132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[13:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvort ég vilji að ríkið taki yfir Gvendarbrunna, nei, ég hef engan sérstakan áhuga á því. Ég lít á sveitarfélögin (Gripið fram í: Nú?) og ríkið … (Gripið fram í.)

Mikið óskaplega er þetta ómálefnaleg umræða. En það er eitt fróðlegt við þetta. Kannski hefur verið ósanngjarnt af okkar hálfu, að beina sjónum okkar einkum að Framsóknarflokknum sem hefur vissulega staðið í fyrirsvari fyrir þessi frumvörp, að hafa ekki íhaldið með í umræðunni. En nú koma þeir, ungarnir undan ungamömmu og tjá sig, vitandi vits að umræðan er senn á enda. Þá koma þeir með innlegg af þessu tagi.

Aðeins eitt, hæstv. forseti. Að við viljum þjóðnýta allt. Slagurinn stendur um allt annað, hið gagnstæða. Við viljum koma í veg fyrir háeffvæðingu, hlutafélagavæðingu á Ríkisútvarpinu, á Flugmálastjórn, á Rarik, á hverri stofnuninni á fætur annarri sem kemur inn á borð Alþingis, á færibandi einkavæðingar á vegum ríkisstjórnarinnar.