132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[15:40]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég var fyrir stuttu, á föstudaginn var held ég að það hafi verið, á fyrirlestri í Háskóla Íslands hjá prófessor Karli Axelssyni sem var einn af þeim sem sömdu frumvarp þetta sem hér er til umræðu. Þar sagði hann, með leyfi forseta:

„Það hefur staðið meiri styr um vatn en önnur hlunnindi sem fylgja fasteign á Íslandi.“

Við þingmenn höfum vissulega verið þátttakendur í miklum styr undanfarna daga. Sá styr hefur staðið um grundvallarskilning á því hvað þetta fyrirliggjandi frumvarp felur í sér eða mun fela í sér. Það var ákaflega ánægjulegt að heyra hv. þingmann Samfylkingarinnar, Jóhönnu Sigurðardóttur, bókstaflega sanna það úr ræðustóli áðan að skilningur þingmanna stjórnarandstöðunnar á hvað fyrri löggjafi, sá sem lögleiddi vatnalögin 1923, meinti með löggjöf sinni og mismuninn á því hvað þetta frumvarp felur í sér og sanna það að við stjórnarandstöðuþingmenn höfum haft rétt fyrir okkur í þessu efni.

Frú forseti. Ég á sæti í landbúnaðarnefnd Alþingis. Frumvarpið kemur að ýmsu leyti inn á málefni sem snerta landbúnaðarnefnd og lög sem falla undir landbúnaðarnefnd. Þar má telja jarðalög, ábúendalög og einnig lög um varnir gegn landbroti. Ég ætla nú að fjalla í stuttu máli um hvernig frumvarpið kemur inn á þetta.

Í fyrsta lagi, og um það hef ég fjallað í tveim ræðum sem ég hef flutt um frumvarpið, stingur það strax í augum þegar maður hefur kynnt sér málefni landbúnaðarins, og ég tala ekki um sem íbúi landsbyggðarinnar eins og ég er, hvernig skilgreiningum er varið í frumvarpinu. Þar hef ég nefnt bæði búsþarfir og heimilisþarfir. Í skýringum með 3. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Búsþarfir eru skilgreindar sem búsþarfir til kvikfjárræktar. Í ljósi þess að vatnstaka til heimilis- og búsþarfa gengur fyrir annarri vatnsnýtingu, sbr. 15. gr. frumvarpsins, þykir nauðsynlegt að árétta að mörk búsþarfa miðast við kvikfjárrækt. Ástæða þess er sú að kvikfjárrækt er hinn hefðbundni landbúnaður þjóðarinnar. Nú á dögum nýta menn einnig lönd jarða sinna til garðávaxtaræktar, skógræktar, ylræktar, fiskeldis, undir sumarbústaði og ferðamannaþjónustu. Allt getur það stuðlað að því að halda jörðum í byggð, en sjaldnast er þá notaður nema lítill hluti lands jarðanna, sumt stundum tímabundið innan ársins (skógrækt, ferðamannaþjónusta) eða að umfangi langt umfram fjölskyldurekstur (fiskeldi, sums konar ylrækt).“

Nú er það svo, frú forseti, að eitt meginviðfangsefni sem við höfum með höndum þegar við erum að fjalla um byggðamál og búsetu á landsbyggðinni er hvernig megi styrkja búsetu til sveita. Það er einmitt af þeim sökum sem reynt hefur verið að styðja við og styrkja á sem mestan og bestan hátt þær greinar sem taldar eru upp í skýringunni við búsþarfir, en í þessu lagafrumvarpi er það allt saman sett til hliðar.

Það er einnig þannig, frú forseti, að mjög margar jarðir á Íslandi hafa farið úr landbúnaðarnotum á undanförnum árum en þær geta hins vegar hentað mjög vel til annarra nota en samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir hafa þessar jarðir engan rétt á vatni nema til heimilisnota vegna þess að þar er ekki stunduð kvikfjárrækt. Heimilisnot eru hér skilgreind, með leyfi frú forseta: „Þarfir til venjulegs heimilishalds.“

Ég þekki dæmi um bújarðir til sveita á Íslandi sem eru setnar vegna þess að fólkið þar starfar að uppeldisstörfum, hefur tekið að sér börn og unglinga úr þéttbýli eða annars staðar að sem þurfa í flestum tilfellum sérfræðingsaðstoð og uppeldi, í flestum tilfellum til styttri tíma. Þetta gerir þessu fólki kleift að búa í sveit og er þar að auki ákaflega gott fyrir börnin. En þessi starfsemi hefur sem sagt ekki forgang að vatni af því að þetta mundi ekki teljast til venjulegs heimilishalds.

Það segir áfram í skýringunni á skilgreiningunni við búsþarfir, með leyfi forseta:

„Miðun búsþarfa við kvikfjárrækt eina byggist á því að sá háttur búskapar felur í sér, eða getur falið í sér, nýtingu alls jarðnæðis, eftir því sem það er nýtanlegt. Kvikfjárræktinni fylgir eðlilega öll sú afurðavinnsla sem eðlileg eða venjuleg er á búinu sjálfu.“

Þá má spyrja að því hvað er eðlilegt, frú forseti. Nú hefur t.d. verið inni í umræðunni að koma upp heimavinnslu afurða til sveita. Það má spyrja hvort það teldist eðlilegt eða venjulegt á búinu. Það er alla vega ekki venjulegt í dag. En vonandi verður það venjulegt innan einhvers tíma ef það fæst í gegn fyrir þessu frumvarpi. En ég vitna áfram í frumvarpið, með leyfi forseta:

„Annar búskapur (fiskeldi, ylrækt, ferðamannaútvegur o.s.frv.) nýtir oftast aðeins lítinn hluta bújarðarinnar, en getur verið stórfelldur atvinnurekstur að öðru leyti, eða veitu neysluhæfs vatns er ekki þörf til hans (skógrækt). Þar er því ekki um hefðbundna nýtingu að ræða, svo sem tíðkast hefur frá upphafi Íslandsbyggðar, né er verið að viðhalda landnýtingu heilla jarða. Að sjálfsögðu er álitamál hvort viðhalda skuli slíkri landnýtingu yfir höfuð, en rétt var talið að útiloka ekki þann möguleika.“

Ég verð að segja það, frú forseti, að mér finnast höfundar þessa frumvarps sýna þróun til sveita ákaflega lítinn skilning og ég spyr mig hvort hæstv. landbúnaðarráðherra sé sáttur við hvernig farið er inn á málasvið hans í frumvarpinu en þetta er reyndar ekki eina dæmið.

Í frumvarpi til ábúðarlaga og reyndar til búnaðarlaga líka eða jarðalaga, frú forseti, er landbúnaður skilgreindur svo, með leyfi forseta:

„Landbúnaður merkir í lögum þessum hvers konar vörslu, verndun, nýtingu og ræktun búfjár, ferskvatnsdýra, lands og auðlinda þess til atvinnu- og verðmætasköpunar, matvælaframleiðslu og þjónustu er tengist slíkri starfsemi.“

Þetta á auðvitað, frú forseti, að nota til grundvallar í frumvarpi til vatnalaga því þetta er sú skilgreining sem notuð er þegar verið er að vinna með atvinnuhætti til sveita sem eins og ég sagði áðan er brýn nauðsyn á að efla en ekki að höggva að rótum þeirra eins og gert er með þessu frumvarpi.

Síðan langar mig, frú forseti, að benda á enn eitt atriði þar sem greinar í frumvarpi til vatnalaga stangast á við lagagrein, þ.e. í lögum til ábúðarlaga en þar segir í 11. gr., með leyfi forseta:

„Réttindi undanskilin leiguliðaafnotum. Undanskilin leiguliðaafnotum eru vatns- og jarðhitaréttindi, þ.m.t. jarðhiti, námur, byggingarefni, svo sem sand- og malarnámur og önnur jarðefni sem ekki geta talist til venjulegra leiguliðaafnota af jörð, einnig land til nauðsynlegra bygginga svo að eigandi geti hagnýtt þessi efni.“— Svo segir, frú forseti: — „Ábúandi á þó rétt á vatni til áveitu og heimilisrafstöðvar og til upphitunar á mannvirkjum jarðar, þ.m.t. gróðurhúsum til eigin atvinnurekstrar … svo og byggingarefni til búsþarfa.“

Þetta stangast beinlínis á við það sem lagt er til í frumvarpi til vatnalaga. Í þessum lögum, þ.e. ábúðarlögum, eru búsþarfir ekki skilgreindar en í þeim lögum merkja þær ekki það sama og búsþarfir í vatnalögunum. Eða hvernig ætti það að koma heim og saman þegar vatnalögin tengja búsþarfir aðeins kvikfjárrækt en búsþarfir ná þarna einnig utan um t.d. möl og sand?

Í 22. gr. frumvarpsins og reyndar í þeirri 14. líka er farið freklega inn á starfsemi Landgræðslu ríkisins sem heyrir undir landbúnaðarráðherra. Í 22. gr. segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er fasteignareiganda að breyta vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg eða önnur þau mannvirki í vatni eða við það sem nauðsynleg eru í því skyni að verja land eða landsnytjar gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns, til vatnsveitugerðar, áveitugerðar, orkunýtingar o.s.frv.“

Síðasta málsgreinin í þessari lagagrein hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ráðherra er rétt að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr. enda sé það gert til að verja fasteignir eða önnur mannvirki sem varða almannaheill. Heimilt er ráðherra að taka fasteignir eignarnámi í þessu skyni. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati.“

Ég vek sérstaklega athygli á því, frú forseti, að þarna er verið að tala um iðnaðarráðherra.

Í lögum nr. 91/2002, lög um varnir gegn landbroti, segir um tilgang laganna í 1. gr., með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með fyrirhleðslum gegn ágangi vatna.“ Síðan segir í 4. gr. 3. mgr., hlutverk Landgræðslu ríkisins, forgangsröðun: „Landgræðsla ríkisins telst ávallt vera framkvæmdaraðili þegar unnið er að fyrirhleðslum samkvæmt lögum þessum.“ Í 5. gr. segir um hlutverk umráðahafa lands og skráning Landgræðslu ríkisins: „Verði umráðahafi lands var við landbrot eða telji hættu á landbroti yfirvofandi skal hann tilkynna það til Landgræðslu ríkisins. Hún heldur skrá yfir landbrot eða staði þar sem hætta er á landbroti og metur hvar þörf á fyrirhleðslum er brýnust.“

Þarna er alveg greinilegt að iðnaðarráðherra er að seilast inn á verksvið hæstv. landbúnaðarráðherra. Síðan stendur í 6. gr., með leyfi forseta:

„Vilji landeigandi eða veiðifélag gera athugasemd við fyrirhugaða framkvæmd skal hún vera skrifleg og berast Landgræðslu ríkisins innan fjögurra vikna frá dagsetningu tilkynningar.“

En með frumvarpinu er iðnaðarráðherra að veita landeigendum rétt til að fara í framkvæmdir við varnir gegn landbroti án þess að hafa samráð við nokkurn eða spyrja kóng eða prest, ekki veiðifélög eða nokkurn annan, enda hefur komið athugasemd vegna þessarar greinar frá veiðifélögunum. Síðan stendur í 8. gr. laga um varnir gegn landbroti, með leyfi forseta:

„Landgræðsla ríkisins greiðir kostnað við varnir gegn landbroti, svo sem ákveðið er árlega í fjárlögum. Nú þarf með fyrirhleðslum eða á annan hátt að stöðva landbrot sem stofnar í hættu mannvirkjum í eigu ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða fyrirtækja sem eru að hálfu eða meiri hluta í eigu ríkis eða sveitarfélaga, svo sem samgöngumannvirkjum, raflínum eða öðrum dreifikerfum, og greiðir þá viðkomandi aðili allan kostnað, enda þótt í landi einstaklinga sé.“

Þarna hlýtur þá líka að vakna spurning um hvort viðkomandi landeigandi, ef hann fer í framkvæmdir samkvæmt heimild úr vatnalögum, eigi rétt á endurkröfu kostnaðar frá ríkinu eða hvort hann ber sjálfur kostnað vegna þess að hann hefur ekki leitað samráðs við Landgræðslu ríkisins. Ég sé að hæstv. landbúnaðarráðherra er að ganga hér frá og ég er glöð yfir því því ég held eða vona a.m.k. að hæstv. ráðherra hafi veitt því athygli hvernig hæstv. iðnaðarráðherra hefur farið eins og ryksuga um landbúnaðarráðuneytið og sogað til sín verkefni sem heyra undir hæstv. ráðherra lögum samkvæmt. Það hefur oft verið talað um það úr þessum ræðustóli og reyndar víðar í samfélaginu að verkefni landbúnaðarráðuneytisins séu svo rýr í roðinu að hæpið sé að þau réttlæti heilt ráðuneyti. Það er þá spurningin hvort hæstv. iðnaðarráðherra er að laumast til þess að taka til sín verkefni að hluta eða öllu leyti frá landbúnaðarráðuneytinu og höggva þannig enn að rótum þess.

Það stendur líka, frú forseti, í 8. gr., næstsíðustu málsgrein, að Landgræðslu ríkisins sé heimilt að styrkja framkvæmdir við fyrirhleðslur og að auglýst skuli eftir umsóknum. Þetta eykur enn þá eða veldur manni enn þá frekar umhugsun um hvernig fyrirhugað sé að dekka kostnað ef svo má segja, ef landeigandi fer út í það einn og sjálfur, án þess að spyrja kóng eða prest, að fara í fyrirhleðslur eða það sem heimilað er samkvæmt tillögu að 22. gr.

(Forseti (JóhS): Forseti vill spyrja hv. ræðumann hvort hún treysti sér til að ljúka máli sínu á næstu tveim mínútum eða hvort hún kjósi að finna heppilegan stað í ræðu sinni á þeim tveim mínútum til að fresta ræðunni.)

Já, frú forseti. Ég á ekki mikið eftir, ég hugsa að ég geti um það bil lokið ræðu minni, ég skal alla vega reyna það.

Frú forseti. Það hefur verið haft hér á orði oftar en einu sinni að með þessu frumvarpi sé verið að hreinsa lög, þ.e. að þetta sé lagahreinsun, en minn skilningur á þessu er sá að hér sé líka í gangi lagaóhreinkun af því að það er verið að fara inn á verksvið annarra laga og skapa óvissu. Það er mín skoðun að réttindi bænda og ekki bara bænda í þeim hefðbundna skilningi að það séu einungis þeir sem fást við kvikfjárrækt, heldur að réttindi þeirra sem búa úti á landsbyggðinni séu algerlega fyrir borð borin í þessu frumvarpi. Og það hryggir mig að verða vitni að því hve lítill skilningur er á því í þessu frumvarpi hvernig búseta á landsbyggðinni er að breytast og hve mikil þörf er á því að styðja við búháttabreytingar á landsbyggðinni en ekki skerða skilyrðin.

Það er líka sorglegt að sjá að það er beðið um umsagnir fjölmargra aðila eins og gert er ráð fyrir en það er ekki nokkurt tillit tekið til þeirra. Búnaðarþing hefur t.d. sent frá sér mjög ágætar ábendingar og það er ekki tekið tillit til þeirra, t.d. ekki í þeim skilgreiningum sem ég hef verið að tala hér um. Samband sveitarfélaga hefur sent frá sér ábendingar vegna fráveitna sem ég hef ekki fjallað um hérna. Það er heldur ekki tekið tillit til þeirra.

Frú forseti. Ég er búin að koma að mínum helstu ábendingum sem ég held að hafi ekki verið mikið fjallað um fram að þessu, þ.e. hvernig þetta frumvarp snýr að þeim sem búa á landsbyggðinni í dreifbýlinu og hvernig þetta fer inn á verksvið annars ráðuneytis og satt að segja skil ég ekki hvernig hæstv. landbúnaðarráðherra gat samþykkt að þetta frumvarp væri lagt fram í því formi sem það er hér núna. Það hlýtur eiginlega að skýrast af því að hann hafi ekki vitað almennilega hvað stóð í frumvarpinu því það getur ekki verið að hæstv. ráðherra samþykki það þegjandi og hljóðalaust vitandi vits að frá ráðuneyti hans séu tekin verkefni og færð undir annað ráðuneyti eða samþykkt það að sambærileg verkefni séu höfð með höndum í allt öðru ráðuneyti sem kemur því tiltekna málefni ekkert við. Eða hvað kemur iðnaðarráðuneytinu landgræðsla við frekar en iðnaðarráðuneytinu kemur við ungbarnaeftirlit eða viðhald vega eða eitthvað slíkt?

Ég ætla að láta þetta vera mín síðustu orð, frú forseti.