132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Dómur í Baugsmálinu.

[10:37]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég hef ákveðið að koma upp undir liðnum um störf þingsins til að inna hæstv. dómsmálaráðherra eftir viðbrögðum við sýknudómi héraðsdóms frá því í gær í Baugsmálinu. Baugsmálið hefur verið hæstv. dómsmálaráðherra mjög mikið hjartans mál og í raun áhyggjumál og hefur hann fjallað um það í löngu máli á heimasíðu sinni þannig að það væri fróðlegt að fá að heyra viðbrögð hans nú, þegar ákveðin tímamót hafa orðið í þessu máli, hvort hann telji ekki við hæfi að fara yfir málið hér rétt eins og á heimasíðu sinni. Einhvern tíma lét hann þau orð falla að ákæruvaldið hefði ekki sagt sitt síðasta orð í þessu máli og það væri fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort hann telji svo enn þá vera. Þessi málarekstur hefur kostað skattborgarana gríðarlegt fé, mælt ekki í tugum heldur hundruðum milljóna. Þetta hefur einnig kostað þá sem hafa sætt ákæru gríðarlegar upphæðir. Jafnvel hafa verið leiddar að því líkur að þetta hafi kostað þjóðarbúið milljarða. Þess vegna er það ábyrgðarhlutur ef ákæruvaldið og lögreglan hefur gert gríðarleg mistök, ekki einu sinni heldur hvað eftir annað. Ákæruliðum hefur verið vísað frá og síðan var sýknað í þeim ákæruatriðum sem náðu til dóms.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann ætli að axla einhverja pólitíska ábyrgð í þessu máli. Mér finnst það vera orðin tímabær spurning til dómsmálaráðherra sem er yfirmaður lögreglunnar, ákæruvaldsins og dómsvaldsins í þjóðfélaginu hvort hann ætli að axla ábyrgð. Eða ætlar hann bara að láta þetta mál hjá líða rétt eins og þegar fyrrum formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins hafði verið gripinn glóðvolgur við að sækja sér eigur ríkisins? Þá vildi hæstv. dómsmálaráðherra ekki axla neina ábyrgð.

Við verðum að gæta að því að eini maðurinn sem hefur axlað pólitíska ábyrgð á umliðnum árum er fyrrum borgarstjóri en höfuðpaurinn í því máli, olíusamráðssvindlsmálinu, er núna í opinberum erindagjörðum á kostnað skattborgaranna, á kostnað allra þeirra sem hann hefur haft af fé þegar þeir hafa dælt bensíni á bílinn sinn (Forseti hringir.) og þetta er eitthvað sem væri fróðlegt að fá að heyra viðbrögð við (Forseti hringir.) hjá hæstv. dómsmálaráðherra.