132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:03]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru engin stór sannindi eða gríðarleg pólitísk yfirlýsing af minni hálfu þó að ég segi það hér að ég geti á það fallist að 80 ára gömul lög þurfi kannski endurskoðunar við í einhverjum atriðum. Ég er þeirrar skoðunar, lögin eru barn síns tíma. En ég tel að þau séu merkileg, þetta eru gríðarlega merkileg lög sem hafa staðist vel tímans tönn, enda, virðulegi forseti, byggja þessi lög á pólitískri sátt sem náðist í þessum málum eftir miklar deilur í landinu um fossamál og eignar- og nýtingarréttindi á vatni.

Vatn hefur alltaf verið umdeilt mál og vatn hefur alltaf verið mjög pólitískt mál. Það sem hefur hins vegar gerst með það frumvarp sem hér liggur fyrir, það er rétt að það er búið að vera lengi í undirbúningi, það hafa komið að því ýmsir lögspekingar. En það hefur ekki verið nein pólitísk aðkoma að samningu þessa frumvarps og frumvarpið byggist þar af leiðandi á pólitískum viðhorfum sem við í Samfylkingunni erum ekki sammála. Við erum ekki sammála þeim pólitísku viðhorfum og við sættum okkur ekki við það að menn taki auðlindamál eins og þetta, þetta er auðlindamál, og feli það bara einhverjum lögspekingum og ætlist til að þetta sé eitthvert lagatæknilegt úrlausnarefni. Þetta er pólitískt úrlausnarefni og þess vegna byggist frumvarpið á viðhorfum sem við erum ekki sammála.

Varðandi þjóðlendumálin man ég ekki betur en þingmenn Samfylkingarinnar, allir sem einn, hafi stutt þjóðlendulögin þegar þau voru sett. Það kann vel að vera að það séu einhverjar mismunandi skoðanir uppi um það hvernig setja eigi fram kröfur í einstökum málum en þjóðlendulögin studdu þingmenn Samfylkingarinnar, virðulegur þingmaður.