132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[12:59]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög gott að hér komi skýrt fram hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, að ekki sé ágreiningur um þetta. Ég vona að þeir fjölmiðlamenn sem hér eru að fylgjast með taki eftir því vegna þess að í umræðunni hefur verið látið að því liggja að nú sé bara þannig komið fyrir Íslendingum, ef þetta frumvarp verður samþykkt, að fái menn sér að drekka úr fjallalæk komi einhver landeigandi hlaupandi og rukki þá. Hér er látið að því liggja að hér sé talað um einhverja stórkostlega breytingu varðandi þá hagi sem við erum með núna.

Svo er ekki. Og það vita menn. Ég er ánægður með það svar hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að þegar kemur að þessum grundvallaratriðum erum við alveg sammála. Samfylkingin er alveg sammála þessari grein um forgang vatns sem er grundvallaratriði í þessu máli öllu saman.