132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:00]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir þakkir til hv. ræðumanns fyrir málefnalega ræðu og stutta. Hún kom inn á mörg atriði. Ég vil taka það fram í byrjun að ég tel að þetta frumvarp sé formbreyting en ekki efnisbreyting, þannig að það sé alveg á hreinu.

Hv. þingmaður segir að lögin þurfi endurskoðunar við og nú er búið að vinna að endurskoðun í fjölda ára og þetta frumvarp er lagt fram í annað skipti, að ég tel. Ég vil því spyrja: Telur hv. þingmaður að ekki sé komið nóg? Telur hv. þingmaður að hv. iðnaðarnefnd hafi ekki fjallað nægilega um málið?

Þá langar mig og að spyrja hv. þingmann: Þegar þjóðlendurnar voru samþykktar, og fjármálaráðherra bar að gera kröfur fyrir hönd ríkisins í þjóðlendur, gerði hann að sjálfsögðu ýtrustu kröfur, færði mörkin eins langt út og hann gat. Það er eðlilegt því hann gat ekki annað en bakkað. Þá man ég ekki betur en Samfylkingin hafi ályktað gegn því og sagt að hann færi offari í því að gera kröfur á hendur landeigendum. Samfylkingin vildi þá að bændur fengju stærra land, fengju meiri einkarétt, það yrði minni sameign, og meira vatn því það er álit flestra lögspekinga að bændur eignist þá vatnið sem fylgdi þessum jörðum, sem voru þarna á mörkunum á milli þjóðlendna og einkalands — það er að sjálfsögðu þá alla vega nýtingarréttur og samkvæmt lögspekingum líka réttur. Nú er spurningin: Hvort vill Samfylkingin að bændur fái meira vatn eða minna vatn?