132. löggjafarþing — 87. fundur,  16. mars 2006.

Dómur í Baugsmálinu.

[10:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða um lagalegar hliðar Baugsmálsins, sem svo er nefnt, eða þann dómsúrskurð sem kveðinn var upp í gær. Ég hef hvorki til þess vilja né forsendur á þessari stundu til að ræða þær hliðar málsins.

En ég vil ítreka af þessu tilefni það sem ég hef áður sagt í tengslum við þetta mál, að Íslendingum ber að taka alvarlega þau varnaðarorð og ábendingar sem m.a. hafa borist erlendis frá um að okkur beri að efla þá starfsemi innan lögreglunnar sem lýtur að efnahagsbrotum. Það á að verða sá lærdómur sem við drögum af þessu máli.

Hæstv. dómsmálaráðherra er mjög upptekinn þessa dagana við að koma á öryggiseftirliti. Efla það sem hann kallar greiningardeildir sem eiga að rannsaka meint landráð eða hugsanleg lögbrot í framtíðinni.

En þetta er efnissvið sem hefur verið vanrækt á undanförnum árum og ég tel mikilvægt að við beinum sjónum okkar að því.