132. löggjafarþing — 85. fundur,  14. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[23:35]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig, eins og aðra þingmenn sem sitjum hér fram á kvöld, fýsir mjög að vita hvenær þessum þingfundi muni ljúka. Ég furða mig í raun á því hvers vegna hann standi enn þá vegna þess að ég hef það fyrir satt að hæstv. forsætisráðherra sé í ráðum um það að lenda þessu máli en hann á eitthvað erfitt með það. Það virðist vera mjög mikið hjartans mál fyrir Framsóknarflokkinn að koma á þessari einkavæðingu á vatni og það virðist þá vera í takt við önnur stjórnarverk hæstv. forsætisráðherra á umliðnum árum. Ég hef verið að furða mig á þessu, hvernig Framsóknarflokkurinn hefur notað sér valdastöðu sína til að komast yfir ýmsar eigur þjóðarinnar. Ég hef reynt að leita að kjarna stefnu Framsóknarflokksins, í því augnamiði kynnt mér bókina Samvinnuhreyfingin í sögu Íslands og reynt að átta mig á því hvað hæstv. forsætisráðherra gangi til með því að halda stíft við þinghaldið og reyna að komast yfir vatnið í leiðinni.

Hér er ágæt grein, Samvinnuhugsjónin, og mér fyndist í rauninni ekki annað en sanngjarnt að hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem er mikill framsóknarmaður margar ættir aftur í tímann útskýrði í rauninni hvað Framsóknarflokknum gengi til, hvað í ósköpunum þetta frumvarp sem er verið að neyða þingið til að ræða fram á nótt hvað eftir annað komi yfirleitt stefnumiðum Framsóknarflokksins við. Að vísu, ef maður skoðar hvernig hæstv. forsætisráðherra hefur hagað málum sínum og stjórnarathöfnum á undanförnum árum sér maður þetta en ef maður skoðar hvernig þetta frumvarp kemur stefnumiðum Framsóknarflokksins við, ég tala nú ekki um samvinnuhugsjóninni, gengur það ekki upp. Það kemur fram í ágætri grein um samvinnuhugsjónina að hún sé einmitt eitthvert mótvægi við kapítalismann en hér virðist allt ganga út á það að færa ekki einungis fiskinn í sjónum til réttra aðila og bankana til S-hópsins heldur á nú að færa þeim vatnið í ofanálag. Mér finnst fullmikið í lagt að hæstv. forsætisráðherra skuli halda heilu þjóðþingi í þessum störfum fram á nætur og geta síðan ekki sagt frá því hvenær þingfundum eigi að ljúka.

Það er allt í lagi ef hæstv. forsætisráðherra er að einhverju leyti að ná sér niðri á þingmönnum, ég veit það ekki, en hér eru aðrir en einungis pólitískir andstæðingar að vinna vinnuna sína. Það er almennt starfsfólk þingsins sem mér finnst að stjórn þingsins ætti að taka tillit til að einhverju leyti.