132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[21:04]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er talað um að festa í stjórnarskrána að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Ég vona að báðir flokkarnir standi við það. Í ályktun um vatn fyrir alla, sem ekki hefur verið dregin til baka, segir m.a., en hv. þingmaður sagði að hún gæti tekið undir alla ályktunina, með leyfi forseta:

„Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telja undirrituð samtök nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög og reglugerðir um nýtingu vatns taki því mið af ákvæðum sem viðurkenna rétt einstaklinga til vatns sem og lögum er varða verndun vatns og náttúru.“

Virðulegi forseti. Spurningin er einföld. Á að setja þetta í stjórnarskrá eða ekki, að mati þingmannsins og skilgreina síðan í lögum nýtingarréttinn, líkt og hv. ríkisstjórn hefur lofað að gera með fiskinn í sjónum?