132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[23:31]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Sannarlega er það rétt hjá hæstv. forseta að ég hef brýna þörf fyrir að taka til máls, einmitt um fundarstjórn forseta. Ég tel að þegar maður horfi til þess að við höfum verið hér lengi dags við að ræða þetta mál sé nú mál að linni. Mér er ekki síst umhugað um velferð vina minna, hv. þingmanna stjórnarliðsins. Þeir hafa mjög kvartað undan þessum ræðum og það er bersýnilegt að þeir eru að niðurlotum komnir vegna þess að þrátt fyrir að þessir hv. þingmenn hafi stundum kvartað undan því að ekki séu flutt nægilega sterk rök fyrir andmælum okkar, stjórnarandstæðinga, gegn þessu frumvarpi láta þeir ekki sjá sig. Það er makalaust, frú forseti, að enginn þingmaður úr liði hv. stjórnarliða láti sjá sig við þessa umræðu.

Ég man ekki betur, frú forseti, en að einn hv. þingmaður, Pétur Blöndal, hafi greint frá því að hann hafi mjög sterka löngun til að fá að hlýða áfram á mál stjórnarandstöðunnar um þetta. Ég sé ekki þennan þingmann. Ég sé ekki hv. þm. Birki Jón Jónsson, formann iðnaðarnefndar, sem töluvert hefur komið við sögu þingsins síðustu daga og ekki kannski endilega með þeim hætti sem ég tel verða til eftirbreytni. Ég ætla þó að láta það liggja á milli hluta þar sem hv. þingmaður er sennilega kominn í sæng sína og sofnaður einhvers staðar, a.m.k. sést hann hvergi hér.

Þá vildi ég taka undir þær spurningar sem hv. þingmenn sem hafa tekið til máls á undan mér hafa varpað til hæstv. forseta: Hvernig hyggst forseti haga þinghaldi núna þegar nánast er komið miðnætti? Við höfum verið hér dögum saman, að vísu með einum degi í milli, við að ræða þetta mál. Það er alveg ljóst, frú forseti, að ekki ríkir mikill friður um þinghaldið núna. Ég verð að trúa hæstv. forseta fyrir þeirri skoðun minni að það sé ekki síst vegna þess sem mér finnst vera fullmikil harðneskja af hálfu þeirra sem stýra þinginu, ég er þá að tala um hæstv. aðalforseta þessa þings, og ekki síst hvernig þeir hafa knúið fram með nokkurri hörku fundi dag eftir dag, kvöld eftir kvöld, í andstöðu við þær starfsáætlanir sem hæstv. forseti hefur lagt fyrir þingið. Þetta eru ekki vinnubrögð sem mér þykja góð og það hefur mörgum sinnum komið fram en það er a.m.k. lágmark að þingmenn viti af því hversu lengi eigi að stunda þingstörf hér.

Ég verð, frú forseti, að viðurkenna það að hjarta mitt fyllist átakanlegri gleði við að sjá hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson sem bersýnilega hefur (Forseti hringir.) annaðhvort risið úr rekkju eða úr sæti sínu. Hann er mættur og til hamingju með það, hv. þingmaður.