132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:00]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Nú erum við að ræða vatnalög en fundi var frestað vegna þess að upp komu óvænt tíðindi hvað varðar varnarsamstarf þjóðanna Íslands og Bandaríkjanna. Einnig bárust fréttir af því að dæmt hafi verið í Baugsmálum. Allt þetta hefur orsakað mikið hafarí og hæstv. ríkisstjórn verið kölluð saman til að ræða þessi mál til hlítar og reyna að samræma málflutning sinn.

Málið sem við ræðum um hér er í raun mun mikilvægara en þau fyrrnefndu þótt þau séu stór í þjóðlífinu. Við erum að ræða um framtíðarskipan vatnsmála, náttúruauðlinda þjóðarinnar. Í umræðunni hefur ríkisstjórnin látið í veðri vaka að málið sé ekki mikilvægt, eingöngu sé um að ræða formbreytingu. En það er af og frá, frú forseti. Hér er um mikilvæga efnisbreytingu að ræða. Það sem skiptir verulegu máli er í deilum um málið, sem dregist hafa á langinn í þinginu, hefur fengist sú niðurstaða að klára málin, með þeim fyrirvara að lögin taki ekki gildi fyrr en eftir næstu kosningar. Þar með er möguleiki fyrir kjósendur í landinu, ef þeir halda vöku sinni, til að hnekkja þessum ólögum. Þau er einn liðurinn í því að færa náttúruauðlindir þjóðarinnar frá fólkinu og til vina Framsóknarflokksins.

Ég hef skoðað hvernig á því stendur að Framsóknarflokkurinn, með hjálp Sjálfstæðisflokksins að vísu, það má ekki gleyma honum, gengur svona til verks. Ég hef víða leitað fanga til að fá skýringar á því hvað valdi vegna þess að Framsóknarflokkurinn byggir á samvinnuhugsjóninni. Ég greip til þess ráðs að lesa mér til um samvinnuhugsjónina, t.d. Pétur Jónsson frá Gautlöndum sem var einn helsti forvígismaður framsóknarmanna. Ég verð að segja að eftir að hafa farið og lesið rækilega í gegnum sögu Framsóknarflokksins er núverandi forusta komin langt frá uppruna sínum. Hún er vill vegar og ég vara fólk við, sem telur sig samvinnufólk, að taka þátt í þessum félagsskap. Þetta er í raun alveg svakalegt. Þegar maður les um markmið samvinnuhreyfingarinnar og fer síðan í gegnum stjórnarathafnir síðustu ára þá stangast það algerlega á og er ekkert samræmi í því.

Við verðum að líta til þess að upphaflegt markmið flokksins var að byggja upp landið. En nú hefur Framsóknarflokkurinn staðið í því að rífa niður landsbyggðina, ekki bara með þessu frumvarpi sem hæstv. iðnaðarráðherra er að leggja fram heldur líka með því að leggja sjávarbyggðir landsins í auðn með því að setja fiskveiðiauðlindina í einkaeign. Þeir stefna a.m.k. að því. Ég er á því að Framsóknarflokkurinn og forusta hans hafi ævarandi skömm fyrir. Ég er nokkuð sannfærður um að ef þeir sem kenna sig við samvinnuhugsjónina eða voru forvígismenn hennar í upphafi síðustu aldar yrðu vitni að verkum Framsóknarflokksins yrðu þeir yfir sig hneykslaðir á því hvernig komið er fyrir þeim flokki. Þegar maður les í gegnum sögu samvinnuhreyfingarinnar og horfir síðan á verk hæstv. forsætisráðherra, hvernig hann hefur sölsað ríkiseignir undir flokksvini og aðra félaga, þá er það alveg með ólíkindum.

Ég ætla ekki að fara rækilega yfir sögu flokksins eins og ég hafði hugsað mér. Hins vegar er aldrei að vita nema einhverjir framsóknarmenn óski eftir endurmenntun hjá þeim sem hér stendur varðandi samvinnuhreyfinguna og samvinnuhugsjón, jafnvel að Háskóli Íslands kalli mig til til að endurmennta framsóknarmenn svo að þeir nái tengslum við uppruna sinn. Jafnvel kæmi til greina að framsóknarfélög víða um land kalli mig til að fara í gegnum sögu þeirra. Þetta er merkileg saga og greinilegt að forusta flokksins er komin langt frá uppruna sínum. Ég get t.d. nefnt það sem fram kemur í umsögnum frá Bændasamtökunum með þessu frumvarpi. Þar kemur fram að ekki hafi verið í neinu tekið tillit til óska bænda hvað varðar breytingar á frumvarpinu.

Því er haldið fram að aðeins sé um formbreytingu að ræða. En það er ekki rétt. Hér er um mikla efnisbreytingu að ræða. Það virðist að einhverju leyti koma hv. þm. Pétri H. Blöndal á óvart en svo er ekki og ég get gert grein fyrir því. En hafa ber í huga að slíkt ástand yrði ekki innleitt fyrr en eftir næstu kosningar þannig að kjósendur geta hrundið þessari sókn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í að einkavæða þessa auðlind. Málið snýst ekki eingöngu um að verið sé að einkavæða auðlindina heldur er gert ráð fyrir að setja ákveðna nýtingu í forgang, ýta til hliðar annarri nýtingu. Sú nýting sem komin er í forgang, frú forseti, er nýting til orkuvinnslu. En ef það er tengt landbúnaði þá er hann settur aftar í röðina en orkunýting framar. Einnig hafa laxveiðiréttareigendur efasemdir um þetta frumvarp. Það er sem sagt verið að setja orkunýtingu í forgrunn en aftar er sett öll önnur nýting.

Ég vil koma með nýjan flöt á þessari umræðu og væri fróðlegt að fá að heyra um það í andsvörum, jafnvel frá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ég vil að menn virði eignarréttinn og … (Gripið fram í: Nú?) Já, það kemur viðkomandi þingmönnum á óvart en í þessu frumvarpi er eignarnám á löndum bænda auðveldað. Það hefur komið fram, m.a. á fundum iðnaðarnefndar, að frumvarpið sem hér um ræðir auðveldi það og komi jafnvel til góða varðandi eignarnám sem þarf að fara fram í Kárahnjúkum. Það kom skýrt fram. Ég hef í huga að menn taki annan pól í hæðina og velti jafnvel fyrir sér leigunámi. Skoðum t.d. bændur sem þurfa að láta jarðir sínar undir vegi hjá Vegagerðinni. Síðan er lagður vegur og landið tekið eignarnámi. En síðan er veginum breytt sem leiðir til þess að ríkið á einhverjar ræmur hér og þar í sveitum landsins. Þetta er eitt af því sem menn ættu að huga að varðandi það hvort endilega sé þörf á að taka allt eignarnámi.

Við höfum nýleg dæmi um það í Reykjavík að land var tekið eignarnámi uppi á Rjúpnahæðum. Það var fyrir Símann, einhver fjarskiptamöstur. Síðan lendir þetta land inni í ríkisfyrirtæki sem er selt. Það verður að segjast að verðið sem bændur fengu greitt fyrir landið sem var tekið eignarnámi er víðs fjarri markaðsvirðinu í dag. Við eigum ekki að ganga lengra á rétt bænda og eignarréttinn en þörf krefur. Það er tími til kominn að skoða hvort þörf er á að taka allt eignarnámi.

Það er vert að velta upp fleiri hliðum á þessu máli. Hvers vegna í ósköpunum vill t.d. hæstv. iðnaðarráðherra endilega ræða framtíð mála hvað varðar skipan vatns, þessarar lífsnauðsynjar og auðlindar, án þess að taka umhverfismálin með? Það er aftan úr forneskju að ræða málin með þeim hætti. Við verðum að gæta að því að þótt við eigum mikið af auðlindinni núna þá er ekki svo um allar þjóðir. Að eiga þessa auðlind óspillta felur í sér gríðarleg verðmæti. Í ýmsum löndum, t.d. Englandi þar sem er þéttbýlla og meiri iðnaður, þurfa bæði fyrirtæki og vatnsveitur að kosta gífurlega miklum fjármunum til til þess að hreinsa aðskotaefni úr vatni. Þetta er auðlind. Hvers vegna reynum við ekki að varðveita hana og ræða þetta saman þannig að það haldist þannig? En það virðist eitthvert metnaðarmál hjá hæstv. ráðherra að horfa eingöngu til vatnsauðlindarinnar til orkunýtingar. Það skín í gegnum þetta frumvarp að eingöngu er horft til þess þáttar. Þar er Orkustofnun yfir öllu. Ég verð að segja að þetta eru gamaldags viðhorf. Menn munu örugglega hrista hausinn yfir málinu innan ekki svo margra ára.

Ég hef áður farið stuttlega yfir greinar frumvarpsins og bent á að allur VII. kaflinn miðar í raun að því að hver svo sem vilji landeigenda sé þá geti hæstv. ráðherra alltaf náð fram eignarnámi til orkunýtingar. Þetta er rauði þráðurinn í þessu frumvarpi.

Annað sem er mjög sérkennilegt, sem ég tel verða til að flækja málin, eru þessi vatnafélög. Menn sem hafa lesið þetta frumvarp, menn úr báðum stjórnarflokkum, bæði Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, hafa varað við þessum vatnafélögum. Þeir telja að þau verði einfaldlega til að flækja stjórnsýsluna þar sem óvíst er hvað samþykkt vatnafélags hefur í för með sér. Vatnafélög ná ekki yfir allt vatnasviðið eins og veiðifélög og ég er á því að ríkisstjórnin ætti að sjá að sér með þetta frumvarp. Það liggur ekki á með þetta. Það hefur að vísu verið samþykkt að þetta frumvarp öðlist ekki gildi, þótt það verði samþykkt, fyrr en eftir næstu kosningar. Þrátt fyrir það ættu menn að fara með þetta frumvarp eins og fjölmiðlafrumvarpið enda má segja að það sé komið úr sama ranni. Sömu sérfræðingar unnu að einhverju leyti að báðum frumvörpunum, fjölmiðlafrumvarpi sem ríkisstjórnin féll frá og sá að var ekki vit í að fara með í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það væri hægt að hafa langt mál um þetta frumvarp. Reyndar eru síðustu dagar til marks um það. Ég hef haft að markmiði að þessi ræða verði ekki lengri en 15 mínútur. Ég hefði mátt fara ítarlegar yfir vissa þætti en það verður fróðlegt að fá að heyra frá hv. þm. Pétri H. Blöndal hvaða athugasemdir hann hefur fram að færa. Ég hef einmitt hvatt til að menn standi vörð um eignarrétt bænda í stað þess að útþynna hugtök eins og netlög, frú forseti. Ég sé að hæstv. ráðherra er steinhissa. Ég vil bara benda hæstv. ráðherra vegna þess að hún er svo hissa á að ég telji að standa eigi vörð um eignarrétt bænda, að hún virðist ekki hafa kynnt sér umsögn Bændasamtakanna. Þeir lýsa furðu sinni á þessu (Gripið fram í.) og segja að þetta frumvarp taki í engu tillit til fyrri athugasemda Bændasamtakanna. Ég er hálfhissa á þessu en þó í raun ekki neitt hissa vegna þess að verk Framsóknarflokksins síðasta áratug hafa verið með þeim hætti að þeir hafa rústað byggðinni í kringum landið.

Þegar hæstv. byggðamálaráðherra hefur verið spurður út í þessi verk sín þá hefur hún hjalað um það á heimasíðu sinni að hún taki ekki þátt í einhverju föndri hér og þar. Ég vil segja að ég vonast til að venjulegir framsóknarmenn fari að hugsa sinn gang. Námskeiðið stendur til boða.