132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:19]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Deilan stendur um þá skilgreiningu sem er nú, hvort menn eigi rétt til að nýta vatn, eða hvort menn eigi vatn. Það sem hefur komið fram, m.a. hjá Bændasamtökunum, og ég vonast til þess að hv. þingmaður hafi kynnt sér umsögn þeirra, er að ekki sé tekið tillit til þarfa bænda til að nýta vatn. Það kemur fram. Við skulum fara í gegnum þá umsögn. Hér segir að ekki hafi verið tekið í einu né neinu tillit til athugasemda Bændasamtakanna.

„Frumvarpið hefur nú verið yfirfarið á nýjan leik og kemur þá í ljós að athugasemdir Bændasamtakanna hafa að engu verið hafðar.“

Um þetta snýst málið. Varðandi það hvort ég vilji þjóðnýta vatnið þá verðum við að ganga skynsamlega um auðlindina svo hún nýtist allri þjóðinni. Ég held að við þingmenn sem sitjum í þessum sal eigum að horfa þannig á málið, horfa á heildarhagsmuni þjóðarinnar.

Það kemur fram að bændur vilja breytingar á þessu frumvarpi. Þeir horfa ekki, eins og hæstv. ráðherra, eingöngu til að nýta vatn til orkuframleiðslu. Það er hægt að gera margt annað. Í umsögn Landssambands veiðifélaga kemur fram að þeir horfa ekki eingöngu á vatnið út frá því að af því fáist rafmagn. Það er hægt að gera margt fallegt við vatnið. Við eigum að vernda það.

Ég vona að þingmenn kynni sér umsagnir frá hagsmunaaðilum áður en þeir fara að túlka sjónarmið þeirra því að þau koma skýrt fram í gögnum málsins.