132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[21:24]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Það sem öllu skiptir í allri þessari umræðu er að nákvæmlega sömu eignarráð og fasteignareigandi öðlaðist yfir vatni 1923 mun hann eiga áfram, samkvæmt þessu.

Hv. þingmaður gerði í ræðu sinni á hófstilltan hátt greinarmun á milli þess sem segir í núgildandi vatnalögum, sem hann kallar umráðarétt og ráðstöfunarrétt, og síðan einkaeignarréttar. Kjarninn er sá að fræðimenn hafa síðan 1923 túlkað alla þessa upptalningu réttinda í lögunum frá 1923 sem fullan einkarétt.

Svoleiðis verður það áfram, nema menn ætli með breyttum lögum að taka þennan rétt af bændum. Svo má alveg taka undir að það sé rétt að minnast á vatn sem auðlind í stjórnarskránni. En stóra spurningin hlýtur að vera sú hvort menn ætli með því að breyta réttarstöðu og eignarrétti bænda að vatni á jörðum sínum.

Það er nefnilega þannig að það skiptir ekki öllu hvort hlutirnir eru nefndir í stjórnarskrá eða lögum, heldur kannski, frú forseti, hvað stjórnarskrárlögin segja um viðkomandi efni. Þess vegna má segja sem svo að ekki skaði að telja upp vatn í stjórnarskránni í einhverri markmiðssetningu sem slíkri.

En ég má hins vegar ætla, miðað við fyrri málflutning hv. þm. Jóns Bjarnasonar, að hann vilji með því að setja ákvæði í stjórnarskrá svipta bændur þeim rétti sem þeir hafa haft yfir vatni á jörðum sínum síðan 1923.