132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:27]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er enn jafnefins ef ekki meira efins um að þeir aðilar sem skipa núna stjórnarandstöðu geti náð saman um nokkra aðra skipan á þessum lögum. Einn talar fyrir þjóðnýtingu og annar fyrir styrkingu eignarréttar bænda. Síðan nýta menn tíu mínútur, sem þeir setja sér sem hámark í ræðu, til að ræða samvinnuhugsjónina og hafa mörg orð um hvernig þeir reyna öllum stundum að tileinka sér hana.

En deilan, eftir því sem hefur verið látið í veðri vaka í umræðunni, hefur snúist um neikvæða eða jákvæða skilgreiningu. Svo ég haldi því til haga í þessari umræðu, í skoðanaskiptum við hv. þm. Sigurjón Þórðarson, þá er ástæða mín fyrir stuðningi við þetta frumvarp sú að fyrirkomulagið sem nú er á skilgreiningunni skipti engu máli um inntak eignarráða fasteignareiganda yfir vatni.