132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:02]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf) (frh.):

Herra forseti. Við erum hér enn að ræða frumvarp til vatnalaga og ég hef í ræðu minni farið nokkuð vel yfir ýmis atriði er lúta að þeim lögum. Ég var síðast, áður en gert var hlé á þingfundi, að fara yfir umsögn Umhverfisstofnunar um frumvarpið og hér eru fleiri ágætar umsagnir. Eitt af því er vakti athygli mína við lestur á þeim er, miðað við þær ræður sem ég hef haldið, þessi stutta og snaggaralega umsögn Samorku, sem eru samtök raforku-, hita- og vatnsveitna. Þetta eru einfaldlega nokkrar setningar og aðalinntakið er að þeir gera engar efnislegar athugasemdir við frumvarpið.

Ég fór í fyrri ræðu minni nokkuð vandlega yfir mjög svo athygli verðan fyrirlestur sem maður að nafni David Hall hélt síðastliðið haust á vegum þeirra ágætu samtaka BSRB. Það var fyrirlestur sem hann hélt í framhaldi af því að hafa eytt nokkrum árum í að rannsaka ýmsa þætti almannaþjónustu, sérstaklega það er lýtur að heilbrigðiskerfi, vatni, rafmagni og öðrum grunnþáttum almannaþjónustunnar.

Mjög eðlilegt er að þessi fyrirlestur veki athygli og eins og ég hef minnst á ættu menn að bíða spenntir eftir að sá fyrirlestur komist á prent þar sem í honum er mjög vel farið yfir þá reynslu sem David Hall varð sér úti um með þessum rannsóknum, m.a. á einkavæðingu vatns. Mörg stór atriði komu þar fram sem segja má að varpi ljósi á þær áhyggjur og efasemdir sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum vegna þeirra hugleiðinga meiri hlutans að setja ný vatnalög þar sem skýrt er kveðið á um eignarrétt á vatni, þ.e. að einkavæða vatnið.

Í fyrirlestrinum er farið nákvæmlega yfir þróunina í Bretlandi, Frakklandi og víðar og tekin fyrir vatnsveitufyrirtæki sem hafa skipulega verið að færa út kvíarnar og jafnvel sneitt hjá samkeppni hvert við annað, ýmis með því að skipta með sér borgum og bæjum eða hreinlega stofna sameiginlegt dótturfyrirtæki til að geta haldið uppi háum gjöldum fyrir vatnið.

David rannsakaði þetta mjög vel og hefur greinilega farið víða. Eitt af því sem hann kom inn á og ég fór yfir var svokallaður leki þar sem kemur skýrt fram í rannsóknum hans að leki hjá einkafyrirtækjum, vatnsveitum, er 30–40%. Skyldi því engan undra að menn hafi áhyggjur af umgengni um vatnið, umgengni um þá auðlind sem vatnið er og það er þrennt sem kemur til. Það eru áhyggjur vegna umgengni og vanvirðu við þessa gífurlega miklu auðlind sem vatnið er, áhyggjur vegna þeirrar miklu gróðahyggju sem er hjá vatnsfyrirtækjum víða í Evrópu, eins og ég hef komið hér inn á, og þeirrar hræðslu manna við hvað verði í framtíðinni ef vatnið verður einkavætt. Þessi fyrirlestur sem ég hef farið yfir upplýsir okkur nokkuð vel um möguleg vandamál, um þau vandamál sem eru til staðar í kringum einkaeign á vatni. Því er vissulega ástæða til að hafa miklar áhyggjur. Jafnframt kom fram í umræddum fyrirlestri hversu mikil pólitísk átök eru um vatn víða í heiminum og ekkert óeðlilegt að tekist sé á um það hér. Við erum sem betur fer ekki búin að einkavæða en það stefnir í það, þ.e. ef frumvarp þetta nær óbreytt fram að ganga.

Ég sé ástæðu til, herra forseti, að ítreka einn kaflann í fyrrgreindum fyrirlestri. Það er pólitískt átakamál. Ég ætla að leyfa mér að renna eldsnöggt yfir hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Að lokum nokkur orð um stjórnmálin. Miðað við það sem ég nefndi áður varðandi söguna, ætti að vera augljóst að ríkisstjórnir og sveitarstjórnir eru lykilaðilar í vatnsgeiranum. Drifkrafturinn í vatnsgeiranum hefur ekki verið í höndum einkaaðila síðan á 19. öld. Í öðru lagi þá snýst þetta um pólitík, þetta er pólitískt mál þar sem pólitísk hugmyndafræði er ábyrg fyrir breyttum áherslum. Uppbygging og rekstur vatnsveitna í höndum sveitarfélaga seint á 19. öld og í upphafi þeirrar 20. helst í hendur við þróun félagshyggju þar sem sveitarstjórnum var ætlað stórt hlutverk, og tengist hugmyndinni um að almannaþjónusta sé órjúfanlegur hluti opinbera geirans. Eins er augljóst að einkavæðing síðustu 15–20 ára hefur tengst pólitískri hugmyndafræði, þeirri frjálshyggjuhugmyndafræði sem trúir því að einkavæðing sé leiðin fram á við.

Og aftur getur maður séð viðbrögð við þeirri þróun, sem byggist á hugmyndafræði. Í löndum eins og Hollandi og Úrúgvæ hafa verið sett lög eða ákvæði í stjórnarskrá til að vernda vatnsauðlindina og vatnsveitur frá einkageiranum. Þarna er greinilega á ferðinni hugmyndafræði þess efnis að vatn sé í almannaeigu, það sé almannagæði og eigi því ekki að ganga kaupum og sölum á almennum markaði eins og hver önnur vara.

Eitt er augljóst og ber að nefna í þessu sambandi, en það er að um heim allan er einkavæðing vatns óvinsæl. Undanfarin ár höfum við tekið eftir skipulagðri baráttu um allan heim. Ég get nefnt dæmi um þrjár herferðir í Evrópu síðastliðin tvö ár, þar sem ég hef verið beðinn um að tala. Ein var á Spáni, þar sem fjöldi borga hefur bundist í sístækkandi bandalag með það að markmiði að berjast gegn einkavæðingu á vatni. Önnur var í Hamborg, þar sem reis upp mótmælaalda fyrir ári, þegar upp kom tillaga um einkavæðingu á mjög vel reknu og afkastamiklu vatnsfyrirtæki þar. Þar hófst barátta fyrir allsherjaratkvæðagreiðslu í borginni um málið, en til að krefjast slíkrar atkvæðagreiðslu þurfti að safna 25 þúsund undirskriftum. Það takmark náðist á aðeins tíu dögum og borgarstjórn Hamborgar dró tillögu sína um einkavæðingu umyrðalaust til baka. Þriðja dæmið sem ég nefni kemur frá Norður-Írlandi þar sem breska ríkisstjórnin hefur lagt fram hugmyndir um að markaðsvæða vatnið, með það að markmiði að einkavæða það í náinni framtíð. Þar er hins vegar nánast einhuga andstaða allra gegn tillögunum. Við ættum að hafa í huga að stjórnmál á Norður-Írlandi eru ekki eðlileg og skiptast oftast eftir trúarbrögðum. Ég fór á fund í Belfast fyrir tveimur árum og sat við borð með fulltrúum baráttunnar gegn einkavæðingu vatns. Þarna var litríkur hópur saman kominn, þarna voru fulltrúar stéttarfélaga, neytendasamtaka, hverfasamtaka og þriggja stjórnmálaflokka, Sambandsflokksins (the Alliance Party) sem er miðjuflokkur, Sinn Fein, sem er eins og allir vita þjóðernissinnaður flokkur, og DUP, the Democratic Unionist Party sem er öfgafyllsti mótmælendaflokkurinn. Sinn Fein og DUP neituðu alfarið á þessum tíma að sitja við sama borð í þinginu eða á nokkrum öðrum vettvangi, en þegar kom að einkavæðingu vatns gátu þessir aðilar setið við sama borð. Þetta er málefni hlaðið tilfinningum.“

Þetta er akkúrat kjarni málsins, herra forseti. Þegar kemur að svo stórum hlut eins og þeim að ætla að einkavæða vatnið sem er eitt nauðsynlegasta efni fyrir mannskepnuna til að halda lífi og sem er jafnframt nauðsynlegt á margan hátt, m.a. fyrir atvinnuvegi þá er mjög eðlilegt, eins og hér hefur komið fram, að hópar rísi upp og mótmæli slíkum áætlunum. Menn velta fyrir sér tilganginum, við höfum gert það hér í dag og við höfum gert það síðustu daga, hvað vaki fyrir mönnum. Hér hefur verið sagt að einungis sé um formbreytingu á lögum að ræða en þetta virkar þrátt fyrir það sem efnisbreyting og að sjálfsögðu er það þar sem hnífurinn stendur í kúnni því að menn eru ekki ásáttir á hinu háa Alþingi að gengið sé svo langt varðandi vatnið að ætla sér hreinlega að einkavæða það.

Eins og ég hef nefnt áður er skortur á vatni víða í heiminum og þrátt fyrir að sums staðar sé vatn þá er ekki um hreint vatn að ræða. Það er í sjálfu sér ósköp eðlilegt að almenningur skuli ekki að velta því fyrir sér dagsdaglega hvort nægt vatn sé til á morgun, hvað þá hvort allt í einu þurfi að kaupa það fyrir of fjár af náunganum sem löggjafarvaldið hafi tekið þá ákvörðun að skuli eiga það. Vitað er að meira en milljarður manna eða einn sjötti hluti mannkyns hefur takmarkaðan aðgang að hreinu drykkjarvatni og enn fleiri skortir vatn til hreinlætis. Þeim mun fjölga sem lenda í þessum aðstæðum og gæti jafnvel fjölgað á Vesturlöndum sem núna eru auðug af vatni. Markaðurinn hrekkur af stað ef hann áttar sig á að skortur er á vörum og reynir þá að sinna eftirspurn. En vatnið er nú eitthvað annað og meira en vara. Það er í raun ekki á nokkurn hátt verslunarvara. Það er lífsnauðsynlegt efni fyrir okkur öll.

Eins og ég hef komið hér inn á hefur það því miður verið þannig að ekki er hugsað um hag heildarinnar þegar vatn er einkavætt og fyrirtæki komast inn á það svið. Því miður er hugsað um hag þeirra sem eiga eignina og hvernig þeir geti hagnast sem mest.

Eins og ég nefndi hér í dag sýna rannsóknir skýrt svo ekki verður um villst að reynsla af einkavæðingu vatns er yfirleitt slæm. Samkeppni er fyrir borð borin. Fyrirtækin sameinast því miður um samráð og hlíta þar auknum arðsemiskröfum eins og víða tíðkast í þeim harða og hraða heimi sem við lifum nú í.

Ég hef líka farið yfir það að menn hafa tekið upp á því að rísa upp gegn hugmyndum um einkaleyfi á vatni og einkavæðingu og þrátt fyrir að Íslendingar séu enn í dag friðsöm þjóð þá skyldu menn ekki vanmeta gömlu víkingana.

Ég hef rakið hversu illa hagsmunir einkafyrirtækja og almennings virðast fara saman þegar kemur að vatninu, vatnsauðlindinni. Ef þeir færu ekki svona illa saman væri væntanlega búið að einkavæða þetta í mörgum löndum. En eins og ég kom hér skýrt og greinilega inn á þá hafa bæði í Hollandi og í Úrúgvæ verið sett lög til að koma í veg fyrir að hægt sé að einkavæða vatnið. Þar hafa verið sett sérstök ákvæði í stjórnarskrá og er þar að sjálfsögðu tekið mið af slæmri reynslu.

Herra forseti. Það kemur að því að menn átta sig væntanlega í þessari umræðu að meiri hlutinn fer, því miður, villur vegar að ætla, með því sem sumir hafa nefnt ofbeldi — ég vil ekki taka svo sterkt til orða — að troða þessu vatnalagafrumvarpi hreinlega hér í gegn. Það mun að sjálfsögðu seint fást samþykki fyrir því. Ég undra mig á því að þrátt fyrir allar þær góðu umsagnir sem ég hef m.a. farið hér yfir skuli menn ekki hafa séð ástæðu til að gera breytingar eða bætur á frumvarpinu eða hreinlega algjörlega draga það til baka. Það gæti í sjálfu sér enn þá gerst.

Eitt af því sem ég hef farið hér yfir er allur sá fjöldi frumvarpa sem ráðuneytin hafa lagt fram og viðkoma vatni, þ.e. frumvarp til laga um Veiðimálastofnun, frumvarp til laga um eldi vatnafiska, frumvarp til laga um fiskrækt, frumvarpið um vatnalögin og varnir gegn fisksjúkdómum. Öll nálgast þessi frumvörp hvert annað. Þau skarast og að sjálfsögðu á að skoða þau í samhengi til að koma í veg fyrir frekari átök í framtíðinni sem mjög líklega munu verða ef þetta frumvarp verður að lögum.

Hér hafa verið raktar ýmsar ástæður fyrir því að þetta frumvarp er lagt fram. Hér hefur verið lögð hörð áhersla á að einungis sé um formbreytingu að ræða og auk þess að svona hálfgerð sé tiltekt í gangi, að verið sé að laga rúmlega áttatíu ára gömul lög. Þrátt fyrir það rekur eitthvað menn til þess að reyna að troða þessu í gegnum þingið og láta þingmenn nánast berast á banaspjót í rökræðum um þetta frumvarp og finnst mér ákaflega slæmt, herra forseti, að okkur skuli sköpuð þannig vinnuskilyrði. Hér eiga eftir að koma fram fleiri frumvörp, eins og ég hef minnst á, sem munu skarast á við þetta og er því enn frekari ástæða til að bíða og lesa þau saman.

Við höfum komið á framfæri þeim sjónarmiðum að menn séu gjörsamlega á móti einkavæðingu vatns. Jafnframt höfum við bent hér á að undirstofnanir eins og Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun höfðu margt við þetta mál að athuga. Athyglisverðastar þóttu mér þær ábendingar að málið hefði ekki verið nægilega rætt af öllum viðkomandi, þ.e. innan ráðuneytis, ráðuneytanna, milli ráðuneyta og innan stofnana. Það veldur því, eins og ég hef bent á, að umræðan fer þá að mestu leyti fram í sölum Alþingis sem veldur því að hún verður löng og hörð og ég held að það sé ekki til eftirbreytni.

Við höfum jafnframt bent á að Samband íslenskra sveitarfélaga lagðist á sínum tíma gegn samþykkt þessa frumvarps. Fyrir því voru tilteknar tvær meginástæður, annars vegar möguleikar sveitarfélaga til eignarnáms. Að vísu hefur verið komið til móts við þær athugasemdir. En jafnframt benti sambandið á að ákvæði frumvarpsins skerða verulega rétt sveitarfélaga til að nálgast vatn í löndum annarra sveitarfélaga. Að vísu hefur meiri hlutinn ákveðið að flytja breytingartillögu til að færa þeim sambærilegan rétt. Þá er þetta nú nánast allt upp talið. Samt er athyglisvert að síðast þegar þetta mál kom fyrir þingið vildi meiri hluti iðnaðarnefndar alls ekki taka við þessum ábendingum og gera breytingar í þá átt. Einhverra hluta vegna hefur það síast í gegn núna.

Við höfum jafnframt bent á hið mikla hlutverk Orkustofnunar við framkvæmd og eftirlit ef frumvarp þetta verður að lögum þrátt fyrir að rétt ein eða tvær greinar fjalli beinlínis um orkunýtingu. Við höfum gert athugasemd við stjórnsýsluþáttinn og fleiri athugasemdir. Og eins og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans þá leggur minni hluti iðnaðarnefndar einungis til að frumvarpinu verði vísað frá. Ekki er hægt að segja að nein pólitísk sátt sé um það mál sem hér er á ferðinni, þ.e. eins og það lítur út í dag alla vega, og ég hef grun um að það eigi við um fleiri staði en akkúrat þennan þingsal.

Ég hef eins og fleiri gert athugasemdir varðandi 3. gr. þar sem vegið er að landbúnaði. Gert er ráð fyrir að breyta skilgreiningu á búsþörfum í 3. gr. Eins og ég hef áður komið inn á eru búsþarfir skilgreindar þrengra en í þeim lögum sem nú eru gildi. Í lagafrumvarpinu koma einungis fram búsþarfir til kvikfjárræktar en af einhverjum ástæðum hafa menn ákveðið að kippa út ylrækt, fiskeldi og þá væntanlega plönturækt og grænmetisrækt. Af einhverjum ástæðum sem hafa ekki verið upplýstar, það er ein útskýringin sem er að finna í sjálfu frumvarpinu, herra forseti, er í athugasemdum þar sem rætt er um búsþarfir. Hér segir, með leyfi forseta: „… þykir nauðsynlegt að árétta að mörk búsþarfa miðast við kvikfjárrækt. Ástæða þess er sú að kvikfjárrækt er hinn hefðbundni landbúnaður þjóðarinnar. Nú á dögum nýta menn einnig lönd jarða sinna til garðávaxtaræktar, skógræktar, ylræktar, fiskeldis“. Þetta er svolítið sérstakt. Menn kippa út ýmsum tegundum landbúnaðar, þ.e. garðávaxtaræktar, skógræktar, ylræktar og fiskeldis.

Ég sé í raun engar haldbærar skýringar hér. Ég hef heldur ekki heyrt þær í umræðum á þingi. Ég hlýt því að spyrja hvað býr að baki. Ég get ekki annað séð, herra forseti, en að miðað við þetta lagafrumvarp, fari það óbreytt í gegn, sé fiskeldi á Íslandi hreinlega í uppnámi. Það er hlutur sem þarf að fara sérstaklega vel yfir. Menn geta ekki hafa ætlað sér að setja fiskeldi í eitthvert uppnám nú til dags.

Ég held ég láti það verða lokaorð mín, herra forseti, að ég hef miklar áhyggjur af vatninu þegar kemur að fiskeldi og fiskrækt. Ég mundi vilja fá að vita hjá ráðherra eða nefndarmönnum, þó síðar verði í umræðunni, nánari skilgreiningu á hvað vakir fyrir mönnum. Af hverju eru þessir þættir í landbúnaði nánast skildir eftir á köldum klaka.

Herra forseti. Að því sögðu læt ég lokið máli mínu um vatnalög í bili. Að sjálfsögðu þarf að fara yfir fleiri gögn og ég hafði hugsað mér að nálgast þau í seinni ræðu, sem ég veit ekki alveg hvenær verður. Eins og komið hefur fram er dagskráin í nokkru uppnámi. Það væri kannski fróðlegt að vita, herra forseti, hvort það sé á hreinu hvernig dagskránni verður hagað á morgun?

(Forseti (BÁ): Forseti telur of snemmt að segja til um það. Ætlunin er að halda áfram fundi fram eftir kvöldi og svo verður staðan metin. En ætlunin er að vatnalög verði á dagskrá á morgun.)

Eins og margoft hefur komið fram er dagskráin komin úr skorðum. Það er hryggilegt, herra forseti, að ekki skuli hægt að halda dagskrá eins og áður hefur verið boðað. Á morgun átti m.a. að vera fyrirspurnatími þar sem margar fyrirspurnir liggja og hafa legið lengi. Þar á meðal eru nokkrar til hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi starfsréttindi áfengisráðgjafa og fleira. Þar eru fyrirspurnir sem hafa beðið lengi en væntanlega fer að koma að því að þessari umræðu ljúki.