132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Dómur í Baugsmálinu.

[10:42]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ef maður er dómsmálaráðherra verður maður að sæta því að vera það 24 tíma á sólarhring. Maður er þá dómsmálaráðherra í ráðuneytinu og þar sem maður kemur fram sem dómsmálaráðherra, og á Alþingi og á heimili sínu og á heimasíðu sinni, forseti, þannig að dómsmálaráðherra verður að gæta að því að ef hann tekur eina afstöðu á einum stað gildir hún um alla aðra staði líka.

Hér vakna spurningar eftir dóminn í gær um m.a. kostnað við málið. Er það rétt, forseti, að þetta mál hafi nú kostað 100 millj., 200, jafnvel hálfan milljarð eins og heyrðist fleygt í bænum í gær, að þetta væri hálfur milljarður? Getur hæstv. dómsmálaráðherra svarað því? Hann á að svara þinginu til um þetta. Við eigum að vita hvað verður um fé skattborgaranna, hvernig því er eytt, hver forgangsröðin er við ráðstöfun þess.

Hvað hefur þetta mál tekið langan tíma í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra? Eru það þrjú ár eða fjögur ár? Hver mannafli hefur farið í þetta mál sem endar með sýknudómi í Héraðsdómi, a.m.k. eins og það stendur nú? Hvaða mál hafa verið látin bíða, forseti, vegna þess að það þurfti að koma þessu máli fram? Er það rétt að hagsmunir dómsmálaráðherra sem stjórnmálamanns, fordómar dómsmálaráðherra sem stjórnmálamanns, hafi ráðið málatilbúnaði í þessu máli?

Hæstv. dómsmálaráðherra á að gera Alþingi grein fyrir þessu en ekki sitja hér gneypur með sinn skömmustusvip eins og hann gerir hér við borðið, forseti.