132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[12:56]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Mér sýnist takturinn í umræðunni í dag vera með þeim hætti að menn ætli að fara málefnalega yfir málið og er það vel. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hún væri ósammála 15. gr. frumvarpsins sem ber yfirskriftina „Forgangur að vatni“, en þar segir, með leyfi forseta :

„Vatnstaka til heimilis- og búsþarfa gengur fyrir annarri vatnsnýtingu. Heimilisþörf gengur fyrir búsþörf.

Heimilt er fasteignareiganda að sækja sér vatn til heimilis- og búsþarfa á aðra fasteign ef eiganda þeirrar fasteignar verður ekki óhæfilegur bagi að enda sé slík vatnstaka á eigin fasteign ómöguleg eða til muna erfiðari. Þegar svo hagar til getur eigandi þeirrar fasteignar sem vatn er tekið úr krafist bóta, þar með talið fyrir tjón og óþægindi sem framkvæmdin bakar honum. Náist ekki samkomulag með aðilum um bætur skulu þær ákveðnar með eignarnámsmati.

Sveitarfélag skal hafa forgangsrétt til töku vatns til vatnsveitu innan sveitarfélags á eftir heimilis- og búsþörfum fasteignareigenda. Um vatnsveitur sveitarfélaga fer samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga.

Nái sveitarfélag ekki samkomulagi við fasteignareiganda um töku vatns í landi hans til vatnsveitu, eða um önnur atriði sem nauðsynleg má telja í því sambandi, getur iðnaðarráðherra heimilað að nauðsynlegt land, mannvirki og aðstaða til nýtingar og töku vatnsins og lagningar vatnsveitu, sem og önnur réttindi fasteignareiganda, verði tekin eignarnámi.“

Virðulegi forseti. Ég er með þá spurningu hvort hv. þingmaður sé sammála því sem þarna kemur fram sem er ansi skýrt og vísar í forgang að vatni.