132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[12:03]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í gærkvöldi náðist samkomulag um meðferð vatnalagafrumvarpsins á hv. Alþingi og ég vil segja það að mér finnst mikilvægt að þingflokkar geti náð slíku samkomulagi þrátt fyrir efnislegan ágreining sem vissulega er í þessu máli. Ég mun nú lesa yfir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tilefni af samkomulaginu, með leyfi forseta:

„Náðst hefur samkomulag milli allra þingflokka um framvindu frumvarps til nýrra vatnalaga. Samkomulagið felur í sér að iðnaðarráðherra mun, þegar frumvarpið hefur verið samþykkt, skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka, auk eins fulltrúa sem tilnefndur skal af umhverfisráðherra og formanns sem skipaður skal án tilnefningar. Skal nefnd þessi taka til skoðunar samræmi laga þessara við önnur þau lagaákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varða, þar á meðal fyrirhugað frumvarp umhverfisráðherra til vatnsverndarlaga, sem byggjast mun að stofni til á tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2000, nr. 60, og fyrirhugað frumvarp iðnaðarráðherra til laga um jarðrænar auðlindir.

Í starfi sínu skal nefndin einnig hafa til hliðsjónar tillögur nefndar iðnaðarráðherra, sem skipuð er á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, svo sem þeim hefur verið breytt á yfirstandandi þingi. Nefndin skal skila áliti sínu eigi síðar en 1. október 2006.

Þá hefur verið ákveðið að gildistöku nýrra vatnalaga verði frestað fram til 1. nóvember 2007.“

Þá hef ég farið yfir það sem samkomulag varð um í gærkvöldi.