132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:26]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Við erum svona … (Gripið fram í.) Mætti ég biðja hv. þm. Jón Bjarnason að tefja ekki tímann sem ég hef hérna í ræðustól og halda sig aðeins til hlés. (Gripið fram í.) Það er ánægjulegt, frú forseti, að nú dregur fulltrúi Vinstri grænna í land með að það sé ætlun okkar að einkavæða vatn, en hins vegar hélt hv. þingmaður því fram áðan að við værum að styrkja eignarréttinn. Ég hef ekki fengið neina skýringu á því vegna þess að allar götur frá 1923 hafa fræðimenn og dómar túlkað vatnalögin þannig að þeim rétti væru engar skorður settar. Landeigendur hefðu full einkaeignarráð á þessari nýtingu á jörðum sínum. Svo heldur hv. þingmaður því fram að þetta frumvarp styrki eignarréttinn á kostnað almannaréttar. Þetta er mergurinn málsins. Menn geta reynt að tala út og suður úr þessum stól, um fiskveiðistjórnarmálin og alls konar hluti, en deilan hefur staðið um þetta í umræðunni með upphrópunum um illar ætlanir ríkisstjórnarinnar og stjórnarliðanna. Svo þegar allt kemur til alls geta menn ekki fært ein einustu rök fyrir því hverju þeir eru að halda fram. Ég hvet hv. þingmann til að færa einhver rök fyrir þessum staðhæfingum sínum. Hún er búin að draga í land með að það sé ætlun okkar að einkavæða vatnið, sem þingflokksformaður Vinstri grænna gerir þó ítrekað. Hvernig á þetta að verða á kostnað almannaréttarins? Ég bendi á ákvæðin sérstöku sem tryggja almannaréttinn.