132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef margoft lýst því hvaða markmið menn eigi að setja sér við endurskoðun laganna frá 1923. Ég tel að það eigi að losa um þau einkaréttarákvæði sem þar er að finna. Þau ákvæði er fyrst og fremst að finna í nýtingarrétti og ég tel að þau séu of sterk enda urðu þau sjónarmið of rík að mínu mati í lögunum frá 1923. Ég hefði viljað að meirihlutaálit fossanefndarinnar hefði verið meira ráðandi í lögunum og ef við viljum svara kalli tímans, dagsins í dag, þá förum við þá leið. Þá aukum við almannaréttinn en drögum úr einkaeignarréttinum. Það eru þau markmið sem ég vil setja mér við endurskoðun þessara laga. En ég lít svo á að með þessum lögum sé verið að festa einkaeignarrétt í sessi.