132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:34]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina. Hann talaði mjög skýrt í þessu andsvari og það liggur þá fyrir nema af því að nú er samstaða milli stjórnarandstöðunnar að þeir eru hér að tala, þ.e. hv. stjórnarandstaða, um að þjóðnýta vatnið, losa um þau eignarréttindi sem eru til staðar. Það gat ekki verið neitt skýrara. Þetta er auðvitað mikil frétt fyrir þá aðila sem eiga land (KÓ: Hvar eru fréttamennirnir?) til sjávar og sveita, því hér kom þetta skýrt fram og ég tek undir með hv. þingmanni sem talaði úti í sal: Hvar eru fréttamennirnir? Nú vitum við út á hvað þetta mál gengur hreint og klárt.

Að vísu er það þannig að það er ríkið og sveitarfélögin sem eiga kannski stærstan hluta, ekki allt saman en langstærsta hlutann af vatninu og við sem höfum starfað að þjóðmálum þekkjum að þannig er þeim málum fyrir komið. Ég var með nokkrar spurningar sem ég ætlaði að hafa í ræðunni en ég veit ekki hvað maður á að koma með eftir þetta annað en þakklæti fyrir hreinskilnina og það er gott að vita af því að hér sé hv. stjórnarandstöðuþingmaður sem tali svona skýrt því þetta hefur verið mjög loðið. Menn hafa átt erfitt með að átta sig á út á hvað þetta gengi því það liggur alveg fyrir að það er ekki breyting á eignarréttindunum miðað við frumvarpið sem er til staðar frá 1923. Það liggur alveg hreint og klárt fyrir. En hér kemur loksins stjórnarandstöðuþingmaður sem segir bara hreint og klárt: Ég vil þjóðnýta þetta. Þess vegna er ég á móti þessu og það hefur verið alger samstaða meðal stjórnarandstöðunnar og þetta er frétt dagsins. Stjórnarandstaðan vill þjóðnýta vatnið.