132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[12:31]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef Alþingi setur lög sem skerða á einhvern hátt eign manna segir stjórnarskráin að það eigi að bæta það. Ef þessi lög breyta einhverju um hag bænda út af eignarnámi á að bæta það þannig að dómstólar hljóta að fara að gildandi lögum þegar atburðurinn varð, sem er ákvörðunin um að virkja við Kárahnjúka, en ekki lögum sem Alþingi setur síðar og breyta réttarstöðunni á einhvern máta. Ég næ ekki þessari lögfræði.

Svo varðandi bændurna og hvort þessi lög hækki eða lækki verð á jörðum — hv. þingmaður svaraði því ekki og ég spyr hana því aftur, og bara sem fulltrúa Vinstri grænna hérna sem eiga dálítið fylgi meðal bænda, hvort hún telji að samþykkt þessara laga hækki verð á jörðum eða lækki það. Telur hún að ef það skyldi hækka það — og ég tel reyndar að hafi það einhver áhrif hækki það verð á jörðum — slæmt fyrir fátæka bændur þessa lands að jarðir þeirra hækki í verði?