að falla undir neinn einkaeignarrétt.

Frú forseti. Ég var að vitna í fyrirlestur Davids Halls um óvinsældir einkavæðingar úti í heimi. Ég ætla að bakka hér nokkrar línur. Þar segir í fyrirlestrinum, með leyfi forseta:

„Eitt er augljóst og ber að nefna í þessu sambandi, en það er að um heim allan er einkavæðing vatns óvinsæl. Undanfarin ár höfum við tekið eftir skipulagðri baráttu um allan heim. Ég get nefnt dæmi um þrjár herferðir í Evrópu síðastliðin tvö ár, þar sem ég hef verið beðinn um að tala. Ein var á Spáni, þar sem fjöldi borga hefur bundist í sístækkandi bandalag með það að markmiði að berjast gegn einkavæðingu á vatni. Önnur var í Hamborg, þar sem reis upp mótmælaalda fyrir ári, þegar upp kom tillaga um einkavæðingu á mjög vel reknu og afkastamiklu vatnsfyrirtæki þar. Þar hófst barátta fyrir allsherjaratkvæðagreiðslu í borginni um málið, en til að krefjast slíkrar atkvæðagreiðslu þurfti að safna 25 þúsund undirskriftum. Það takmark náðist á aðeins 10 dögum og borgarstjórn Hamborgar dró tillögu sína um einkavæðingu umyrðalaust til baka. Þriðja dæmið sem ég nefni kemur frá Norður-Írlandi þar sem breska ríkisstjórnin hefur lagt fram hugmyndir um að markaðsvæða vatnið, með það að markmiði að einkavæða það í náinni framtíð. Þar er hins vegar nánast einhuga andstaða allra gegn tillögunum. Við ættum að hafa í huga að stjórnmál á Norður-Írlandi eru ekki eðlileg og skiptast oftast eftir trúarbrögðum. Ég fór á fund í Belfast fyrir tveimur árum og sat við borð með fulltrúum baráttunnar gegn einkavæðingu vatns. Þarna var litríkur hópur samankominn, þarna voru fulltrúar stéttarfélaga, neytendasamtaka, hverfasamtaka og þriggja stjórnmálaflokka, Sambandsflokksins (the Alliance Party) sem er miðjuflokkur, Sinn Fein sem er eins og allir vita þjóðernissinnaður flokkur og DUP, the Democratic Unionist Party sem er öfgafyllsti mótmælendaflokkurinn. Sinn Fein og DUP neituðu alfarið á þessum tíma að sitja við sama borð í þinginu eða á nokkrum öðrum vettvangi, en þegar kom að einkavæðingu vatns gátu þessir aðilar setið við sama borð. Þetta er málefni hlaðið tilfinningum. Það yrði langt mál ef ætti að nefna allar herferðir sem hafa verið farnar í þágu vatnsins um allan heim, svo ekki sé minnst á nýjustu viðburðina.“

Frú forseti. Þetta er einmitt málið. Menn í öðrum löndum takast á um vatnið. Sumir setja hreinlega lög, eins og kom fram áðan, í Hollandi og Úrúgvæ, til að koma veg fyrir að vatnið verði einkavætt. Einkavæðing vatns er víða óvinsæl og sums staðar hefur verið efnt til mótmæla og víða úti í heimi er barist upp á líf og dauða fyrir aðgang að vatni.

Í fyrirlestri Davids Halls sem ég las upp úr áðan kemur jafnframt fram að þegar kemur að því að standa saman gegn einkavæðingu vatns geta meira að segja flokkarnir á Norður-Írlandi, sem hefur ávallt verið mikill ófriðarstaður, Sinn Fein og Democratic Unionist Party, öfgafullur mótmælendaflokkur, sest niður og tekið þátt í andófi gegn einkavæðingu vatns.

Þetta málefni, einkavæðing á vatni, er að sjálfsögðu hlaðið tilfinningum og þarf ekki að líta lengra, frú forseti, en til þeirra umræðna og átaka sem átt hafa sér stað á hinu háa Alþingi síðustu daga þegar kemur að því að meiri hlutinn dettur ofan í þá þráhyggju að best sé að einkavæða vatnið á Íslandi.

Frú forseti. Ég held áfram að fara yfir þennan mjög svo merkilega fyrirlestur sem ég hlýddi á hjá BSRB þar sem David Hall fór yfir rannsóknir sínar á því hvað gerðist í kjölfarið á einkavæðingu vatns. Hér segir, með leyfi forseta:

„Sú niðurstaða sem við getum dregið af þessari könnun er að sögulega séð er þáttur hins opinbera í vatni of stór og mikilvægur, til þess að honum sé kastað á glæ vegna einhverra tískuhugmynda og nýjustu strauma í hugmyndafræðinni. Sagan hefur sannað gildi opinbera geirans í þessari starfsemi. Rökin um kostnað og afköst virðast ekki benda til yfirburða einkageirans. Öll rök sýna að sé eignarhaldið í höndum hins opinbera er ábyrgðin mun skýrari. Opinber aðili getur nýtt sér fjármálastjórnun á annan hátt en einkaaðili og þegar kemur að spurningunni um að stjórna vatnsauðlindum, þá er líklegra að það verði gert með hagsmuni almennings í huga ef þær eru í höndum hins opinbera en hjá einkaaðila sem tekur mið af eigin hagsmunum.“

Frú forseti. Þetta voru lokaorð Davids Halls en á þeim fyrirlestri sem ég varð vitni að komu upp nokkrar spurningar sem ég á eftir að fara yfir. Ég reikna með að allir þeir er hlýddu á þennan fyrirlestur á sínum tíma og þeir er hafa hlýtt á mál mitt hér í dag, sjái að varðandi einkavæðingu á vatni sé því miður ekki margt sem mælir með slíkri lagasetningu. Ég hef rakið úr fyrirlestri Davids Halls ýmis atriði sem eru neikvæð fyrir einkaeign og einkarekstur á vatni. Eins og ég hef áður sagt tel ég eðlilegt að þingmenn fái síðan aðgang að þeim fyrirlestri sem er byggður á mjög svo ítarlegri rannsókn sem David Hall gerði fyrir nokkrum árum varðandi breytingar sem einkavæðing á vatni hafði í för með sér.

Ég hef grun um það, frú forseti, að þeir sem hafa hlýtt á mál mitt í dag eða muni bera sig eftir því að fara vel og vandlega yfir þennan fyrirlestur, svo ég tali nú ekki um að leggja það á sig að fara yfir rannsóknina og niðurstöður hennar allar, hljóta að hafa eftir það miklar efasemdir um það sem virðist vera ætlun meiri hlutans, þ.e. að setja hér lög um einkaeignarrétt á vatni.

Ég minntist í upphafi á, frú forseti, fyrir nokkrum forsetum síðan, að ég hefði miklar áhyggjur vegna þessa frumvarps til vatnalaga varðandi fiskeldi á Íslandi. Ég fór í sjálfu sér nákvæmlega yfir það og vil trúa því og treysta að menn hafi tekið orð mín alvarlega því mér finnst lagafrumvörp varðandi eldisfiska og fiskrækt annars vegar og frumvarp til vatnalaga hins vegar stangast á. Ég hef grun um, og leiðrétti þeir sem geta, að verði þetta vatnalagafrumvarp að lögum muni það takmarka möguleika fiskeldisfyrirtækja til að starfa. Því fiskeldisfyrirtæki getur ekki starfað án vatns.

Ég er mjög undrandi á því, frú forseti, og má vel vera að það sé nýliðabrek, að svo virðist vera að ekki sé fullkomin samvinna milli ráðuneyta landbúnaðar og iðnaðar þegar vikið er að undirbúningi þessa frumvarps. Það er, eins og ég hef komið inn á, skörun á milli frumvarps til vatnalaga annars vegar og frumvarps til eldis vatnafiska hins vegar.

Frú forseti. Ég velti fyrir mér því nú er klukkan að ganga sjö hvort teknar hafi verið ákvarðanir um hversu lengi þessi fundur eigi að standa.

(Forseti (ÞBack): Forseti getur upplýst að tekin hefur verið ákvörðun um að hafa kvöldverðarhlé milli hálfátta og átta.)

Já, ég þakka forseta fyrir. Hálfátta skal það vera. Eins og ég kom inn á um fiskeldið er nauðsynlegt hvað varðar umsókn um rekstrarleyfi á fiskeldisstöð að slíkri umsókn þurfa að fylgja skilríki um heimild til afnota lands, vatns og sjávar. Mun það verða mögulegt ef sett eru hér sérstök vatnalög þar sem vatnið fer í einkaeigu? Þetta er spurning, frú forseti, sem við þurfum að fara yfir og athuga. Ég tek eftir því að hér á að koma fram frumvarp til laga um Veiðimálastofnun, sem er þá í raun enn eitt frumvarpið sem þyrfti að ræða samhliða vatnalögum því að Veiðimálastofnun hefur aðalatvinnu sína af að vinna að rannsóknum á laxfiskum í vatni, þ.e. stöðuvatni og straumvatni. Að sjálfsögðu skiptir máli hvaða lög verða sett um Veiðimálastofnun því að hún hlýtur að þurfa að hafa einhver afskipti eða ráð ef til þess kæmi, eins og rætt er um í frumvarpi til vatnalaga, að breyta farvegi ár. Hvar kemur Veiðimálastofnun að því máli ef menn — nú væri fróðlegt, frú forseti, ef frumvarp til laga um Veiðimálastofnun er komið fram að fá eitt eintak af því, það hefur farið fram hjá mér.

Ef menn eiga að eiga möguleika, eins og getið er um í frumvarpi til vatnalaga, á að breyta árfarvegi hljóta menn að þurfa að hafa samráð við þá lærðu menn sem starfa á Veiðimálastofnun. Því velti ég því fyrir mér hvort annað ráðuneytið hafi tekið mið af frumvarpi hins.

Frú forseti. Ég ætla að líta hér aðeins í umsagnir. Það kemur manni svolítið á óvart — og hér kemur siglandi frumvarp til laga um Veiðimálastofnun. Það er þá rétt að það er komið fram, það hefur komið hér í kjölfar frumvarps um eldi vatnafiska, þetta er þingskjal 897.

Í 1. gr. í frumvarpi til laga um Veiðimálastofnun, um stjórnsýslulega stöðu, segir, með leyfi forseta:

„Veiðimálastofnun er rannsóknastofnun á sviði ferskvatnsfiska og lífríkis þeirra sem heyrir undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra. Veiðimálastofnun skal leitast við að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögum þessum í nánu samstarfi og samvinnu við menntastofnanir landbúnaðarins.“

Hér segir, frú forseti, að Veiðimálastofnun sé rannsóknastofnun sem fari með rannsóknir á sviði ferskvatnsfiska og lífríkis þeirra. Stofnunin er þá að sjálfsögðu að rannsaka lífríkið í stöðuvötnum og straumvötnum. En það er nú einmitt þannig að uppvaxtarstaður margra laxfiska er í ám og því hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort ekki sé skörun á milli þessara lagafrumvarpa, um Veiðimálastofnun og um vatnalög.

Í þessu lagafrumvarpi segir í 4. gr., um hlutverk Veiðimálastofnunar, með leyfi forseta:

„Hlutverk Veiðimálastofnunar er:

1. að afla með grunnrannsóknum alhliða þekkingar á nytjastofnum ferskvatns og lífríkis þeirra og miðla upplýsingum þar um,

2. að hvetja til sjálfbærrar nýtingar ferskvatnsvistkerfa,

3. að treysta grunn vísindalegrar ráðgjafar um nýtingu nytjastofna ferskvatna,

4. að treysta grunn vísindalegrar ráðgjafar í fiskrækt í ám og vötnum,

5. að rannsaka hvernig fiskeldi og fiskrækt megi best stunda í sátt við íslenska náttúru og villta stofna,

6. að veita ráðgjöf um lífríki áa og vatna í sambandi við framkvæmdir og mannvirkjagerð,

7. að stunda rannsóknir á eldi vatnalífvera,

8. að annast þróunarstarf og leiðbeiningar í veiðimálum og annarri nýtingu lífríkis ferskvatns,

9. að veita lögboðnar umsagnir,

10. að annast rannsóknir á einstökum ferskvatnsvistkerfum gegn gjaldi,

11. að stunda rannsóknir í sjó á nytjastofnum ferskvatns,

12. að annast aðrar rannsóknir og tengd verkefni sem ráðherra felur stofnuninni með reglugerð.“

Þetta er það sem kemur fram í lagafrumvarpinu, frú forseti, um hlutverk Veiðimálastofnunar. Ég hef verið að velta fyrir mér þeirri staðreynd að það er mögulegt að breyta farvegi ár samkvæmt vatnalögum.

Í 14. gr. frumvarps til vatnalaga varðandi vatnsfall í fornan farveg segir, með leyfi forseta:

„Nú breytist farvegur af náttúrulegum ástæðum og er þá fasteignareiganda hverjum sem bagi verður að breytingunni rétt að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag.“

Farvegur ár er mun meira en bara grjót eða sandur. Farvegur er, í augum Veiðimálastofnunar, t.d. uppeldisstöð laxfiska. (Gripið fram í.) Já, það vill nú þannig til, frú forseti, að hér gekk í salinn ónefndur þingmaður sem hefur mikinn áhuga á kynlífi laxfiska.

Ég velti fyrir mér þeirri staðreynd, frú forseti, að árfarvegir eru uppeldisstöðvar fyrir laxfiska víðast hvar, þ.e. eins og orðatiltækið segir „fiskur undir steini“. Þar sem áin brotnar á steinvölum má sjá svokölluð brot og ef menn mundu grúska þar undir fyndust þar seiði. Þar eru uppeldisstöðvar laxfiska þar sem vatnið er hvað súrefnisríkast sökum þess að það brýtur á mislægum botni. Það hlýtur að koma Veiðimálastofnun við ef hægt er, samkvæmt þessu nýja frumvarpi til vatnalaga, að færa árfarvegi. Því hefði átt — og enn er að vísu tækifæri til þess — að fara yfir þessi frumvörp saman. Það er hlutverk Veiðimálastofnunar að veita ráðgjöf um lífríki áa og vatna í sambandi við framkvæmdir. Það hefði því ekki verið óeðlilegt, frú forseti, að frumvarp til laga um Veiðimálastofnun, sem er að vísu nýkomið fram, hefði komið fram ásamt öðrum tengdum frumvörpum frá landbúnaðarráðherra samhliða frumvarpi til vatnalaga.

Frú forseti. Það líður nú að seinni hluta í ræðu minni en henni er langt í frá lokið. En kannski er það enn eitt nýliðabrekið að nú hef ég þambað mikið af vatni til að halda röddinni og spyr því forseta hvort það sé möguleiki á að ég geri hér tveggja mínútna hlé á ræðu minni og fái að stökkva á salernið.

(Forseti (ÞBack): Forseti heimilar skjóta ferð fram á salerni við þessar aðstæður og gerir stutt hlé á þingstörfum.)

Ég þakka fyrir það.

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þennan skilning, að leyfa mér að skila af mér því vatni sem ég á ekki lengur. Ég held nú áfram með mál mitt.

Menn velta því fyrir sér, varðandi vatnið, hvort það sé auðlind eins og hver önnur auðlind en hún fer minnkandi og einungis 0,5% af vatnsforða jarðar er ferskvatn. Víða er vatnsskortur í heiminum og fátt sem bendir til annars, frú forseti, en að vatnsskortur aukist. Víða er viðvarandi vatnsskortur. Nefna má lönd eins og Ísrael en menn tala um að þar sé minna en 1.000 rúmmetrar af vatni til ráðstöfunar á hvern íbúa.

Allt líf á jörðinni er háð vatni til ræktunar, orkuframleiðslu og til framleiðslu á vörum og afurðum og öll þurfum við á vatni að halda. Enginn kemst af án vatns og í raun getur ekkert samfélag lifað án þess. Vatnið er hluti af hugarheimi, trúarbrögðum og menningu. Aðgangur að vatni hefur verið skilgreindur sem mannréttindi. Það er skýrt í samþykktum Sameinuðu þjóðanna að vatn telst til grundvallarmannréttinda. Allir eiga rétt á aðgangi að vatni. Þeir eiga ekki síður rétt á drykkjarvatni á hóflegu verði. Getur verið að í framtíðinni ætli menn sér að hefta aðgang fólks að vatni eftir efnahag?

Það má vera að ég sé orðinn nokkuð svartur, frú forseti, en það er okkar hlutverk að skoða og gagnrýna frumvörp. Þegar mönnum hugkvæmist að einkavæða vatn þarf að sjálfsögðu að skoða málið til enda. Aðgangur að vatni er grundvallarmannréttindi samkvæmt samþykkt Sameinuðu þjóðanna, sem þýðir að öllum þjóðfélögum ber skylda til að tryggja þegnum sínum aðgang að vatni. Það má að sjálfsögðu ekki fara eftir efnahagslegri stöðu viðkomandi, hvort viðkomandi sé efnaður eða ekki, hvort hann hafi efni á að kaupa aðgang að vatni. Þetta er skýrt samkvæmt samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Allir eiga að hafa tryggan aðgang að drykkjarvatni. Talandi um vatnið er þetta ekki bara spurning um vatn heldur líka hve hreint það er, þ.e. hvort menn hafa aðgang að hreinu, nothæfu vatni eða ekki. Það er sagt að ef menn hafi ekki nægan aðgang að vatni geti það leitt af sér fátækt. Enda sannast það á því að þeir sem ekki hafa aðgang að hreinu vatni eru fátækustu íbúar jarðar.

Í dag er það fjarlægt okkur að velta fyrir okkur þeim möguleika að vatnið komi ekki úr krananum á morgun, sem gæti gerst ef það yrði einkavætt. Við lítum á þetta sem sjálfsagðan hlut, maður bara skrúfar frá krananum og vatnið kemur. En við verðum að bera fulla virðingu fyrir vatninu og allri þeirri miklu auðlind sem kalla mætti lifandi auðlind sem flæðir áfram í stöðugri hringrás. En við getum ekki endalaust átt von á að vatnið berist okkur. Það á að sjálfsögðu að vera öllum mögulegt að nytjað vatnið, að nota það en mér hugnast ekki að einkavæða það miðað við hinn merkilega fyrirlestur Davids Halls sem ég fór yfir áðan, sem kom inn á neikvæðar afleiðingar af einkavæðingu vatns.

Málið, frú forseti, sem hér er um að ræða, frumvarp til vatnalaga, hefur áður komið til umræðu á hinu háa Alþingi. Það var afgreitt úr nefnd á 131. löggjafarþingi en náði ekki lokaafgreiðslu. Það er aftur komið fyrir þingið, lítið breytt. Eins og fram hefur komið á samkvæmt því að skilgreina vatnsréttindi með neikvæðum hætti í stað jákvæðrar skilgreiningar í núverandi vatnalögum. Það er rétt að taka fram að núverandi vatnalög eru enn þá í gildi þótt mönnum verði oft á að ræða um frumvarpið líkt og það sé orðið að lögum, sem ég sé ekki að gerist að óbreyttu.

Því hefur verið haldið fram að frumvarp til vatnalaga sé einungis til að snurfusa, sem er ekki víst að sé íslenskt orð þótt maður hafi oft notað það, og taka til í gömlum vatnalögunum. Menn greinir samt á um hvort um formbreytingu sé að ræða eða efnisbreytingu. Það hefur komið fram hjá meiri hluta iðnaðarnefndar að breytingin í frumvarpi til vatnalaga sé einungis formbreyting og muni í raun ekki hafa nein áhrif á raunveruleg réttindi. En það er alveg skýrt, líka hjá þeim sem sömdu frumvarpið, að aðalmarkmiðið með setningu laganna sé að ná fram skýru eignarhaldi á vatni. Það er sérstakt að það skuli vera aðalmarkmið þessarar lagasetningar ef einungis er um formbreytingu að ræða. Þetta virkar, frú forseti, sem efnisbreyting og það eru tíðindi fyrir alþjóð ef meiri hlutinn ákveður að einkavæða vatnið.

Það er mjög erfitt, frú forseti, að trúa að sú breyting sem lögð er fram í þessu frumvarpi sé einungis formbreyting. Ég hef nefnt ýmis lög sem viðkoma vatni. Það sem hefur kannski vakið sérstaka athygli manns, eftir að við fórum að grandskoða þetta frumvarp, er hve vel gamli lagabálkurinn frá 1923 hefur staðist tímans tönn. Það er erfitt að gera ný lög sem taki við af hinum gömlu. Því er ósköp eðlilegt að tekist sé á um það. Það að ætla að keyra í gegn vatnalagafrumvarp og fella úr gildi gildandi vatnalög hlýtur að kalla á, frú forseti, mikla yfirlegu og að sjálfsögðu þyrfti að taka fleiri frumvörp með, t.d. frumvarp sem strandaði á Alþingi ef ég man rétt 7. desember síðastliðinn, frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Þessi frumvörp þyrfti að sjálfsögðu að ræða saman.

Jafnframt mætti taka með frumvarp sem boðað hefur verið að verði lagt fram, þ.e. frumvarp varðandi vatnatilskipun Evrópusambandsins. Þessi þrjú frumvörp þyrfti að fara yfir saman, frú forseti, þannig að þau skarist ekki óeðlilega. En þeim þarf að finna stað í stjórnarskránni og síðan hvernig valið verði milli þeirra sem sækjast eftir nýtingu vatnsauðlinda, hvort sem um er að ræða rennandi vatn ofan jarðar eða jarðrænar auðlindir. Við höfum barist fyrir því á síðustu dögum, frú forseti, að menn taki hér góða umræðu. Við höfum gert það. Minni hlutinn hefur tekið sér góðan tíma í að skoða málið, bæði utan þingsalar og innan. Við höfum bent hér á mörg atriði sem ber að fara vandlega yfir til að forðast frekari átök og komast hjá skaðabótaskyldu.

Menn ætla sér að afnema vatnalögin með því að setja ný lög sem koma samt ekki, miðað við minn skilning á umræðunni, að fullu í stað gömlu vatnalaganna. Á síðustu dögum hefur orðið umræða um ágætar umsagnir sem fylgdu þessu frumvarpi. Í þessum umsögnum hafa komið fram margar og góðar tillögur um breytingar á vatnalagafrumvarpinu, sem ber það með sér að frumvarpið sé kannski ekki fullunnið. En ég ætla að skilgreina það jákvætt þannig að þar séu bara eðlilegar athugasemdir sérfræðinga, hvers á sínu sviði, sem við eigum að sjálfsögðu að fagna. En við eigum þá líka að nýta skoðanir þeirra til að gera frumvarpið og þar af leiðandi lagasetninguna betri. Meira að segja undirstofnanir umhverfisráðuneytis, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun, settu fram athugasemdir sem fram koma í gögnum frá síðasta þingi, er frumvarpið var fyrst lagt fram. Þær stofnanir lögðust hreinlega gegn frumvarpinu. Sú skoðun hefur ekki breyst en þegar svo er komið að undirstofnanir umhverfisráðuneytis setja sig alfarið á móti frumvarpi þá má segja að málið hafi ekki hlotið nægilega umfjöllun í stjórnkerfinu og þaðan af síður á Alþingi.

Fyrr í ræðu minni fór ég vel og vandlega yfir fyrirlestur Davids Halls um rannsóknir hans á áhrifum einkavæðingar á vatn. Þar var minnst á pólitíkina og þessa undarlegu frjálshyggjuhugsjón sem virðist allsráðandi þegar kemur að því er menn einkavæða vatn. Hvers vegna í ósköpunum, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði, vilja flutningsmenn endilega kalla vatnið eign landeigenda? Það veldur því að þar verður til einkaeignarréttur. Miðað við áhyggjur og ábendingar umhverfissérfræðingsins Ingibjargar Elsu Björnsdóttur mun frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, leiða af sér framsalsrétt þeirra sem eiga vatnið. Þá vakna áhyggjurnar: Hverjir kaupa það ef menn nýta sér þennan framsalsrétt, hverjir verða það þá sem kaupa vatnið? Munu þá jafnvel einhverjir sanka að sér stórum hluta af vatni Íslendinga?

Á sínum tíma tók það sex ár, í upphafi 20. aldar við meðferð þessa máls á Alþingi, að enda giftusamlega með góðum lögum sem staðist tímans tönn, orðin rúmlega áttræð. Nú vilja menn keyra málið í gegn á sex dögum og hafa í raun lent hér í hálfgerðu sex daga stríði við þá sem hafa uppi varnaðarorð. Skilgreiningin í gömlu lögunum varðandi nýtingarrétt hefur reynst vel fram til þessa. Í sjálfu sér er engin ástæða til að vera að breyta eða hrófla við henni. Telji menn bráðnauðsynlegt að róta í vatnalögum þá ættu menn að taka fleiri frumvörp með í leiðinni. Ég hef komið að því áður. Þetta þarf allt að skoða heildstætt og taka til fyrirmyndar ríkisstjórnir í Hollandi og Úrúgvæ. Þar hafa menn sett ákvæði um vatnsauðlindina í stjórnarskrá.

Við höfum margítrekað, kannski helst í upphafi þess að málið var tekið fyrir til 2. umr. á hinu háa Alþingi, reynt að fá stjórnarliða til að útskýra hvað kallar á að þetta frumvarp verði afgreitt núna og án alls vilja til að setjast niður og skoða hvað mætti fara betur í ljósi hinna hörðu umsagna sem komu, m.a. frá einni undirstofnun ráðuneytis. Rökin fyrir þessum æðibunugangi hafa ekki enn komið fram en það er enn von. Það er ástæða til að árétta það einnig að í gangi er nefnd um endurskoðun á stjórnarskránni. Þar mun vonandi koma inn eitt af okkar hugðarefnum, að auðlindir í þjóðareign verði í stjórnarskrá. Það er mjög eðlilegt að þetta vinni allt saman og menn geti skilað heildarpakka. Maður er vanur slíkum vinnubrögðum úr atvinnulífinu.

Ég skil heldur ekki hvað liggur á. Það þarf að mynda stefnu til framtíðar varðandi nýtingu auðlinda í landinu. Það er að sjálfsögðu á ábyrgð hæstv. iðnaðarráðherra að sjá til að þeir hlutir séu skoðaðir í fullu samhengi. Sjálfsagt væri rétt að skipa nefnd til að fara yfir þessi mál og gefa henni góðan tíma til að fara yfir þessi mál og gefa henni góðan tíma til að vinna. Það hefur komið fram að sex ár tók að vinna frumvarp til vatnalaga á sínum tíma. Kannski er hraðinn í þjóðfélaginu einfaldlega slíkur að hann keyrir unga og spræka þingmenn stjórnarliða svona áfram. Það veit ekki sá er hér stendur.

Því miður er lítill áhugi á að skoða öll þessi mál heildstætt, eins og ég hef minnst á. Það þarf að sjálfsögðu að taka góða umræðu í stjórnarskrárnefnd um ekki bara nýtingu á auðlindum heldur og eignarhald og umgengni. Eitt af því sem prófessor David Hall minntist á í fyrirlestri sínum, sem ég fór rækilega yfir áðan, er umgengni um vatnsauðlindina sem er víða mjög slæm hjá einkareknum vatnsfyrirtækjum. Það kemur skýrt fram að menn láta það óátalið þó að leki sé 30–35%, jafnvel 40% af rennsli. Jú, allar viðgerðir og allt slíkt kostar og því dregur að sjálfsögðu úr hagnaði þannig að vatnsveitur í einkaeign hvetja menn ekki til að fara vel með auðlindina, a.m.k. í þeim löndum er prófessor Hall skoðaði. Í stjórnarskrárnefnd er þetta ekki bara spurning um að fara yfir eignarhald, nýtingu á auðlindum heldur og umgengni. Það þarf að umgangast auðlindir þannig að við getum skilað þeim vel nýtanlegum um ókomna framtíð til komandi kynslóða.

Að þeim orðum sögðum veltir maður því fyrir sér hvort það sé eitthvað sem þeim er vilja stuðla að einkavæðingu hugnist, þ.e. að koma auðlindunum til komandi kynslóða. Væntanlega er það skyndigróðinn sem blífur í dag. Eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna Samfylkingarinnar berum við þingmenn mesta ábyrgð á því hvernig umgengni við auðlindir er í dag og hvort hægt sé að nýta þær í framtíðinni. Við berum ábyrgð á náttúrunni, við berum ábyrgð á meðferð auðlindanna að gengið sé um þær með ábyrgum hætti, að meðferð þeirra sé skynsamleg og farið sé eftir leikreglum sem settar verða.

Við erum að tala um nýtingu á einhverri mestu auðlind framtíðarinnar, frú forseti. Ég hef rakið í máli mínu og það hefur komið fram víðar hjá leikum og lærðum að væntanlega verði vatnið í framtíðinni einhver mikilvægasta auðlind mannskepnunnar og muni þá jafnvel verða verðmætari en sjálf olían. Næg eru nú átök um olíuna, hvort heldur sem menn líta á framleiðslu, á sjálfar borholurnar, uppspretturnar, löndin sem hún er í eða einkafyrirtæki sem selja hana.

Frú forseti. Ég minntist áðan á nokkrar umsagnir, góðar og gagnlegar umsagnir sem hafa komið um frumvarpið. Ég var einmitt að velta því fyrir mér áðan hvort ekki þyrfti að lesa saman frumvarp um Veiðimálastofnun og frumvarp um vatnalög og tel að það skipti miklu máli. Nú hefur mér áskotnast umsögn frá sjálfum veiðimálastjóra, sem er fyrrverandi forstöðumaður Veiðimálastofnunar, og er því maður sem sökum reynslu og þekkingar ætti að taka mikið tillit til og að sjálfsögðu taka mark á. Í þessari umsögn um vatnalög tekur Árni Ísaksson veiðimálastjóri á atriðum sem ekki hefur verið farið inn á áður einhverra hluta vegna, en þarna eru atriði sem veiðimálastjóri gerir athugasemdir við. Ég er nokkuð viss um að þær athugasemdir eiga líka við um Veiðimálastofnun. Ég get ekki séð að þeir geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki, sem kemur skýrt fram í 4. gr. í frumvarpi til laga um Veiðimálastofnun, ef engar breytingar verða gerðar á vatnalagafrumvarpinu.

Ég tel rétt, frú forseti, að lesa bara í heilu lagi umsögn frá veiðimálastjóra. Ég tek fram að til er fyrri umsögn sem mjög gott er að hafa en hún er frá 3. mars 2005. En þessi umsögn sem nú fylgir í nefndaráliti með frumvarpi til vatnalaga frá minni hluta iðnaðarnefndar — hún er hér, bara næsta blaðsíða. Mætti halda að þingmaðurinn væri farinn að lýjast úr því að hann sér ekki fram fyrir næstu síðu. Ég tel samt ástæðu til að taka sérstaklega fyrir umsögn þá er barst frá veiðimálastjóra 28. nóvember 2005 um frumvarp til vatnalaga þar sem m.a. koma fram ábendingar í fyrri umsagnir af því að málið var tekið fyrir fyrir ári síðan.

Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Borist hefur til umsagnar frumvarp til vatnalaga, 268. mál. Málið hefur áður borist til embættisins til umsagnar sem drög í febrúar síðastliðinn og var erindinu svarað með bréfi dagsettu 3. mars 2005. Í því bréfi voru gerðar athugasemdir við ýmsar greinar frumvarpsins sem enn eru í fullu gildi, þar sem lítil sem engin breyting hefur orðið á frumvarpinu frá fyrrgreindum drögum.“

Rétt er að staldra aðeins við, frú forseti. Hér er það veiðimálastjóri sem gerir athugasemd við að umsögn þeirra, eins og svo margar aðrar, hafi ekki hlotið brautargengi í iðnaðarnefnd þrátt fyrir að nú hafi menn haft annað og nýtt ár til að skoða frumvarpið, kosti þess og galla.

Áfram segir í umsögn frá veiðimálastjóra, með leyfi forseta:

„Undirrituðum hefur borist umsögn veiðifélaga til iðnaðarnefndar dagsett 27. nóvember, en þar koma fram athugasemdir sem að stórum hluta eru samhljóða þeim athugasemdum sem fram komu í áðurnefndu bréfi embættisins. Mikilvægt er að tekið verði tillit til hagsmuna í veiðimálum við endurskoðun vatnalaga og ekki fari á milli mála hvar mörk á milli lögsögu einstakra ráðuneyta og stjórnsýsluaðila liggja. Ef slíkt er ekki samræmt er hætt við því að framkvæmdaraðilar og einstaka fasteignaeigendur gangi á lagið í skjóli óljósra lagaákvæða.“

Frú forseti. Enn einu sinni, enn og aftur eru menn að benda á hnökra í vatnalagafrumvarpi og að því er mér er kunnugt hefur enn og aftur ekki verið gefinn gaumur að þeim athugasemdum. Maður veltir því fyrir sér hver sé í raun tilgangurinn að kalla eftir umsögnum og athugasemdum við frumvörp ef það er ekki til þess að auka þekkingu manna á lögum sem þeir hyggjast senda frá sér og á öllu er þeim viðkemur til að geta gert þau sem best úr garði. Það virðist vera því miður, frú forseti, eins og sá er hér stendur hefur upplifað, að þegar nefnd er að fara yfir umsagnir um frumvarp til laga læðist að manni sú hugsun að þrátt fyrir að menn kalli samviskusamlega eftir umsögnum, t.d. í félagsmálanefnd hver sé í raun tilgangurinn. Ef nefndarmenn kalla fyrir hina og þessa lærða sérfræðinga að ákveðnum málum, menn sem hafa starfað jafnvel í áratugi í undirstofnunum ráðuneyta, þeir eru til kallaðir til að gefa umsagnir, þeir eru jafnvel til kallaðir sem gestir til að upplýsa nefndarmenn um skoðun þeirra sem byggð er oft á mikilli þekkingu, þá veltir maður fyrir sér tilganginum ef nefndarmenn vilja ekki taka mark á umsögnum þeirra og athugasemdum til að bæta lagafrumvarp sem er til meðferðar. Menn sitja oft klukkustundum saman og fá mjög góðar athugasemdir og upplýsingar, fræðilegar upplýsingar úr miklum reynslubrunnum, en þrátt fyrir það virðist ekki vera tekið mark á þeim. Það virðist því miður vera svo, frú forseti, þegar maður les umsögnina sem kemur frá veiðimálastjóra 28. nóvember sl. um vatnalagafrumvarpið, að þá sé ekki tekið mark á umsögninni né heldur hafi menn gert neina tilraun til þess að bæta frumvarpið þrátt fyrir að umsögnin hafi legið fyrir í heilt ár, enda málinu þegar einu sinni verið kastað út af Alþingi.

Í umsögn frá veiðimálastjóra um vatnalagafrumvarpið segir áfram, með leyfi forseta:

„Eins og frumvarpið hljóðar er opnað mjög á framkvæmdaheimildir fasteignaeigenda í VII. kafla án þess að settir séu viðeigandi fyrirvarar um áhrif á lífríki og nauðsynlegar heimildir samkvæmt öðrum lögum. Þessu verður að breyta, þar sem mikil ásókn er t.d. í malartekju úr árfarvegum, sem oft getur leitt til óæskilegra farvegsbreytinga. Nokkuð ber jafnvel á því að slíkar framkvæmdir séu gerðar undir því yfirskini að verið sé að verjast landbroti.“

Enn og aftur, frú forseti, er ástæða til að staldra við. Veiðimálastjóri, Árni Ísaksson, gerir hér athugasemdir við frumvarp til vatnalaga hvað varðar heimildir til að grufla í árfarvegi. Því miður ekki öllum ljóst, þótt menn hafi oft heyrt máltækið „fiskur undir steini“, að í árfarvegum þar sem laxa- og silungagengd er leynast fiskar undir steini, nánar tiltekið seiði. Árfarvegurinn er uppeldisstöðin þar sem þeir liggja yfirleitt undir steinum á broti, þar sem vatnið er mjög súrefnismettað. En hér er ábending um að samkvæmt vatnalagafrumvarpinu sé heimild til að grufla í árfarvegi. Þar af leiðandi eyðileggja menn, skemma eða skaða uppeldisstöðvar laxfiska.

Áfram segir í umsögninni, frú forseti:

„Eins og vikið er að í umsögn Landssambands veiðifélaga er nauðsynlegt að skýra frekar lögsögu vatnafélaga, þegar þau starfa innan félagssvæðis veiðifélags og nauðsynlega samráðsskyldu við veiðifélagið. Veiðifélög bera ábyrgð á nýtingu fiskstofna í ám og vötnum og hluti af því verkefni er að sjá til þess að vistkerfi og búsvæði laxfiska séu í góðu horfi. Því er ekki ásættanlegt að félagsskapur, þ.e. vatnafélag, innan sama vatnakerfis geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir um vatnsveitur eða aðrar aðgerðir til að verjast ágangi vatns án samráðs við veiðifélag svæðisins.“

Frú forseti. Í þessari umsögn, eins og mörgum öðrum, eru gerðar viðamiklar athugasemdir við frumvarpið. Þrátt fyrir það virðist meiri hlutinn ekki hafa séð ástæður til að gera minnstu tilraun til að breyta frumvarpinu eða bæta það. Ég held að hv. þingmenn meiri hlutans hefðu gott af því að sitja undir ræðu minni. Ég hef komið inn á atriði sem ekki hefur verið til umfjöllunar, þ.e. fiskeldið. Að mínu viti er fiskeldi á Íslandi í algjöru uppnámi verði þetta frumvarp að lögum.

Fleiri forvitnilegar umsagnir hafa borist. Umhverfisstofnun sendi inn athyglisverða umsögn, undirstofnun umhverfisráðuneytisins. Það leiðir hugann að því sem áður hefur verið nefnt, að varðandi þetta frumvarp og kannski önnur virðist sem menn starfi hreinlega ekki saman, að ekki sé nægilegt samráð. Það virðist þannig með mörg lagafrumvörp sem skarast á milli ráðuneyta. Svo virðist sem umhverfisráðuneytið sé nánast ekki með í ráðum við samningu þessa frumvarps, a.m.k. miðað við þær harðorðu athugasemdir sem koma fram í umsögnum undirstofnana umhverfisráðuneytisins, þar á meðal Umhverfisstofnunar sjálfrar. Enn á ný virðist meiri hlutann skorta þá tækni að menn komist að sameiginlegri niðurstöðu, sérstaklega í málum þar sem frumvörp skarast milli margra ráðuneyta.

Öllum ætti að vera ljóst að Umhverfisstofnun er einhver mikilvægasta stofnun ríkisvaldsins í eftirliti með umhverfismálum. Hún á að sjálfsögðu að gera hvort tveggja, standa vörð um umhverfismál, m.a. varðandi umgengni um vatn, og að sjálfsögðu að leiðbeina löggjafarvaldinu. Miðað við umsagnir Umhverfisstofnunar virðist ekki áhugi í iðnaðarráðuneytinu eða hjá meiri hluta iðnaðarnefndar á að taka tillit til ábendinga sérfræðinga á sviði umhverfismála hjá Umhverfisstofnun. Ég ætla að leyfa mér að grípa aðeins niður í byrjun á umsögn Umhverfisstofnunar frá 1. desember á síðasta ári. Þar segir, með leyfi forseta:

„Vísað er til erindis iðnaðarnefndar frá 17. nóvember sl. þar sem óskað er eftir umsögn Umhverfisstofnunar um frumvarp til vatnalaga 268. mál.“

Frú forseti. Hér verð ég að staldra við. Ég velti því fyrir mér og spyr kannski fyrst og fremst sem nýliði: Hvernig í ósköpunum stendur á því að nefndir á vegum meiri hlutans kalla eftir umsögnum margra aðila í viku hverri allan veturinn og kalla aðila á sinn fund þegar lítið sem ekkert er gert með umsagnir þeirra? Ég tek þessar umsagnir alvarlega, frá fólki sem á að vera okkur ráðgefandi. Það er ekki hægt að ætlast til þess, ekki frekar en eiginkonan geti ætlast til að eiginmaðurinn sé fæddur iðnaðarmaður og kunni að mála, gera við bílinn, gera við rafmagnið, skipta um rúðu o.s.frv., að þingmaðurinn sé með alþekkingu. Við leitum því eftir umsögnum en ég hef upplifað það í nefndarstörfum að ekki sé nógu mikið tillit tekið til umsagna. Að því sögðu óska ég eftir að fá að lesa beint úr umsögn Umhverfisstofnunar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Líkt og iðnaðarnefnd er vel kunnugt hafa verið mjög skiptar skoðanir um nefnt frumvarp og Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun gerðu fjölmargar athugasemdir við fyrra frumvarp um sama efni er það var til umfjöllunar á Alþingi á síðasta löggjafarþingi.

Við vinnslu fyrirliggjandi frumvarps virðist nefndin sem vann drögin ekki hafa sent þau út í því skyni að leita með formlegum hætti eftir viðbrögðum annarra aðila og taka rökstudda afstöðu til innsendra athugasemda sem lagðar yrðu fyrir ráðherrann ásamt frumvarpinu.“

Frú forseti. Þarf frekari vitnanna við? Hér kvartar umsagnaraðilinn undan því sem ég hef sjálfur bent á: Til hvers eru nefndir að biðja um umsagnir ef lítið og jafnvel ekkert tillit er tekið til þeirra? Þessar umsagnir lúta að sérfræðiþekkingu viðkomandi aðila og eru að sjálfsögðu lagðar fram í þeim tilgangi að bæta löggjöfina og bæta það frumvarp er fyrir liggur.

Frú forseti. Hér segir jafnframt, svo ég lesi áfram, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun vill raunar halda því til haga að fulltrúi nefndarinnar leitað óformlega til stofnunarinnar á sínum tíma um tiltekin atriði um almannarétt er snertir vatn. Umhverfisstofnun telur það verklag, sem því miður er ekkert einsdæmi, að nefndir skili frumvarpstexta til ráðherra án þess að hafa sjálfar leitað eftir viðbrögðum með formlegum hætti úti í samfélaginu, sé mjög vandmeðfarið. Slíkt á einkanlega við þegar verið er að leggja til breytingar á löggjöf sem kann að snerta eða skarast á við verkefni sem aðrir aðilar innan stjórnsýslunnar eru að sinna. Þegar þannig háttar, og eftir að frumvarpið hefur verið lagt fram, má reikna með að umræðan um efni þess fari eingöngu fram á Alþingi. Hætt er við að umræðan verði mun harðari en hún þyrfti að vera ef ekki er búið að ræða framkvæmdar- og tækniatriði þess á fyrri stigum og sem flest sjónarmið liggja fyrir. Umhverfisstofnun telur umrætt frumvarp til vatnalaga hafa goldið þessa verklags.“

Frú forseti. Hér er nefnd hugsanleg ástæða, a.m.k. að mati þeirra hjá Umhverfisstofnun, fyrir því að umræðan hefur orðið eins hörð og raun ber vitni. Hvers vegna í ósköpunum þingmenn hafa verið settir í þá stöðu að reyna sér til málsbóta að stugga hver við öðrum. Hér kemur fram að þeir sem sömdu frumvarpið hafi ekki rætt vandlega við þá er vit hafa á og þess vegna, frú forseti, er viðbúið að umræðan verði harðari, fari hún einungis fram á Alþingi. Við höfum orðið vitni að þessu síðustu daga. Ég velti fyrir mér: Til gagns fyrir hvern? Til gagns fyrir hvern er að láta þingmenn berast á banaspjótum sökum þess að frumvarp hafi ekki verið nægilega vel unnið og ekki verið tekið tillit til allra þeirra þátta er máli skipta og ekki …

(Forseti (DrH): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort hann fari að ljúka ræðu sinni því að gert er ráð fyrir að gera kvöldverðarhlé nú klukkan hálfátta.)

Þingmaðurinn er ekki að ljúka ræðu sinni. Hvar vorum við nú aftur? Ég var, frú forseti, að ræða um vinnulagið og þau hörðu átök sem hafa orðið á Alþingi, sem Umhverfisstofnun spáði fyrir, 1. desember 2005, að yrðu ef leggja ætti fram breytingar á löggjöf án þess að málin væru vel rædd áður og undirbúin með aðstoð þeirra er gerst þekkja til. Þetta er í raun grunnurinn, ástæðan fyrir því , eins og ég sagði, að menn berast á banaspjótum. Það er sennilega engum til gagns og væri að sjálfsögðu betra ef menn ynnu saman að því að gera frumvarpið betra. Það verður að sjálfsögðu aldrei gert meðan aðaltilgangurinn, og jafnvel eini tilgangurinn, með því að koma í gegn í þessu frumvarpi er að vatn á Íslandi verði einkavætt.

(Forseti (DrH): Nú hyggst forseti gera matarhlé. Hv. þingmaður verður að gera hlé á máli sínu á meðan.)