132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:54]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þingmanns og ég er alveg sannfærð um að hún telur að með því að fara þá leið sem farin er í þessu frumvarpi, þ.e. að skilgreina eignarréttinn neikvætt eða að fara út í þessa neikvæðu skilgreiningu á réttindum, sé farin hin eina rétta leið. En einmitt um þetta atriði erum við ekki sammála og það er það sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að reyna að sýna fram á síðustu daga og hv. þingmaður hefur án efa heyrt í ræðum okkar og kannski sérstaklega í dag. Ég vil, virðulegi forseti, fá að vitna til greinar eftir Eyvind Gunnarsson, en þessi hluti greinarinnar er jafnframt líka orðréttur í frumvarpinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ástæða þess að fremur er stuðst við neikvæða skilgreiningu á hugtakinu eignarréttur er sú að jákvæð skilgreining, þ.e. skilgreining þar sem taldar eru upp allar heimildir eiganda, sem í eignarrétti geta falist, yrði of viðamikil og sennilega aldrei tæmandi og því í eðli sínu ófullkomin.“

Þetta segir mér, virðulegi forseti, að hv. þm. Jónína Bjartmarz telji að geirnegla verði eignarréttinn núna og gera hann fullkominn og tæmandi til framtíðar, vegna þess að það er það sem maður les úr þeim texta sem fylgir greinargerðinni með þessu frumvarpi. Það er einmitt um þetta sem deilt er, vegna þess að við höfum talið að nota ætti hina jákvæðu skilgreiningu af því að við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Og að geirnegla eignarréttinn með þessum hætti þannig að hann sé tæmandi og „fullkominn“ til framtíðar teljum við vafasama leið og býsna hættulega til framtíðar litið af því að við vitum ekki hvað hún ber í skauti sér.