132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:31]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er fullyrt að þetta sé ekki slæmt fyrir bændur vegna þess að þeir áttu einn fulltrúa í nefndinni. Ég vil minna á að stundum hafa samtök sveitarfélaga átt fulltrúa í nefndum sem hafa haft til meðferðar lagafrumvörp og síðan þegar lagafrumvarpið hefur fengið umfjöllun frá sveitarfélögum víðs vegar um land þá hefur það fengið falleinkunn.

Það er ekki hægt að skuldbinda heil samtök vegna þess að einhver ákveðinn fulltrúi hafi ekki staðið vakt bænda í málinu, það eru einfaldlega ekki rök í málinu. Það hafa komið fram ítarlegar athugasemdir við þetta frumvarp frá bændum. Vegna þess að það er alltaf spurt um einkavæðingu, nýtingarrétt og yfirráðarétt bænda yfir auðlindum þeirra þá vil ég að það komi fram að ég vil styrkja þann rétt bænda. Þetta mál snýst um nýtingarrétt en ekki einhvern einkarétt sem miðar allur að því í þessu frumvarpi að iðnaðarráðherra geti þrýst á um orkunýtingu.

En ef það er fiskrækt eða fiskeldi eða eitthvað annað sem bændur vilja byggja upp þá er því ekki gert hátt undir höfði í þessu frumvarpi. Ég vonast til að hv. þingmaður gæti sannmælis og fari í gegnum þetta, sérstaklega 20. gr. og allan VII. kaflann. Það gengur allt út á að virkja, orkunýting. Ef menn ætla að fara með einhverja aðra atvinnustarfsemi, þá er ekki minnst á það í þessu frumvarpi. Enda kemur það fram í frumvarpinu. Landssamtök veiðifélaga gefur þessu falleinkunn, sömuleiðis Bændasamtökin og Umhverfisstofnun. Ég er á því að við í stjórnarandstöðunni höfum í rauninni bjargað stjórnarliðinu frá þessu frumvarpi. Það skyldi þó aldrei vera að þó svo að þessir flokkar mundu (Forseti hringir.) hanga saman til næstu kosninga að þeir sameinuðust þá í því. (Forseti hringir.) Það yrði þeirra fyrsta verk að fella þetta (Forseti hringir.) frumvarp á fundi.