132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:41]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur átt sér stað mikil umræða um vatnalögin undangengna daga og það má líkja þeirri umræðu við storm í vatnsglasi þar sem niðurstaðan er nánast engin. Menn hafa farið yfir þetta fram og til baka og eytt gríðarlegum tíma í umræðu um lögin en það hefur engin niðurstaða orðið nema þá kannski helst áðan og þá er talað um vatnaskil, þ.e. þegar vatnið rennur til sitt hvorrar handar ef svo má að orði komast. Þau urðu áðan þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði það hreinlega að hann vildi þjóðnýta vatnið. Það segir sig sjálft í raun og sannleika að sá flokkur, Vinstri grænir, þeir vilja ekki háeffa ríkisstofnanir, þeir vilja ekki selja fyrirtæki sem ríkið á, þeir vilja þjóðnýta allt hér á landi og þess vegna eru vatnaskilin í umræðunni milli hægri og vinstri aflanna í þessu þjóðfélagi, hvort við viljum fara þá leið að þjóðnýta fyrirtæki, auðlindir og annað sem er í þessu landi eða hafa um það lög þar sem hin frjálsu öfl fá að ráða ferðinni.

Ég hef eina spurningu til hv. þingmanns sem fær nú hvísl frá Samfylkingunni, aðstoð sér til svara og ekki veitir af. Það er búið að samhnýta þau öfl svo vel saman í þessari umræðu en mig langar að biðja hv. þingmann að skýra út hvað hann meinar raunverulega með einkavæðingu vatnsins. Við vitum hvað er einkavæðing fyrirtækja, en vatnsins, þessa efnis sem við þekkjum svo vel, hver er einkavæðingin? Þetta er þvílíkur útúrsnúningur að það er með ólíkindum. Við erum að tala um þjóðnýtingu, eins og hv. þingmaður hefur sagt. Það er það sem hann vill, bæði á ríkisfyrirtækjum og öðru.