132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[14:34]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er þetta kannski aðeins að fara að skýrast. Nú liggur það fyrir að stjórnarandstaðan er sammála því að vatnsréttindi eru keypt og seld, nú þegar. En hv. þingmaður sagði áðan að ef frumvarpið yrði að lögum þá yrði það mögulegt. (Gripið fram í.) Það er það hins vegar nú í dag.

Virðulegi forseti. Þá er það líka öllum ljóst að 15. gr. felur í sér forgang að vatni alveg eins og er í dag. Það er ekki lítið mál að þetta skuli koma fram í umræðunni hér og að stjórnarandstöðuþingmenn gangist við því vegna þess að svo sannarlega hafa þeir haldið öðru fram og reynt að afbaka umræðuna með því.

Hv. þingmaður minntist ekki á — en viðkomandi hv. þingmaður hefur tækifæri til að gangast við því hér á eftir — að sveitarfélög sjá ekki í öllum tilfellum um vatnsveitu sína núna. Vinstri grænir og Samfylkingin hafa komið að því þar sem teknar hafa verið ákvarðanir um að þannig skuli haga málum.

Þegar hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var spurð í morgun gat hún ekki svarað eftirfarandi spurningu en kannski getur hv. þm. Þuríður Backman það: Hvaða takmarkanir á eignarréttindum á vatni eru í núgildandi lögum frá árinu 1923? Hvaða takmarkanir eru til staðar? (EMS: Áttar þú þig ekki á því?) Hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur kannski svar við því en formaður hans gat ekki svarað því. Kannski getur hv. þm. Þuríður Backman svarað því. Það kemur í ljós.