132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:16]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var skrýtin ræða. Ég held ég hafi skilið hv. þingmann rétt er hann sagði að þetta frumvarp væri ekki formbreyting heldur væri það eðlisbreyting … (SigurjÞ: Efnisbreyting.) … efnisbreyting og að einkavæða ætti þessa auðlind, sagði hv. þingmaður. Hann talaði um einkavæðingu auðlindarinnar og hann væri á móti því, heyrðist mér. Svo segir hann jafnframt, frú forseti, að hann sé hlynntur einkaeign. Hvernig má það vera? (Gripið fram í.) Í sömu ræðunni, sem var ekki voðalega löng, segir hann þetta og hitt. Ég vil spyrja: Hvort er hv. þingmaður hlynntur því að bændur eigi vatnið eða að bændur eigi ekki vatnið?

Svo vil ég benda hv. þingmanni á hverjir eiga land á Íslandi. Ríkið á allar þjóðlendurnar, 40% af landinu. Sveitarfélögin eiga heilmikið land í kringum hvert sveitarfélag og bændur og örfáir aðrir landeigendur eiga afganginn. Þessir aðilar, ríkið, sveitarfélög og bændur, munu koma að því sem hv. þingmaður kallar einkavæðingu þessarar auðlindar. Ég er ekki sammála því. En hv. þingmaður notast við það orðalag. Er hann á móti því að bændur fái meiri einkaeign? Það er spurning. Hvernig telur hv. þingmaður, fyrst þetta er svo mikil efnisbreyting, að þetta frumvarp breyti verðmæti jarða bænda? Hækkar það verð á jörðum eða lækkar það verðið?

Síðan vil ég spyrja þingmanninn: Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagðist vilja ganga í aðra átt og vildi þjóðnýta vatnið, tekur hv. þingmaður undir það?