132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[12:29]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi Kárahnjúkavirkjun. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að um hana gilda sérlög. Hins vegar er það mat þeirra sem hafa verið að fjalla um þetta frumvarp síðustu daga að eignarnámsákvæði þessa frumvarps komi til með að verða í gildi eða gilda um það eignarnám sem á eftir að fara fram vegna Kárahnjúkavirkjunar, ef þessi lög — nú vitum við að búið er að fresta gildistöku þeirra — en ef þau hefðu haft gildistöku eins og gert var ráð fyrir þá hefði eignarnámið sem fram undan er í kringum Lagarfljót og Jökulsá í Fljótsdal farið samkvæmt þessum lögum og það er talin hafa verið ein af ástæðunum fyrir því að þrýstingur ríkisstjórnarinnar var jafnmikill og raun bar vitni. En það er vegna þess að eignarnámsákvæðin í þessum lögum eru miklu ítarlegri og allt önnur en í þeim lögum sem við búum við núna. Þess vegna tel ég að það sé alveg gilt að þessi tenging sé til staðar.

Varðandi hækkun á verði jarða og ásælni í jarðir. Ásælni í jarðir er tvíeggjuð að mínu mati, frú forseti. Sem dæmi um það getum við tekið litla sögu frá Portúgal. Portúgalir, sem hafa talist til fátækustu landa Evrópusambandsins, hafa lent í því að appelsínuræktun þeirra sem var gríðarlega mikil á sínum tíma, allt fram á síðasta áratug, heyrir eiginlega sögunni til vegna þess að það er miklu ódýrara að rækta appelsínurnar á Spáni þannig að nú er áhersla á að rækta appelsínur á Spáni en ekki í Portúgal. Þá segja Portúgalir: En hvað eigum við að gera? Við þurfum líka að hafa eitthvað til að selja. Þá segir Evrópusambandið: Ja, þið eigið svo mikið jarðnæði. Seljið þið landið ykkar, fátæku bændur í Portúgal. Portúgalskir bændur eru ekkert ánægðir með það. Landið er þeim dýrmætt tákn sem þeir vilja ekki selja jafnvel þótt þeir séu fátækir, þannig að þetta er aldeilis tvíeggjað. Það sem ég sagði var: Það er farið að bera á ásælni í vatnsauðlindina og ég spyr: Skyldi það vera vegna þess að menn telja vatn verða olíu 21. aldarinnar? Það skyldi þó ekki vera.